18.12.1978
Neðri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1730 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

126. mál, Seðlabanki Íslands

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir af hálfu ríkisstj., fjallar um það að heimila að skrá afurðalán í lánskjörum í erlendum gjaldeyri þó lánið verði afgreitt í íslenskum krónum. Gert er ráð fyrir að lánin séu gengistryggð, eins og það er kallað, og vextir verði 8.5% frá áramótum af þessum lánum, en vextir af afurðalánum eru núna um 18%. Þessu mun fylgja það, að gert er ráð fyrir að hlutur Seðlabankans í afurðalánum verði nokkru minni en nú er, en hlutur viðskiptabanka aukinn að sama skapi. Um leið og það gerðist þyrfti að styrkja stöðu viðskiptabankanna, og hefur verið rætt um að draga úr kaupum þeirra á skuldabréfum Framkvæmdasjóðs, en ákvarðanir í þeim efnum liggja ekki fyrir. Auk þessa er gert ráð fyrir að framleiðslufyrirtæki í sjávarútvegi fái útflutningslán við útskipun þar til varan er greidd erlendis. Þessi lán yrðu að sjálfsögðu í erlendri mynt og hefði það í för með sér verulegan bata í lausafjárstöðu fyrirtækjanna, um upphæð sem áætluð hefur verið um einn milljarð kr.

Frv. er flutt til þess að taka af öll tvímæla um að Seðlabankinn hafi heimild til þess að veita lán með þeim kjörum sem hér um ræðir, og þetta fyrirkomulag á að gilda frá áramótum. Til þess að þetta fyrirkomulag komist í framkvæmd þarf allviðamiklar og flóknar tæknilegar breytingar og undirbúning af hálfu bankakerfisins, og sá undirbúningur stendur nú, þannig að það á að vera hægt að koma þessu í framkvæmd frá áramótum og þar með á að vera staðið við það fyrirheit, sem gefið var í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna, að bæta með sérstökum ráðstöfunum í vaxtamálum og fleiru kjör útflutningsatvinnuveganna sem svarar um 2.5% í afkomu þeirra.

Forráðamenn fyrirtækja í sjávarútvegi leggja mjög mikla áherslu á að þetta mál nái fram að ganga. Þeir telja verulegar hagsbætur í því fólgnar. Einkum leggja þeir áherslu á öryggissjónarmið í þessu efni, því að auðvitað er gert ráð fyrir að birgðir verði afreiknaðar á dagsgengi, þannig að svokallaðir gengismunarsjóðir falli ekki til með sama hætti og verið hefur, heldur gangi það til framleiðendanna og útflytjendanna hverju sinni sem þeim tilheyrir, jafnvel þó að um gengisbreytingar sé að ræða.

Það er ljóst og viðurkennt af öllum sem starfa við framleiðsluatvinnuvegina á Íslandi, að vextir eru þar mjög háir og erfiður þáttur í rekstrarkostnaði þeirra, og hér er gerð tilraun til að lækka vaxtakostnaðinn nokkuð. Auðvitað er það þannig, að því aðeins verður hér um raunverulega vaxtalækkun að ræða að okkur takist að hafa hemil á verðbólgu og gengi á næsta ári. Takist það ekki segir það sig sjálft, að erfitt mun verða fyrir fyrirtækin að standa undir þeim kostnaði sem til fellur af lækkandi gengisskráningu íslensku krónunnar. Engu að síður leggja forráðamenn fyrirtækja í sjávarútvegi mjög mikla áherslu á að þessu verði komið í framkvæmd, leggja þar áherslu á öryggisatriðið.

Ég flutti allítarlegt mál fyrir þessu frv. í hv. Ed., sem hefur lokið umfjöllun málsins og afgreitt það samhljóða. Með tilliti til þess knappa tíma, sem hér er í öllum umr. á Alþ. nú, ætlaði ég ekki að flytja langt mál í framsögu fyrir þessu máli að sinni. Ég vænti þess, að þeir menn, sem hafa haft forustu um undirbúning þessa máls í Seðlabanka, einkum Davíð Ólafsson bankastjóri, verði reiðubúnir til þess að veita hv. fjh.- og viðskn. d. allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar kunna að verða. En ég ætla að lokum að lesa, með leyfi hæstv. forseta, útdrátt úr bréfi sem bankastjórinn skrifaði formanni fjh.- og viðskn. Ed. út af þessu máli, þar sem bankastjórinn svaraði fsp. sem fram höfðu komið varðandi endurkaup Seðlabankans á afurðalánum og áhrif þeirra á efnahagskerfið. Í þessu bréfi Seðlabankans segir á þessa leið:

„Á fundi með n. í dag, þar sem rætt var um frv. til l. um breyt. á l. nr. 10 29. mars 1961, um Seðlabanka Íslands, sbr. 3. gr. l. nr. 10 13. maí 1964, komu fram tvö atriði sem óskað var frekari greinargerðar um.

Hið fyrra var varðandi það atriði, hverjar ráðstafanir væru nauðsynlegar til þess að leiðrétta það misvægi sem skapast hefði milli endurkaupa Seðlabankans annars vegar og bundinna innstæðna innlánsstofnana í bankanum hins vegar.“

Í þessu bréfi er þessu næst vísað til alllangrar grg. um þróun endurkaupa bundins fjár og viðhorfa í þeim efnum sem nýlega hefur verið samin í Seðlabankanum. Í ljósi þess, sem fram kemur í þessari grg., hefur bankastjórn Seðlabankans gert till. til ríkisstj. í skýrslu, dags. 5. nóv. s.l., um eftirfarandi aðgerðir til þess að draga úr aukningu endurkaupa umfram bundið fé:

Gerðar verði breytingar á verkaskiptingu Seðlabankans og viðskiptabankanna á sviði afurðalána í þá átt að draga úr aukningu til endurkaupa, svo að þau komist í framtíðinni niður fyrir upphæð bundins fjár í Seðlabankanum. Þessu marki verði einkum náð með eftirtöldum ráðstöfunum:

a. Viðskiptabankarnir verði leystir undan öllum kvöðum um að lána hluta árlegrar innstæðuaukningar til Framkvæmdasjóðs. — Endanleg ákvörðun um þetta atriði hefur ekki verið tekin og verður auðvitað að takast í tengslum við lánsfjáráætlun.

b. Það svigrúm sem þannig skapast verði notað til þess, að viðskiptabankarnir geti tekið að sér stærri hluta af fjármögnun afurðalána, einkum lána út á framleiðslu til sölu á innlendum markaði.

c. Líklega er óhjákvæmilegt að gera þessa breytingu á 2–3 árum, en verulegt skref þarf að taka þegar á næsta ári. — Síðan er birt hér tafla um valkosti í þessum efnum, þar sem m.a. er gert fyrir því, að sá hluti afurðalána, sem kemur í hlut Seðlabankans, verði 51% eða 53.5%, en hlutur viðbótarlánanna yrði þá þar á móti 24% eða 21.5% að því er varðar sjávarútveg og útflutningsiðnað.

Ég endurtek það, að ákvarðanir um þessi efni liggja ekki fyrir og verða að takast samhliða öðrum ákvörðunum um peningamálastefnuna á árinu 1979. Eins og hv. þm. er vel kunnugt hafa verið mjög veruleg vandkvæði í bankakerfinu á undanförnum árum vegna þess að endurkaup hafa farið langt fram úr bundnu fé og hefur þetta komist upp í 9 milljarða í eitt skipti á síðustu mánuðum. Þarna er um verulegar þrengingar að ræða og vandamál og mikla og vaxandi ásókn atvinnuveganna í aukna lánsfyrirgreiðslu sem bankakerfið hefur ekki verið fært um að sinna.

Í tengslum við þær hugmyndir, sem ræddar hafa verið í ríkisstj. um lánsfjáráætlun á árinu 1979, hefur verið rætt um peningamálastefnuna almennt á því ári, og ég tel að það sé alveg augljóst mál, að þar verði jafnframt að taka á því, hvernig bankakerfið geti séð atvinnuvegunum fyrir nauðsynlegum rekstrar- og afurðalánum þannig að ekki komi til stöðvunar af þeim orsökum.

Ég legg á það áherslu, herra forseti, að talið er af þeim aðilum, sem eru í fyrirsvari í sjávarútvegi, að hér sé stigið nokkurt skref til að bæta afkomu útflutningsatvinnuveganna. Ég legg því til að málið fái hér skjóta meðferð með svipuðum hætti og í hv. Ed., því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.