24.10.1978
Sameinað þing: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

324. mál, varnir gegn mengun af völdum bandaríska hersins

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Sú fsp., sem fram er lögð, er í 5 liðum, og tel ég nauðsynlegt að lesa aftur liðina á undan svörunum til að málið verði sem skýrast.

1. spurningin er á þessa leið, með leyfi forseta: „Tekur utanrrh. gilda yfirlýsingu deildarstjóra varnarmáladeildar utanrrn. um að „enginn, hvorki íslenskur né bandarískur aðili, vissi að olíu eða öðrum efnum úr flugskýli flughersins á planinu fyrir framan væri veitt út í skurð“?

Ég tel ekki ástæðu til að rengja yfirlýsingu deildarstjóra varnarmáladeildar og vil trúa því, að hún hafi verið gefin eftir bestu vitund. Það var ekki fyrr en Íslenskir aðalverktakar tóku að grafa á þessum stað í lok septembermánaðar, að olíumettaður jarðvegur kom í ljós, og voru þá strax gerðar ráðstafanir til að fjarlægja þann jarðveg. Þó er á hverjum degi fjöldinn allur af íslenskum og bandarískum starfsmönnum á þessu svæði.

2. spurning: „Hvaða líkur telur utanrrh. að séu á því að bandaríski flugherinn viti hvað gerist í háloftunum yfir og í kringum Ísland fyrst hann veit ekkert um stóra olíuskurði rétt við eigin flugskýli?“

Ég tel engan veginn rökrétt að draga af þessu máli neinar ályktanir um það, hvernig varnarliðið gegnir hlutverki sínu sem heild.

3. spurning: „Hvaða ráðstafanir hefur utanrrh. gert til að komast að raun um hver bar ábyrgðina á þeirri meðferð úrgangsolíu sem nýlega var fyrir tilviljun uppgötvuð á yfirráðasvæði bandaríska hersins?“

Hér er um að ræða stærsta flugskýlið á Keflavíkurflugvelli. Frárennsli frá þessu flugskýli er tvenns konar. Annars vegar eru leiðslur sem taka við skolpi frá salernum og öðru þess háttar. Þær leiðslur eru tengdar skolpveitu vallarins sem liggur í sjó fram. Hins vegar eru leiðslur til að taka við rigningarvatni af flughlaði kringum flugskýlið og á gólfi skýlisins, þegar sjálfvirkur vatnsslökkvibúnaður í skýlisþakinu fer í gang. Þessar leiðslur liggja í þró sem er á bersvæði. Ástæðan fyrir því, að þessar leiðslur eru ekki tengdar skolpveitunni, er sú, að í stórrigningum eða þegar vatnsslökkvikerfið fer í gang er affallsvatn það mikið, að skolpveitan mundi hreinlega yfirfyllast og skolp geta flætt í hús. Þessum leiðslum er þar af leiðandi eingöngu ætlað að flytja vatn. Það, sem hér hefur gerst, er því að á einhvern hátt hefur úrgangsolía blandast saman við þetta vatnsrennsli. Nærtækasta skýringin hlýtur að vera sú, að starfsmenn í flugskýlinu eða á flughlaði við skýlið hafi hellt úrgangsolíu í niðurfall sem eingöngu er ætlað fyrir yfirborðsvatn. Nú vil ég taka það skýrt fram, að þetta flugskýli er nokkurn veginn til helminga notað annars vegar af varnarliðinu og hins vegar af íslensku flugfélögunum, Loftleiðum, Flugfélagi Íslands og Arnarflugi. Mál þetta er nýtilkomið, ekki mánaðargamalt, og hefur ekki unnist tími til að komast að því, hverjir eru ábyrgir fyrir því slysi sem þarna varð. Er hætt við að það geti orðið erfitt að sanna hver ber ábyrgðina á því, þar sem flugskýlið hefur verið í notkun allt frá árinu 1954 og hér gæti verið um gamlar syndir að ræða.

4. spurning: „Hvaða tryggingar eru fyrir því að starfsemi bandaríska hersins mengi ekki drykkjarvatn á Suðurnesjum?“

Varnarliðið og íbúar nálægra byggðarlaga nota sama grunnvatnsból. Segir sig sjálft að varnarliðinu hlýtur að vera það jafnmikið kappsmál og öðrum að þetta drykkjarvatn mengist ekki, enda er ekki í mörg önnur hús að venda á þessu svæði.

5. spurning: „Hvaða breytingar hyggst utanrrh. gera til að koma í veg fyrir að bandaríski herinn feli olíu og aðra mengunarvalda í íslenskri jörð fyrst fyrri loforð hersins hafa í þessu efni reynst haldlaus?“

Af þeim ástæðum, sem ég hef þegar greint, að það er augljóslega hreinlætis- og heilbrigðismál fyrir varnarliðið sjálft ekkert síður en Íslendinga að forðast þá mengun, sem hér er um talað, og alla aðra mengun, þá get ég ekki, nema rök verði fyrir því færð, fallist á að varnarliðið feli olíu eða aðra mengunarvalda í íslenskri jörð. Það mundi koma því sjálfu í koll.

Í sambandi við þetta mál hef ég að lokum þetta að segja:

1. Varnarliðinu ber skylda til að fylgja í hvívetna öllum íslenskum lögum, reglum og ákvörðunum yfirvalda til að forðast mengun. Verði misbrestur á því ber varnarmálanefnd skylda til að tryggja leiðréttingu þegar í stað. Varnarmálanefnd ber skylda til að hafa náið samstarf við sveitarfélög í nágrenni flugvallarins. Á flugvellinum sjálfum eru allan sólarhringinn nokkur hundruð starfsmenn íslenska ríkisins við ýmiss konar vinnu og fara þar um nálega alla staði, þannig að ætla má að þeir mundu verða varir við brot á þessum reglum eða hættulega mengun.

2. Notendum á þessu stóra flugskýli hafa á nýjan leik verið gefin ströng fyrirmæli um að hella aldrei olíu eða öðrum úrgangsefnum í niðurföll.

3. Til að koma í veg fyrir að slík óhöpp verði endurtekin hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að olíuskiljur verði settar upp til þess að hreinsa olíuúrgang úr yfirborðsvatninu, ef hann skyldi þrátt fyrir allt berast þangað á nýjan leik.

4. Vegna þessa atburðar kallaði varnarliðið hingað til lands sérfræðing í umhverfisvernd og mengunarmálum og kom hann til landsins 12. þ. m. Honum var falið að gera allsherjarúttekt á mengunarhættu á varnarliðssvæðinu.