24.10.1978
Sameinað þing: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

324. mál, varnir gegn mengun af völdum bandaríska hersins

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Hér eru til umr. mál sem ástæða er til að gefa frekari gaum. Í viðtali í Þjóðviljanum fyrir nokkru við Pál Ásgeir Tryggvason deildarstjóra í varnarmáladeild í utanrrn. segir hann eitthvað á þessa leið varðandi þá olíumengun sem kom upp á Keflavíkurflugvelli: Þetta kom öllum fullkomlega á óvart. Enginn, hvorki íslenskir né bandarískir aðilar, vissi að olíu eða öðrum efnum úr flugskýli flughersins og planinu fyrir utan væri veitt út í skurð. — Síðan segir hann í viðtalinu: Tiltölulega er stutt síðan menn fóru í alvöru að hugsa um mengunarvarnir. — Og enn síðar: Handvömm frá fyrri tíð.

Með svar hæstv. utanrrh. í huga tel ég að hér sé á ferðinni mál sem sé e.t.v. verið að reyna að hlaupa frá án þess að réttar ráðstafanir verði gerðar. Ég mun upplýsa þetta nokkru nákvæmar hér á eftir.

Árið 1970 kaus hreppsnefnd Ytri-Njarðvíkurhrepps nefnd til að taka þessi mál til athugunar, olíumengun á Keflavíkurflugvelli. Nefnd þessa skipuðu þeir Hilmar Þórarinsson, Ásbjörn Guðmundsson og Ingvar Jóhannsson, en n. skilaði áliti 6. júlí 1972. Þetta álit kom m.a. til varnarmálanefndar utanrrn. og í hendur Páls Ásgeir Tryggvasonar.

Skýrsla nefndarinnar skiptist í tvo kafla. Fyrri kaflinn fjallar um flugumferð farþega, orrustu-, sprengju- og eftirlitsflugvéla og þá hættu sem af þeim kann að stafa fyrir nálæg byggðarlög og bent er á að mesta hætta á flugslysum sé við flugtak og lendingar. Seinni kaflinn fjallar um mengun af völdum slælegrar meðferðar á olíu á flugvallarsvæðinu og þá mengunarhættu sem er yfirvofandi gagnvart vatnsbólum nálægra byggðarlaga.

Þegar skýrsla n. kom fram voru stjórnvöld upplýst um niðurstöður hennar og þau hvött til að þessi mál yrðu tekin föstum tökum árið 1972. Á tímabilinu frá 1972 og til 1978 hefur nánast engin samvinna né ósk um tengsl né samráð við þá aðila, sem gerðu þessa könnun á þessu tveggja ára tímabili, 1970–1972, farið fram. Málið var svæft 1972. Páll Ásgeir Tryggvason deildarstjóri í varnarmáladeild lofaði að athuga málið en það virtist aldrei athugað, ekki einu sinni gerð tilraun til þess að kanna nánar eða hafa samband við þá aðila á einn eða annan hátt, sem stóðu að þessari könnun.

Til þess að upplýsa þm. öllu nánar um þetta mál skal ég vitna í nokkrar klausur úr þessari skýrslu sem kom fram árið 1972.

Fyrst er fjallað þar um olíutanka og olíuleiðslur sem eru neðanjarðar. Rétt fyrir ofan Njarðvíkurbæ, í um það bil 100 m fjarlægð eða ofan á vatnsbólum Njarðvíkinga og í nálægð við vatnsból Keflvíkinga, eru grafnir tankar og olíuleiðslur. Enginn veit hve mikil olía hefur lekið úr þessum tönkum síðan 1951. Ég skal lesa — með leyfi forseta — örstuttar tilvitnanir til að lýsa innihaldi þessarar skýrslu svo að menn komist nærri kjarna málsins. Hér segir á einum stað:

„Svo alvarlega er í þessum málum komið, að búast má við í náinni framtíð algeru neyðarástandi víða hér syðra í neysluvatnsmálum, og er þá jafnframt átt við vatnið sem notast í fiskiðnaði, ef marka má skoðanir jarðeðlisfræðinga eins og að framan greinir.“

Síðar segir: „Nefndin telur sig geta rökstutt það með fjölmörgum ábendingum að ekki mörg hundruð tonn af olíum og bensíni og ýmsu þrýstiloftsflugvélaeldsneyti, heldur margar þúsundir tonna hafa runnið út í jarðveg Keflavíkurflugvallar á umliðnum áratugum frá byggingu hans, auk mikils magns af banvænum eiturefnum sem eru flugstarfsemi eða hafa á þennan dag verið talin flugstarfsemi nauðsynleg, en eru nú óðast að hverfa úr notkun hjá menningarþjóðum.“ Hér kemur svo þriðja og síðasta tilvitnunin:

„Neysluvatn fyrir nærfellt 20 þúsund íbúa á þessu svæði, innlenda sem erlenda, fiskiðnað, nærri 22% útflutningsverðmæta þjóðarinnar, millilandaflug okkar, strendur gullkistunnar við Faxaflóa og svo margt annað sem upp mætti telja, er í bráðri hættu.“

Þetta var sagt 1972, og það skýtur dálítið skökku við að heyra það nú árið 1978, að hér sé um ný tíðindi að ræða þegar minnst er á olíumengun á Keflavíkurflugvelli.