18.12.1978
Efri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

39. mál, kjaramál

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Úr því að hér hafa orðið nokkrar umr. um drög Alþfl.-manna að frv. til l. um jafnvægisstefnu og í þær umr. hafa blandast vangaveltur manna um það, hvort fjárlagafrv. verði afgreitt fyrir jól eða ekki, þá langar mig til að leggja örfá orð til viðbótar í þann belg.

Ég vil segja það um frv. Alþfl., sem ég hef ekki haft langan tíma til að skoða, að ég tel þar vera nokkrar tvímælalaust jákvæðar hugmyndir frá sjónarmiði okkar Alþb.-manna og að það megi tvímælalaust segja um sumar þær hugmyndir, sem þar koma fram, að um þær ætti að geta orðið samstaða milli þessara tveggja flokka. Ég nefni sem dæmi hugmyndina um eignakönnun. Það er ein af mörgum hugmyndum, sem þarna koma fram, sem á fyllsta rétt á sér.

Aftur á móti er það alveg ljóst, og þarf ekki að telja það til neinna tíðinda, að ákveðnar hugmyndir, sem fram koma í þessu frv. Alþfl., eru í andstöðu við yfirlýsta stefnu okkar Alþb.-manna. Ef ég á að nefna dæmi, þá er það sú yfirlýsta lögboðna hávaxtastefna sem þar kemur skýrt fram. Við erum margbúnir að neita að fallast á slíka stefnu. Við erum að sjálfsögðu ekkert líklegri til þess að fallast á hana þó að haft sé í hótunum um að líf stjórnarinnar liggi við að menn beygi sig fyrir slíkum kröfum.

Í þriðja lagi má segja að sumt sé hvorki jákvætt né neikvætt í þessu frv. frá okkar sjónarmiði. Sumt er gersamlega óskiljanlegt og verður þar af leiðandi að skoða vandlega. Dæmi um þetta er 2. gr. frv., sem er gersamlega óskiljanleg öllum þeim sem reyna að átta sig á hvað í henni stendur. Ég skal lesa hana fyrir þá sem hafa kannske ekki haft tækifæri til þess að leggjast djúpt og átta sig á henni, en hún er svona:

„Fjárveitingar í fjárl. á árinu 1979 til opinberra framkvæmda og önnur fjárfestingarframlög, þar með talin þau sem ákveðin eru með sérstökum lögum, svo og útlánaáætlanir opinberra sjóða og lántökuheimildir til opinberra framkvæmda í lánsfjáráætlun fyrir árið 1979, skulu miða að því að dregið verði úr opinberri fjárfestingu sem svarar 10% frá því sem gilti í fjárfestingarheimildum ríkisins og ríkisstofnana á árinu 1979.“

Ég vona að menn átti sig á því, að þetta er gersamlega óskiljanlegt. Hér hlýtur að vera einhver prentvilla á ferðinni. Ég hef verið að geta mér til að það sé ákveðin prentvilla sem raski meiningunni allverulega, hef spurt marga að því, sem lesið hafa þessa grein, hvort þarna sé prentvilla eða ekki prentvilla. Sumir hafa sagt að þarna sé prentvilla, aðrir segja að svo sé ekki. Og þannig er greinin birt í Alþýðublaðinu s.l. föstudag. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að fá nánari skýringar á þessu atriði og fleiri atriðum sem mér eru algerlega óskiljanleg í þessu frv. áður en hægt er að leggjast djúpt og reyna að átta sig á því, hvort menn eru sammála því eða ekki.

Eins og menn vita, eru ekki í gildi neinar fjárfestingarheimildir fyrir ríki eða ríkisstofnanir á árinu 1979. Þess vegna er ekki hægt að tala um þá hluti í þátíð. Þetta er hins vegar grundvallaratriði, því að þegar ég sá þetta frv. fyrst sýndist mér að við Alþb.-menn hlytum að hafa einmitt mjög sterka andstöðu við þetta ákvæði, ef um það væri að ræða að skera niður um 10% þau fjárfestingaráform sem uppi hafa verið um árið 1979. Þannig skildi ég greinina fyrst og hef.svo sem ekki fengið neina opinbera leiðréttingu á því. Ég veit ekki til þess, að þessi setning hafi verið opinberlega leiðrétt neins staðar. En ef aftur á móti á að snúa þessu upp í það, að um sé að ræða að verið sé að skera niður um 10% frá því sem gilti í fjárfestingarheimildum ríkis og ríkisstofnana árið 1978, sem er í raun og veru sá skilningur sem beinast liggur við, og mér er næst að halda að þarna hljóti að vera prentvilla á ferðinni, þá er ég ekki viss um að þetta sé neitt annað en það, sem við erum nú að framkvæma, og þetta sé í raun ekki nokkur minnsta breyting frá því sem er. Hins vegar þarf að reikna þetta betur út og átta sig á því. Hætt er við að það verði ekki gert á örstuttum tíma að átta sig á því, hvernig þetta kemur út.

Ég hef sagt hér, að sumir þættir þessa frv. séu bersýnilega jákvæðir meðan aðrir eru bersýnilega mjög neikvæðir frá sjónarmiði okkar Alþb.-manna og enn aðrir óskiljanlegir. En ég verð að bæta því við, að meginhluti þessa frv. fjallar um sjálfsagða hluti, sem ég er viss um að allir þm. eru í sjálfu sér innilega sammála um og hefði þar af leiðandi ekki endilega þurft að klæða í frv.búning. Ég tel að í þessu sambandi sé það ekki efni frv. sem mestu máli skiptir, heldur séu það vinnubrögðin sem fram koma í sambandi við framlagningu þess. Frv. þetta er sem sé sent samstarfsflokkum á seinustu dögum þings fyrir jól og ætlast til þess, þó að ekki sé það að vísu gert að skilyrði, en ætlast til þess berum orðum að tekin sé afstaða til þess á örfáum dögum. Þar að auki er tilraun gerð til þess að stöðva afgreiðslu fjárl. fyrir jól. Ég held að öllum eigi að vera það ljóst, að fleiri aðilar en Alþfl. geta komið fram með hugmyndir sínar og sett þær að skilyrði fyrir afgreiðslu fjárl. Slíkt geta fleiri gert en Alþfl.-menn, ef mönnum sýnist að slík vinnubrögð séu við hæfi. Við Alþb.-menn höfum nýverið lagt fram till. okkar í 14 liðum. Auðvitað væri afskaplega handhægt fyrir okkur Alþb.-menn að leggja þessar till. okkar fyrir samstarfsflokkana og segja: Við ætlumst til þess, að þessar till. séu afgreiddar og frv. samþ. fyrir jól, annars látum við afgreiðslu fjárl. bíða. — Nei, auðvitað eru þetta vinnubrögð sem ég reikna með að öllum sé ljóst að geta aldrei gengið. Þannig verður ekki á málum tekið milli samstarfsaðila.

Ég held að það geti ekki neinum dulist, að till. Alþfl. eru ekki síður settar fram fyrir fjölmiðla en samstarfsflokkana og að þarna er á ferðinni fjölmiðlapólitík sem getið hefur sér góðan orðstír og vissulega skilað nokkrum árangri.

Menn eru að velta því fyrir sér, hvort fjárlög verði afgreidd fyrir jól eða ekki. Ég verð að segja það, að ég tel ekki nokkurn minnsta vafa á því, hvert svarið verður við þessari spurningu. Auðvitað verða fjárlög afgreidd fyrir jól. Auðvitað er leitun að þeim þm. sem eru reiðubúnir að standa að því ábyrgðarleysi að draga afgreiðslu fjárl. fram á fjárlagaárið. Fjárlög fjalla um fjárhag allra helstu ríkisstofnana á næsta ári, og þessar stofnanir þurfa að vita hvaða stöður eru heimilar og hvernig þær eiga að haga fjármálum sínum þegar í ársbyrjun, því er ekki hægt að fresta, og þess vegna held ég að það sé alveg ljóst, að við komumst ekki undan því að afgreiða fjárlög nú fyrir jól. Allt annað væri algert ábyrgðarleysi, sem við gætum ekki verið þekktir fyrir, hvort heldur við erum aðilar að þessari ríkisstj. eða í stjórnarandstöðu.

Hitt er allt annað mál, að fjárl. fjalla ekki um alla þætti ríkisfjármálanna. Veigamiklir þættir ríkisfjármálanna eru fólgnir í lánsfjáráætlun ríkisstj. Þar er heildarframkvæmdaramminn settur upp, enda er lánsfjáráætlunin nokkurs konar viðbótarfjárlög. Öll hin meiri háttar verk, sem ríkið stendur að, eru sett inn á lánsfjáráætlun vegna þess að ekki er talið að auðvelt sé að koma þeim fram án lánsfjár. Og ég tel að það liggi nokkuð beint við og eðlilegt sé undir ríkjandi kringumstæðum að lánsfjáráætlunin bíði, enda þótt vissulega hefði verið æskilegt og eðlilegt að hún yrði afgreidd fyrir jól, þá séu ekki aðstæður til þess og fullkomlega rökrétt og eðlilegt við ríkjandi kringumstæður að hún bíði eitthvað fram yfir áramótin, jafnvel eitthvað fram í janúarmánuð.

Það er lánsfjáráætlunin sem endanlega sker úr um það, hvert er hlutfall framkvæmda miðað við þjóðartekjur, en það er eitt af því sem Alþfl. hefur lagt mjög þunga áherslu á, að þar verði skorður reistar og menn bindi sig við ákveðin hámarkshlutföll. Í því sambandi hefur verið talað um að hlutföll framkvæmda miðað við þjóðartekjur fari ekki upp fyrir 25%. Það hefur verið talað um heildarsamdrátt, eins og ýjað er að í 2. gr. frv. sem Alþfl. hefur sent samstarfsflokkum sínum, heildarframkvæmdir ríkis og ríkisstofnana ásamt útlánaáætlunum opinberra sjóða og lántökuheimildum til opinberra framkvæmda, verði skornar niður um 10% miðað við framkvæmdastigið á s.l. ári. Ég tel að mál standi nú þannig, að þetta sé mjög nærri lagi. Vissulega gefst tækifæri til þess í sambandi við afgreiðslu lánsfjáráætlunar að stemma þetta þannig af, að allir samstarfsflokkar að þessu ríkisstjórnarsamstarfi megi vel við una og telji það fullnægjandi miðað við viðhorf sín og stefnu. Ég tel að það eigi ekki að vera neinn verulegur vandi á ferðum hvað þetta snertir, þetta eigi að geta tekist. Þannig ætti Alþfl. að geta vel unað við það, að þessar mikilvægu ákvarðanir, sem hann hefur lagt þunga áherslu á, bíði fram yfir áramót. En fjárl. verður að sjálfsögðu að afgreiða fyrir jól. Ekkert annað kemur til greina. Við munum síðan gefa okkur góðan tíma til þess að skoða þær hugmyndir sem Alþfl. hefur lagt fram. Við þurfum að fá þar ýmislegt betur skýrt. Við þurfum að fá tækifæri til þess að ræða þær í flokki okkar, við þurfum að fá tækifæri til að ræða þær við aðila vinnumarkaðarins og þá alveg sérstaklega við verkalýðshreyfinguna, og þá mun fyrst koma í ljós hvort ekki skapast góð samstaða um það, sem gera verður, nú eins og fram að þessu.