18.12.1978
Efri deild: 36. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

91. mál, biðlaun alþingismanna

Frsm. 2. minni hl. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið klofnaði n. við afgreiðslu þessa máls. Við leggjum til þrír nm., að frv. þetta verði fellt.

Þegar mikil breyting varð á launakjörum alþm. árið 1971 urðu miklar deilur í þingsölum um það mál. Því miður voru þeir, sem andvígir voru því að hækka laun þm. gífurlega, fáir, en engu að síður var haldið uppi vörn fyrir þeim málstað, að þing ætti að vera með svipuðum hætti og áður hafði verið og ekki ætti að lengja þingtíma né heldur gera alla 60 þm. að nokkurs konar atvinnupólitíkusum með föstum árslaunum og síhækkandi launum.

Ég var þá varaþm. og tók þátt í þessum umr. og barðist gegn þessari stefnu. Það urðu þar miklar og langar umr. Í fyrravetur var þetta mál aftur rætt ítarlega hér á þingi. Það er hægt að vitna til þeirra umr. og ástæðulaust að tefja þm. á þessum annadögum með löngum ræðum, en rökin eru öll til fyrir þeim sjónarmiðum sem ég hef haldið fram og fleiri, og þetta hefur verið til umr. hér í þinginu a.m.k. síðasta áratuginn. Það urðu hér miklar umr. fyrir alllöngu, þar sem Bjarni Benediktsson og Eysteinn Jónsson deildu um þetta, hvort þm. ættu að vera með full árslaun og full mánaðarlaun eða hvort þeir ættu að sinna einhverjum öðrum störfum.

Ég held að það sé mjög óheillavænleg stefna, að allir þm. eigi að vera eingöngu við þingstörfin. Það væri miklu heppilegra og eðlilegra að menn sinntu öðrum störfum eins og hálft árið og þinghaldi væri hraðað og vinnubrögð betri en þau eru hér á hinu háa Alþingi. Það hefur allt frá 1971 verið stanslaust bætt við smápinklum til handa þm. Menn kalla það að bæta aðstöðu þeirra. Menn mega kalla það mín vegna hvað sem er. Ég hef reynt að berjast gegn því öllu. Nú er svo komið, að það á að fullkomna þennan leik með því einmitt að undirstrika að þm. séu svo bundnir við þingstörf og eigi að vera svo bundnir við þingstörf að þeir hljóti að verða atvinnulausir ef þeir falla eða hætta við þingmennsku, það eigi að bæta þeim það með launum þrjá og allt upp í sex mánuði vegna þess að þeir séu komnir út úr hinum þjóðnýtu störfum á hinum ýmsu sviðum í þjóðfélaginu. Þessi stefna er að mínu mati alröng. Ég er knúinn til að halda fast við þá sannfæringu mína og berjast gegn þessu frv. eins og þeim öðrum sem að þessu hafa miðað.

Þar að auki er þess að gæta, að það er núna verið æ ofan í æ að stórskerða kjör þjóðarinnar, en á sama tíma ætla þm. að bæta aðstöðu sína með þeim hætti sem hér um ræðir. Það tel ég einnig óverjandi.