18.12.1978
Efri deild: 36. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1762 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

91. mál, biðlaun alþingismanna

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég hef staðið í hv. fjh.- og viðskn. að nál. ásamt hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni og Karli Steinari Guðnasyni, þar sem lagt er til að frv. þetta verði fellt. Mér þykir því rétt að greina í örstuttu máli frá afstöðu minni.

Í fyrsta lagi álít ég óeðlilegt að biðlaunin nái til þeirra er hættu þingmennsku að loknum síðustu kosningum. Fjölmargir þeirra voru ekki einu sinni í framboði. Mér finnst óeðlilegt að einstakir aðilar fái upp undir 2.5 millj. fyrir það eitt að hafa hætt þingmennsku, en hafa nú þegar önnur störf og hafa jafnvel haft þau lengur.

Í öðru lagi álit ég óeðlilegt að þm., sem eru kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, njóti réttinda eins og ráðnir starfsmenn ríkisins. Þetta er eftirsótt starf og menn leggja svo sem ýmislegt á sig til þess að geta setið hér. Það er viss áhætta bundin við þingmennsku og svo á að vera að mínu mati.

Í þriðja lagi vil ég benda á að við sitjum núna 100. löggjafarþing þjóðarinnar. Ég vil persónulega ekki taka þátt í því, að eftir 99 þing verði ákveðin svona mikil fríðindi til handa alþm. Ætli forverar okkar í þessu húsi hefðu ekki breytt launafyrirkomulaginu, ef það hefði verið svona mikið réttlætismál?