18.12.1978
Efri deild: 36. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1763 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

91. mál, biðlaun alþingismanna

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að verða stuttorður um þetta mál, en hér tek ég til máls vegna þess að ég á sæti í þfkn., þar sem um þetta mál var fyrst fjallað sem vér fjöllum nú um. Því er ekki að leyna, að þar varð samkomulag með ákveðnum fyrirvörum um að mæla með því við formenn þingflokkanna, að þeir flyttu sameiginlega frv. það er hér liggur frammi núna. Að vísu voru — og gætið að því, hv. þm., að ekki er ætlast til þess að fundargerðir þfkn. séu upp lesnar — fyrirvarar af hálfu fulltrúa þar á þá lund, að 6 mánaða biðlaunatíminn væri of langur, æskilegra væri að hafa hann 3 mánuði.

Við umr. um þetta mál komu einmitt fram ýmis atriði í líka veru og þá sem hv. þm. Bragi Níelsson kom inn á áðan, að e.t.v. væri ekki rétt að hafa undir sama hatti alla þá sem hættu, tækju þá ákvörðun að hætta þingmennsku með ærnum fyrirvara og hefðu þar af leiðandi nokkurn tíma til þess að útvega sér annað starf eða hagræða fjárhag sínum á þann hátt að það væri þeim auðvelt að hætta. Kom til álita hvort eðlilegt væri að hafa þá undir sama hatti og hina, sem féllu skyndilega og e.t.v. óvænt fyrir atkvæðabrandinum hvassa eða fyrir tönnunum miður hollu sem notaðar eru t.d. í prófkjörum, sem sumir menn ættu að kannast við.

Ég hygg að það sé ekki algild regla, að þm. hafi önnur embætti, þiggi fyrir hluta embættislauna og eigi embættin bíðandi eftir sér þegar og ef sú stund rennur upp að þeir láta af þingmennsku — af frjálsum vilja eða grátandi. Þetta hygg ég að sé ekki algild regla. Eftir því sem ég veit best, þá þiggur enginn þm. Alþb. laun af hinu opinbera eða laun fyrir önnur störf. Svo var a.m.k. eigi s.l. kjörtímabil. Þeir, sem á slíku áttu rétt, eins og kennararnir í okkar hópi, afsöluðu sér því. Aftur á móti veit ég að þm., sem hafa haft uppi allstór orð um það, hversu hátt þingfararkaupið væri og hversu vel þm. væru haldnir, hafa þegar nær var að gáð reynst hafa langt til jafnhá laun úr vasa hins opinbera fyrir önnur störf sem þeir fyrrum gegndu, en gegndu nú ekki lengur — a.m.k. ekki nema að ákaflega óverulegu leyti.

Hér er um að ræða atriði, sem vissulega kemur til álita þegar rætt er um kjör þm. Að minni hyggju eru launakjör alþm. nógu góð. Um launakjör alþm. mega ekki fjalla af mjög miklum alvöruþunga eða siðferðilegum fordæmingarþrótti alþm. sem taka síðan annars staðar, samtímis því sem þeir taka þingfararkaup, álíka eða langt til jafnháa upphæð úr ríkiskassanum fyrir störf sem þeir hljóta að vinna a.m.k. ekki af jafnmiklu þreki á meðan þeir gegna þingmennsku. Mín skoðun er sú, stafar e.t.v. af því að ég hef sjálfur aldrei verið ofurmenni til starfa, að það sé fullt starf röskum meðalmanni að gegna þingmennskunni sæmilega. En fyrir hitt er ekki að synja og er sennilegt, að við eigum afreksmenn í hópi vorum, alþm. Þó hygg ég að þeir muni vera færri í hópi hv. alþm. sem leika sér að því að sinna störfum alþm. vel með aðra hönd bundna fyrir aftan bak heldur en hinir, sem ekki taka laun annars staðar og ekki eiga störf sín bíðandi við lok þessa tímabils. Það er ég næstum alveg viss um.

Ég get tekið undir það með hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni, að ég tel alveg bráðnauðsynlegt að hv. alþm. haldi tengslum við atvinnulífið, eigi sér önnur hugðarefni, og ef hugðarefnið er sérstaklega það — og það segi ég ekki í fordæmingartón — að vinna sér inn tekjur annars staðar jafnframt, þá finnst mér það allt í lagi. Ég sé ekkert athugavert við það út af fyrir sig. En þegar á heildina er lítið, þá hygg ég að þetta verði nú svo, að þeir finnist fleiri amlóðarnir en ég sem ekki hafa til þess dugnað eða þrek að gegna tvennum störfum vel, þannig að vert sé að taka fyrir þau laun, og muni sitja uppi með þingmannslaunin ein og jafnvel ekki eiga sér atvinnuvon annars staðar um það er lýkur. Ég tel ákaflega mikinn feng í því að eiga í röðum alþm. einstaklinga, sem jafnframt reka fyrirtæki, þjóðnýt fyrirtæki, framleiðslufyrirtæki, og auðnast að gera það með þingstörfunum með því að hagræða vel fyrir sér, því að einnig það er verkkunnátta sem lofa ber. Ég tel ákaflega þýðingarmikið að hv. þm. séu efnahagslega sjálfstæðir. Ég sé ekkert á móti því, að inn á þingið komi einmitt menn sem búið hafa í haginn fyrir sig og eiga tekjur annars staðar en hér innan sala þinghússins. Þetta finnst mér ekki óeðlilegt. En á hitt legg ég áherslu, að ég tel ákaflega þýðingarmikið að þannig verði búið að alþm. hvað laun snertir að þeir séu ekki á vonarvöl.

Ég skil sjónarmið hv. þm. Ágústs Einarssonar er hann ræddi um forvera okkar sem hér hafa unnið lengst af í húsinu — 99 þing — og verr var búið að hvað kjör snertir heldur en að þeim þm. sem nú hér sitja, enda hef ég heyrt það af munni sannorðra manna, sem hér unnu fyrr meir, hversu að þeim var þrengt fjárhagslega á meðan þeir unnu hérna. Og ég þori að staðhæfa það, að það hafi verið af fátæktar sökum sem ekki var miklu fyrr að því staðið að bæta launakjör þm. og að margir þeirra, sem hér unnu, hefðu kannske enst betur og unnið nýtara starf í löggjafarsamkundunni ef þeir hefðu ekki þurft að hafa þess háttar áhyggjur af framfærslu sinni og sinna.

Ég tel að aths. hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar við frv. í þeirri mynd sem það er sé þörf, að æskilegt væri að það kæmi ljósar fram, að hér er ætlast til þess, að hið sama gildi um biðlaun og um þingfararkaupið sjálft, enda hef ég það fyrir satt, að einmitt þetta vaki fyrir flm., að hið sama gildi þarna, að sama haft eigi að gilda varðandi önnur opinber laun, varðandi eftirlaunin eða biðlaunin, og þingfararkaupið sjálft.

Ég fellst ekki á skoðanir þeirra hv. þm. sem gagnrýnt hafa afturvirkni laganna, en gæti hins vegar verið til viðtals um og jafnvel samþykkt að þessi regla skuli gilda framvegis um biðlaunin. Í hópi þeirra alþm., sem fremur hefðu reiknað með því að sitja framvegis á þingi, en gerðu það ekki, og á það jafnt við um þá sem féllu í prófkjörum sem sjálfu kjöri til Alþ., voru menn sem höfðu setið hér mjög lengi og áttu ekki í vís störf að ganga. Þá þm. brysti rök sem samþykkja vildu þetta skipulag biðlaunanna framvegis, en vildu synja þeim um afturvirknina sem hurfu brott í síðustu kosningum, hvort sem það var með vilja eða gegn vilja sínum, því að þar á tel ég ekki vera neinn siðferðilegan mun, og kynnu þá þeir þm. að vera sakaðir um að vera að kaupa sér falltryggingu sem þeir hefðu synjað um þeim sem frá fóru.

Óviðkunnanlegt er, sagði hv. þm. Bragi Níelsson, að þm. úrskurði sjálfir laun sín. Ég viðurkenni fúslega að um sinn — eða þrjú fyrstu árin af þeim fjórum sem ég hef setið á þingi — hneigðist ég til fylgis við skoðun þeirra kjaradómsmanna. Mér fannst þetta — hafði þá að vísu ekki rætt málið mikið eða hugleitt það mikið — eins og hv. þm. Bragi Níelssyni allt að því óviðkunnanlegt. En ég játa það, og skammast mín ekkert fyrir það, að mér snerist hugur við umr. sem urðu hér á hv. Alþ. um þessi mál í fyrravetur, þar sem ég fékk tóm og tækifæri til þess að hlýða á rök manna í málinu. Það blasti við mér, að ef við alþm. legðum launamál okkar í Kjaradóm, þá lægi það á borðinu að laun okkar yrðu stórhækkuð, og það blasti við mér að við værum þá ekkert annað en undir e.t.v. mismunandi miklum hjúp yfirdrepsskapar að koma af okkur þeirri ábyrgð sem við ættum þó að rísa undir þeirri ábyrgð að ákveða laun okkar og kjör sjálfir, að ákveða þau sjálfir þannig að við gætum staðið uppréttir gagnvart fólkinu í landinu. Ég komst að þeirri niðurstöðu, að ef við værum ekki menn til þess að gera þetta, þá kæmi kannske til álita hvort við værum menn til þess að fjalla um önnur þau mál sem á hendi okkar hvíla á hv. Alþingi.

Ég mun greiða atkv. með frv., sem hér liggur fyrir um biðlaun alþm., en með því fororði þó, að ég tel nauðsynlegt að alþm. fjalli ærlega um kjaramál sín, taki um þau ákvörðun, siðgóða ákvörðun. Þá kemur til álita hvort ekki beri að knýja á um það, að alþm., sem vinna hér á fullum launum og eiga að vinna hér fullt starf, taki ekki laun úr vasa hins opinbera annars staðar á meðan. En hvað eina bíður síns tíma, og ég hafði vænst þess að þessi mál kæmu upp á þinginu nú í vetur.

Herra forseti. Ég hef þegar talað, eins og mér hættir stundum til, lengur en ég lofaði og læt þetta nægja í bili.