18.12.1978
Efri deild: 36. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1765 í B-deild Alþingistíðinda. (1318)

91. mál, biðlaun alþingismanna

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég þarf ekki miklu við það að bæta sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Ég vil aðeins taka það fram í sambandi við þá afturvirkni, sem hér hefur verið talað um, að í þfkn. voru þessi mál mjög á dagskrá í fyrra. Þá var ákveðið í raun og veru að flytja frv. svipað þessu. Ég stóð þá að samþykkt í þfkn. um það atriði. Í öllu því fjaðrafoki, sem þá varð um kaup og kjör alþm., guggnuðu menn hreinlega á því að flytja þetta, af þeirri einföldu ástæðu að þá sögðu þeir, sem þar að stóðu, að þarna væri um óviðkunnanlegt mál að ræða, nú væru þeir sumir hverjir að standa að því að ákveða sér laun alveg sérstaklega af því að kosningar væru fram undan, og þeir vildu því síður standa að afgreiðslunni þá. Alveg sami ótti kemur fram hjá alþm. nú, því að ég held að þarna sé fyrst og fremst um ótta að ræða, en ekki skoðun um það, hvernig við almennt erum dæmdir af almenningsálitinu. Ég nefni sem dæmi um það, að það er ekki langt síðan ég las grein eftir ágætan mann úti í Vestmannaeyjum, að ég held hann sé, Harald Guðnason, þar sem hann sagði það orðrétt, held ég, að á meðan verkafólkinu væru skömmtuð 6% værum við alþm. nýbúnir að skammta sjálfum okkur 33% launahækkun. Ja, skýst þótt skýrir séu. Það er ekki nema von þó mörg lesendabréfin um kaup og kjör alþm. séu vitlaus og röng þegar annar eins heiðursmaður og þessi fer með önnur eins rakalaus ósannindi. Og þetta er ekkert einsdæmi, því miður.

Ég harma það, ef við þm. tökum undir það hér inni að við séum með óeðlileg fríðindi. Ég þekki a.m.k. ekki þessi fríðindi. Hingað til hafa þær greiðslur, sem ég hef fengið umfram þingfararkaup mitt, ekki nægt mér til þess að ná endum saman varðandi þann kostnað sem ég hef haft af þessu starfi. Og ég harma það, ef menn eru svo ókunnugir þessu starfi, t.d. okkar kjördæmisþm. sem búum í stórum kjördæmum, að þeir taki undir þennan almenningssöng um þessi miklu fríðindi. Ég tel að það sé hárrétt, sem kom fram hjá hv. þm. Karli Steinari, að við þyrftum að hyggja betur að réttindum verkafólksins í sambandi við uppsagnarfrest þess, og að því skal ég fúslega vinna með honum. En allur samanburður í þessu efni er afstæður. Ég gæti nefnt þá eitthvað annað fyrir ofan okkur, sem við getum líka haft til samanburðar og þyrftum þá kannske líka að taka af um leið. Ég held nefnilega að allur samanburður í þessu efni hæfi okkur ekki nógu vel.

Ég viðurkenni að það er umdeilt, hvort menn eiga að gegna öðrum störfum en þingmannsstörfum. Ég er alveg sami amlóðinn og hv. síðasti ræðumaður. Mér hefur reynst þetta þingstarf fullkomlega nægilegt. Reyndar þætti mér stórskemmtilegt að sjá menn vera með fullt starf, hvort sem það væri í eigin atvinnurekstri eða í opinberu starfi, en sætu á þingi og t.d. í fjvn. Mér þætti stórgaman að sjá menn sinna þeim störfum öllum jafnvel. Og ég veit að t.d. í nefndarstörfum hér á Alþ. kemur það óneitanlega niður á störfum margra að þeir gegna jafnvel þó ekki sé nema hálfu starfi. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn, en ég þekki dæmi um einn samviskusamasta þm. sem hér hefur setið, sem taldi sig þurfa að vera í hálfu starfi. Það olli því, að hann gat aldrei mætt á nefndarfundi fyrir hádegi, eins og þeir eru þó alltaf haldnir nema þá sérstakar ástæður séu til, og hann taldi sér óhjákvæmilegt að taka sér frí úr hinni vinnunni.

Ég hef flutt um það till. á Alþ. áður, að menn eigi ekki að gegna — a.m.k. ekki í opinberri þjónustu — störfum ásamt þingmennskunni. Ég var einn þeirra manna sem beittu sér fyrir því, að kennarar t.d., sem var nú fjarstæðukenndast alls þess sem er í þingfararkaupslögunum, afsöluðu sér kennaralaunum. Ég afsalaði mér því kaupi sem kennarar eiga þó rétt á að þriðja parti meðan þeir sitja á Alþ., þó að þeir komi vitanlega vegna starfa síns á Alþ. aldrei nálægt kennarastarfi.

Ég hlýt auðvitað að standa við ákvörðun mína frá í fyrra — ákvörðun í þfkn. þá. Ég viðurkenni að þarna er um deiluatriði að ræða, 3 mánuðina eða 6 mánuðina, og skal ekki fara nánar út í þau sjónarmið sem ég setti fram í þfkn. þá. En ég bið þm. um að taka ekki undir þennan són, sem heyrist alls staðar frá um þessa skömmtun á fríðindum okkur til handa. Ég ætla að biðja þá um leið að tíunda þau fríðindi fyrir okkur og segja alþjóð frá því hreint út sagt, hvaða geysilegu hlunnindi það eru umfram, meira og minna falin eins og fólk segir, sem þeir hafa. Ég þekki þau ekki.