19.12.1978
Efri deild: 37. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

23. mál, tímabundið vörugjald

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður hefur haldið langa ræðu. Hún getur gefið tilefni til þess að ræða þessi mál nokkuð almennt, m.a. líta nokkuð aftur í tímann og athuga hverjir það voru sem stóðu fyrir aðild Íslands að EFTA og hverjir þá voru hreyknir og sögðu að allt væri í lagi og að iðnaðurinn væri þannig staddur á vegi að hann mundi þola þessa EFTA aðild. Þá voru aðrir menn hér á þingi sem vöruðu við og sögðu að það mundi þurfa að gera sérstakar ráðstafanir fyrir iðnaðinn til þess að hann gæti mætt þeirri samkeppni sem búast mætti við. En á það var ekki hlustað þá. Þetta ætti hv. þm. að hafa í huga þegar hann er að ræða þessi mál nú og þykist bera hag iðnaðarins alveg sérstaklega fyrir brjósti.

Það stóðu samningar til þess að fella niður tolla og það verður gert. Við það eitt að tollar eru felldir niður má segja að samkeppnisaðstaða iðnaðarins versni, en það er ekki annað en það sem hann hefur mátt búast við og er samkv. samningum. Nú hefur verið ákveðið að standa við samninga og fella niður tollana, og þá er það að vörugjaldið, sem hér er til umr., þegar lítið er til þarfa ríkissjóðs, vegur upp á móti því tapi sem hann verður fyrir vegna þess að þessir tollar eru felldir niður. Jafnframt ætti vöruverð almennt verðlagslega séð að standa nokkuð í stað og vera hið sama. Niðurfelling tollanna hefur í för með sér lækkun vöruverðs, en á móti kemur svo það, að þetta vörugjald er hækkað, svo að því leyti til stöndum við nokkuð í stað. Ef hefði verið horfið að því ráði að fresta þessari tollalækkun, má segja, eins og ég nefndi áðan, að iðnaðurinn hefði að vísu haft eitthvað betri samkeppnisaðstöðu, en það hefðu ekki af þeirri ástæðu runnið neinir sérstakir peningar til iðnaðarins til styrktaraðgerða. Það er allt annað mál. Það er það mál sem er til íhugunar og verður til íhugunar. Þau vandræði hefðu í rauninni átt við hvað sem ákveðið hefði verið varðandi EFTA-aðildina.

Auðvitað eiga vissar greinar innan iðnaðarins í sérstökum vandræðum vegna samkeppni, og það er ekkert óeðlilegt. Sú leið hefur verið farin í mörgum löndum að einmitt hafa verið styrktar þannig sérstakar greinar iðnaðarins, sem hefur verið talið að hafi orðið fyrir sérstökum búsifjum og standist ekki samkeppni. Það hefur verið gert með mismunandi hætti. Það hefur t.d. verið gert með þessu gamla, úrelta innborgunarkerfi, sem hv. síðasti ræðumaður minntist á, jafnvel í löndum sem ekki standa okkur neitt fjarri. Til ýmiss konar aðgerða hefur verið gripið þegar þannig stendur á. Það er einmitt það sem er talið heimilt eftir EFTA-samningnum, þ.e. að nota svokallaðar „selektívar“ aðgerðir ef það eru sérstakar greinar, sem eiga alveg sérstaklega erfitt með að mæta samkeppni, eða t.d. það eru greinar, sem af einhverjum ástæðum, t.d. öryggisástæðum eða öðrum ástæðum, þykja alveg sérstaklega nauðsynlegar í landinu sjálfu og þess vegna megi ekki falla niður.

Eins og ég sagði áðan, þá væri í sjálfu sér freistandi að ræða þessi mál almennt í tilefni af hinni löngu ræðu hv. síðasta ræðumann. En ég skal ekki gera það af því að forseti hyggst fresta fundi. Út af þeim spurningum, sem hún bar kannske fram sérstaklega með tilliti til þeirra áhorfenda sem hér eru á pöllunum, vil ég segja það, að þessi mál eru í athugun. Ég get ekki hér og nú gefið yfirlýsingu um það, í hverju þessar aðgerðir verða fólgnar, en það er verið að íhuga sérstakar styrktaraðgerðir til handa iðnaðinum. Hv. þm. verður enn um sinn að hafa biðlund og fær ekki ákveðið svar hjá mér — verður þá að beina fsp. til hæstv. iðnrh.

Ég geri hvorki að játa né neita því, að það geti komið til ráðstafana í formi innborgunargjalds. Það er vissulega ein þeirra aðferða sem geta komið til greina. Ég geri heldur hvorki að játa né neita því, að komið geti til greina að hækka jöfnunargjald og nota það fé, sem þar kæmi inn, til styrktar iðnaðinum. Það eru ýmsar mótbárur hafðar uppi af þeim mönnum, sem vel þekkja til, gegn þeirri leið. Þessi mál eru á engan hátt einföld.

Ég undirstrika enn og aftur, að það á ekki hið sama við um allan iðnað. Það verður að meta greinarnar eftir því, hvernig aðstaða þeirra er í samkeppni við innfluttar erlendar iðnaðarvörur. Þess vegna held ég að það geti einmitt sérstaklega komið til athugunar aðgerðir til stuðnings einstökum greinum.

En allt þetta og öll þessi vandkvæði, sem iðnaðurinn telur á því — og sjálfsagt með réttu í mörgum tilfellum — að mæta samkeppni frá erlendri innfluttri iðnaðarvöru, mátti sjá fyrir þegar Ísland gekk í EFTA, af því að það var þá vanþróað land á sviði iðnaðar. Sjálfsagt mundu sumir segja sem svo, að a.m.k. í sumum tilfellum væri það það enn og á engan hátt samkeppnisfært við hin háþróuðu iðnaðarríki sem eru innan EFTA. Samt sem áður má ekki gleyma því, að við höfum haft margvíslegt hagræði af því að taka þátt í EFTA, og við viljum þar vera og standa við skuldbindingar okkar gagnvart því.

En málið er ekki eins einfalt og hv. síðasti ræðumaður vildi vera láta. Kannske er gallinn sá, að innan núv. ríkisstj. Íslands sitja ekki jafnráðsnjallir menn og hv. síðasti ræðumaður. Vera má að ef hann sæti þar mundi skjótar brugðið við og tekið í spottann og lagfært það sem aflaga þykir fara. En það er nú einu sinni svo, að stundum er hægara að vera í stjórnarandstöðu og geta deilt á en að vera í stjórn og bera ábyrgð. Þessi hv. þm. sat á þingi, ef ég man rétt, þó skal ég ekki fullyrða það, þegar ákveðin var EFTA-aðildin. Þá hefði átt að taka þetta með í reikninginn og gera þá strax sérstakar ráðstafanir til þess að hjálpa iðnaðinum á legg þannig að hann stæðist þá samkeppni sem fyrirsjáanleg var.

Herra forseti. Ég skal ekki níðast á því að ég fékk að segja hér nokkur orð. Ég vænti þess, að hv. fyrirspyrjandi hafi fengið nokkurt svar við fsp. sinni. Kjarninn er sá, að málin eru á dagskrá og eru í athugun, en það liggja ekki fyrir ákvarðanir.