24.10.1978
Sameinað þing: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

324. mál, varnir gegn mengun af völdum bandaríska hersins

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. upplýsir það hér, að hundruð starfsmanna íslenska ríkisins fari um Keflavíkurflugvöll daglega og ætti ekki að vera of mikið á þá lagt að fylgjast með því, að þar væru haldin lög og reglur, m.a. varðandi mengunarhættuna. Hann sagði okkur einnig frá því, að sérfræðingur ameríska hersins kæmi hingað — sérfræðingur í mengunarmálum til þess að kanna þessi mál á Keflavíkurflugvelli.

Það hygg ég þó að muni vera mála sannast, að mál þetta heyri undir heilbrigðiseftirlit íslenska ríkisins að réttum lögum, og nær náttúrlega ekki nokkurri átt annað en íslenska heilbrigðiseftirlitið fjalli um þetta mál og sérfræðingar þess. Þeim væri betur til þess trúandi en hinum að gæta hagsmuna íslenskra þegna. Ég tel það litla tryggingu fyrir því, að Ameríkumenn muni framvegis fremur en hingað til ganga þannig um þetta landssvæði að viðunandi sé, að þeir hafi þar eigin hagsmuna að gæta. Ýmsir fuglar eru þess háttar, að þeir gera í hreiðrið sitt og flytja sig svo á annan stað, eins og við væntum nú ýmsir að ameríski flugherinn muni senn gera.

Fyrrv. utanrrh., hv. þm. Einar Ágústsson, sagði okkur frá því, að það hefði ekki aðeins verið rannsóknarnefnd þeirra Njarðvíkinga sem athugað hefði þetta mál, heldur hefði verið skipuð n. þriggja sérfræðinga ónafngreindra og þeir hefðu skilað skýrslu. Einnig þessi skýrsla mun hafa legið fyrir í varnarmálanefnd, og forsvarsmaður hennar segir okkur núna, að það komi sér algerlega á óvart að svona lagað hafi átt sér stað. Komust þessir þrír sérfræðingar að þeirri niðurstöðu, að það væri rangt hjá n. þeirri, sem athugaði málið fyrir Njarðvíkinga, að þarna væri óþrifalega um gengið og mengunarhætta yfirvofandi? Ef svo hefur verið, þá er ekki furða þótt Páll Ásgeir Tryggvason léti sér koma þetta á óvart. Hygg ég að það væri æskilegt, að þessi skýrsla sérfræðinganna þriggja yrði birt, þannig að í ljós komi hvort niðurstaða hennar hafi verið á þessa lund. En ég ítreka þetta: Ég tel það allsendis óviðunandi að sérfræðingi ameríska flughersins í mengunarmálum verði falið að rannsaka þetta mál, heldur krefst ég þess, að sá aðili, sem réttur er að íslenskum lögum til þess að fjalla um svona mál, þar sem er Heilbrigðiseftirlit ríkisins, fái þetta mál til meðferðar og sérfræðingar þess fjalli um það.