19.12.1978
Efri deild: 38. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

145. mál, almannatryggingar

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil sérstaklega draga það fram og vekja athygli á því, að sú fjáröflun til sjúkratrygginga, sem felst í hækkun lyfja og sérfræðilæknishjálpar, vegur hlutfallslega mjög þungt í vísitölu, þannig að sú aðgerð hlýtur að valda almennri verðlagshækkun auk þess óhagræðis sem hún felur í sér fyrir sjúklinga. Þetta skiptir auðvitað töluvert miklu í þessum málapakka. Hækkun lyfjanna og sérfræðilæknisaðstoðarinnar lætur tiltölulega lítið yfir sér í hinu stóra fjárlagafrv., en aftur á móti getur hún haft ýmis áhrif sem eru ekki alveg augljós í fyrstu. Réttara hefði verið að fyrir lægju nákvæmir útreikningar um það, hver áhrif þessi breyting hefði á verðlagið.