19.12.1978
Efri deild: 38. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

145. mál, almannatryggingar

Frsm. (Bragi Níelsson):

Herra forseti. Ég vil gjarnan vekja athygli á því, að í þessu frv. kemur alls ekki fram nokkur skapaður hlutur um öflun tekna, hvorki af lyfjakostnaði né sérfræðilæknishjálp. Það er að vísu nokkuð langt síðan verðbreytingar hafa orðið á því tvennu og er sjálfsagt tími til kominn að endurskoða það. Ég álit að svo sé, því það hefur ekki fylgt öðrum liðum. T.d. hækkaði gjald sjúklinga til almennra lækna á s.l. vori úr 150 upp í 250 kr., en hinir liðirnir héldust báðir óbreyttir og hafa gert það um nokkuð langan tíma. En ég vil vekja athygli á því, að þetta er alls ekki til umr. núna.

Hitt er svo, að mér finnst nokkuð furðulegt að það skuli vera haldið uppi hér heldur leiðinlegu málþófi um þetta frv., sem mér finnst vera til verulegra bóta, þó mér finnist það engan veginn eins gott og ég vildi að það væri, því að þessi brúttóskattur, sem sjúkratryggingagjaldið hefur verið, hefur að sjálfsögðu komið verst niður á tekjulágu fólki. Hér er verið að sníða nokkurn agnúa af því, en því miður ekki gengið nógu langt að mínu áliti. Ég býst við að þess vegna hafi ekki verið höfð nein mótmæli gegn frv. í n., að viðkomandi ágætir þm. hafi eiginlega verið ljómandi ánægðir með þetta frv. eins og það er.