19.12.1978
Efri deild: 38. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

145. mál, almannatryggingar

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Það skal vera örstutt. Það getur ekki heyrt undir málþóf þó að haldnar séu tveggja mínútna ræður um þetta mál.

Ég vil ítreka í hverju fyrirvari okkar sjálfstæðismanna í n. fólst. Það liggur auðvitað fyrir, að þessi tekjulækkun ríkissjóðs er ekki einhliða greiðasemi við skattborgarana í landinu. Það sýna önnur mál sem við höfum til meðferðar nú þessa dagana. Sú lækkun, sem af þessu stafar, kallar á fjáröflun sem við erum ekki samþykk. Það er samhengi í þessu. Þess vegna er fyrirvari okkar. Þegar ég talaði um lyfjahækkunina og hækkunina á sérfræðiaðstoð, þá var það sérstaklega til að draga fram að það er með nokkrum hætti blekking að segja að þarna sé verið að létta útgjöldum á hinum tekjulágu, því að um leið eru útgjöld þeirra hækkuð af ríkisins hálfu á mörgum öðrum sviðum. Og vegna þess að nú hef ég í höndunum það minnisblað sem ég hafði ekki meðferðis við fyrri umr., vil ég láta tölurnar koma réttar fram, en þær eru sem hér segir, með leyfi hæstv. forseta: Við innlend lyfjakaup var gjald sjúklinga 325 kr., hækkað í 600, við erlend lyf 650 og hækkar í 1000, sérfræðiaðstoð hækkar úr 600 kr. í 1500. — Þessar aðgerðir, að hækka gjald sjúklingsins við hverja afgreiðslu lyfja og hverja sérfræðiaðgerð, létta 950 millj. kr. af ríkissjóði. M.ö.o.: þessir sjúklingar borga þessar 950 millj., en ríkisvaldið talar um leið um að þetta frv. um lækkun á sjúkratryggingagjaldinu ívilni þessu sama fólki.