19.12.1978
Efri deild: 38. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1779 í B-deild Alþingistíðinda. (1344)

39. mál, kjaramál

Frsm. minni hl. (Jón G. Sólnes):

Herra forseti. Við, sem skipum minni hl. fjh.- og viðskn. þessarar hv. d., skiluðum sérstöku nál., en vegna annríkis skrifstofu þingsins hefur það ekki birst hér enn. Ég vil geta þess, að við lýstum okkur í meginatriðum sammála því sjónarmiði sem kom fram í nál. minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. í sambandi við þetta mál. Jafnframt tókum við fram, að við mundum að öðru leyti gera nánari grein fyrir afstöðu okkar við afgreiðslu málsins í þessari hv. deild.

Eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, kom forstjóri Þjóðhagsstofnunar ásamt fulltrúa sínum á fund fjh.- og viðskn. í morgun og gaf margar mikilsverðar upplýsingar sem þeim ber að þakka.

Það kemur óneitanlega margt einkennilegt fram þegar maður fer að skoða þessi mál öll ofan í kjölinn. Fyrst og fremst beinir maður þá huganum að því mikla ölduróti sem varð í íslensku þjóðfélagi við þær efnahagsaðgerðir sem voru gerðar af hálfu fyrrv. ríkisstj. með febrúarlögunum svokölluðu og síðari breytingum með brbl. í maí. Eins og okkur er öllum kunnugt, hv. alþm., þá var kannske aðalmál hinna tvennu kosninga sem fóru fram hér á landi á yfirstandandi ári, bæði sveitarstjórnar- og alþingiskosninganna, andstaðan gegn þessum ráðstöfunum. Aðalvígorðin voru þau og herhvötin að stimpla fyrrv. ríkisstjórnarflokka sem kaupránsflokka og stimpla þær nauðsynlegu varnarráðstafanir, sem óneitanlega fólust í febrúarlögunum, sem óþokkabragð gagnvart öllum launþegum landsins. Og þessir ágætu andstæðingar ríkisstj. höfðu sannarlega ríkulegan árangur af erfiði sínu. Þess bera merki úrslitin í þessum tvennum kosningum. En nú þegar öldurnar hefur lægt og menn geta sýnt yfirvegun er þeir fara í gegnum þessi mál, þá kemur dálítið einkennilegt á daginn.

Samkv. því plaggi, sem við fengum frá fulltrúum Þjóðhagsstofnunar í morgun, kemur í ljós að kaupmáttur launa, ef miðað er við að febrúarlögin hefðu gilt áfram, hefði yfirleitt haldist, miðað við töluna 100 1. jan. 1978. Ársmeðaltalið, þrátt fyrir þessi gífuryrði um hið óskaplega kauprán, hefði orðið, ef þessi lög hefðu fengið að vera í friði, að maður tali nú ekki um ef þau hefðu mætt jafnmiklum velvilja og skilningi af hálfu stjórnenda launþegasamtakanna og ráðstafanir núv. hæstv. ríkisstj. hafa notið, ársmeðaltal kaupmáttar samkv. þessum illræmdu svokölluðu kaupránslögum er 94–95 stig á móti ársmeðaltalinu um 99 stig 1. des. 1978 miðað við núverandi aðgerðir. Ég vil benda á, þegar við miðum við það kaupgjaldsstig eða það kaupgjaldsákvæði, að samkv. ákvæðum laga um efnahagsráðstafanir frá því í febr. var gert ráð fyrir því að þau lög skyldu ekki gilda lengur en til 1. des., svo að þá hefðu verið að öðru óbreyttu greiddar fullar vísitölubætur. Þetta styrkir þá skoðun okkar, sem vorum stuðningsmenn fyrrv. ríkisstj., stóðum að febrúarlögunum og studdum þær nauðsynlegu varúðarráðstafanir sem fólust í efnahagsaðgerðunum í febr.-maí, að lögin fóru strax að bera jákvæðan árangur. Eins og ég sagði áðan: ef þeim hefði verið mætt af þeim skilningi og velvild sem síðar varð um ráðstafanir nýrrar ríkisstj., þá er ekki nokkur vafi á því, að okkur hefði orðið það ágengt í baráttunni við verðbólguna — öll rök hníga að því — að fullar vísitölubætur á a.m.k. laun hinna lægst launuðu og smátt og smátt ofar í launaþrepunum hefðu gengið að fullu í gildi miklu fyrr en menn höfðu áætlað.

Við skulum svo athuga hvernig þetta aukna hlutfall í kaupmættinum, ef er miðað við 1. des. 1978, er fengið og hvað þær ráðstafanir, sem urðu til þeirrar kaupmáttaraukningar, hafa kostað þjóðina.

Til þess að ná þessum að mínu mati lítilfjörlega og veikburða árangri þurfti að leggja alveg sérstaka skatta á þjóðina — skatta sem deilt er um hvort séu löglegir af því að þeir voru afturverkandi. Það þurfti að hækka eignarskattinn. Það þurfti að taka upp í fyrsta skipti þá skattvenju í íslensku þjóðfélagi að fara að gera fyrningar að skattstofni. Það var ekki nóg með að sérstakt vörugjald, sem hafði mætt óskaplegri mótstöðu af hálfu aðalstuðningsflokka núv. ríkisstj., Alþb. og Alþfl., væri framlengt, heldur var það í mörgum tilfellum hækkað allt upp í 30%, fyrir utan svo í lokin að stofnað var til tvöfaldrar gengisskráningar í þjóðfélaginu fyrir utan verulega gengislækkun. Þessum árangri hæla núverandi stjórnvöld sér mikið af, en allir viðurkenna að hann er þó engan veginn fullnæging á því loforði sem gefið var fyrir kosningarnar um að samningarnir skyldu verða að öllu leyti í fullu gildi. Það var framkvæmt með gífurlegum álögum á ríkissjóð, það þungum að þær ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar og voru gerðar í haust, valda því, að til víðtækari skattheimtu þarf að grípa en þekkst hefur hjá þjóðinni um langan tíma.

Slík skattbyrðastefna sem nú er stefnt óðfluga að og snertir hvern einasta lið fjármálakerfisins í landinu og allar atvinnugreinar hlýtur að hafa í för með sér að rekstri og afkomumöguleikum grundvallaratvinnuvega þjóðarinnar er teflt í stórhættu, að ekki sé meira sagt, og engan veginn séð fyrir um afleiðingar af þeim ráðstöfunum öllum. Eitt vitum við þó, sem blasir við, að nú er atvinnuörygginu, sem var þó grundvallaratriði í stefnu fyrrv. ríkisstj. og henni tókst að viðhalda með miklum ágætum allan tímann, er vægt að orði komist teflt í mikla hættu.

Það kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., hv. 6. þm. Suðurl., þegar hann var að skýra frá tölum, að ekki hefði verið reiknað með þeim kjarabótum sem fælust í hinum svokölluðu „félagslegu umbótum“. Það er einn liðurinn í þeirri ríkjandi velvildarstefnu forráðamanna launþegasamtakanna, sem í þetta skipti sjá ástæðu til þess að styðja hverja þá aðgerð sem framkvæmd er af núv. stjórnvöldum, að hafa sitt mat á hlutunum. Þegar metnar eru almennar kjarabætur í þjóðfélaginu hefur verið mikið haft á orði að svokallaðar „félagslegar ráðstafanir“ hafa verið metnar, ef ég man rétt, jafngildi þriggja kaupgreiðsluvísitölustiga. Ekki hefur almenningi verið skýrt frá því, hvernig þessi niðurstaða sé fengin eða á hvern hátt sé háttað útreikningi þessara launabóta. En í sambandi við þessa umbun, þessa þóknun eða þessar bætur, sem eiga að koma í staðinn fyrir beinar kaupgreiðslur, hlýtur að vakna hjá manni sú spurning, hvort slíkar félagslegar umbætur muni hafa mikla þýðingu fyrir afkomu verkamanna t. a. m, austur á Stöðvarfirði, Borgarfirði eystra, Vopnafirði, Raufarhöfn, Þórshöfn, vestur á Ströndum eða Skaga eða í öðrum afskekktum héruðum. Ekki er ég í nokkrum vafa um að þetta muni menn telja mikið vafamál.

Af því, sem ég hef nú sagt hér, kemur það bersýnilega fram, að miðað við allt það brambolt og þann óskaplega hernað, sem hafður var í frammi í sambandi við efnahagsaðgerðir fyrrv. ríkisstj., megi segja að árangurinn sé sá að aldrei hafi í íslensku þjóðlífi í kosningabaráttu, nokkru sinni fyrr eða síðar, tekist í jafnríkum mæli að gjörblekkja jafnmarga kjósendur á jafnskömmum tíma. Það var einhvern tíma sagt, það er gamalt máltæki: Fjöllin tóku jóðsótt og það fæddist lítil mús. — Og svo eftir að búið er að framkvæma allar þær gífurlegu skattbyrðaraukningar og þær efnahagsráðstafanir sem eiga eftir kannske að grípa inn í grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar — þeir munu kannske ekki bera þess bætur um langan tíma — þá er uppskeran ekki meiri en svo, að á meðaltalinu af kaupmætti launa yfir árið munar tæpum 4 stigum.

Og hvað er svo með framhaldið? Með stefnu núv. hæstv. ríkisstj. í atvinnu-, launa- og skattamálum er búið að leggja slíkar byrðar á fjárhagskerfi ríkissjóðs, að honum er ætlað að standa undir 19 milljarða niðurgreiðslum fyrir utan ýmsar aðrar greiðslur í sambandi við ráðstafanir ríkisstj. í efnahagsmálum. Þó er mikill vafi á og hefur verið getið í aths. við fjárlagafrv., að mjög vafasamt sé að áætlað sé nægilegt fé til þess að standa straum af niðurgreiðslum í sambandi við kaupgjaldsvísitöluna svo að dugi út allt næsta ár. En til þess að einhver von sé til þess að afla ríkissjóði einhverra tekna til að létta þær gríðarlegu byrðar sem honum er ætlað að axla, hefur verið lagður á borð þm. bunki af frv. sem innihalda, ef lögfest verða, ákvæði um frekari skattheimtu sem nemur mörgum milljörðum. Eftir því sem ég hef frétt munu væntanleg skattaákvæði fela í sér að því er atvinnuvegina snertir 6 milljarða kr. aukna skattbyrði — fyrir atvinnuvegi sem allir ábyrgir aðilar viðurkenna að berjast í bökkum. Ég held að það sé réttmæli, að öllum hugsandi hv. alþm. sé mjög til efs hvort við núverandi aðstæður í þjóðfélaginu sé öruggt um að ekki verði um stórfelldan samdrátt í atvinnumálum þjóðarinnar að ræða á næstkomandi árum. Alla vega held ég að mikil bjartsýni fylgi því að halda að undirstöðuatvinnuvegir, sem hafa fengið slíkar kveðjur og slíkar álögur á sig sem fólust í ákvæðum brbl., sem verið er að staðfesta með þessu frv., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu um kjaramál, þoli beinlínis þær álögur sem þeim er ætlað að bera samkv. þeim frv. sem hér hafa verið lögð fram og okkur hefur verið tjáð að eigi að lögfesta hið allra bráðasta.

Þrátt fyrir að þessar álögur yrðu samþ. kemur öllum þeim, sem best þekkja til málanna, öllum efnahagssérfræðingum og þeim, sem ættu að hafa besta kunnáttu og þekkingu á þessum málum, saman um að teflt sé á ystu nöf um afkomu ríkissjóðs og ríkisbúskaparins.

Því ber allt að sama brunni, að því betur sem þessi mál eru athuguð komast menn að raun um að efnahagsráðstafanir hæstv. fyrrv. ríkisstj., sem gerðar voru í febr. s.l., voru nauðsynlegar varúðarráðstafanir í þjóðfélagi þar sem verðbólgan var að verða óviðráðanleg. Og þessar ráðstafanir voru þannig framkvæmdar, að fyrst og fremst voru byrðarnar þannig á lagðar, að reynt var að hlífa þeim sem minnsta höfðu getuna og minnstar höfðu tekjurnar, en aftur á móti lagt meira á hina, sem voru þess betur umkomnir að bera byrðarnar. Það var því um jákvæða stefnu að ræða í viðureigninni við verðbólguna. Það er enginn vafi á því, að ef þeim ráðstöfunum hefði verið tekið af jafnmiklum skilningi og velvild og öllum þeim boðorðum og öllum þeim ákvæðum og reglugerðum sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur verið að setja og alltaf hefur verið túlkað af forráðamönnum hinna stærstu launþegasamtaka að væri ekkert við að segja, þetta væri allt saman ágætt af því að nú væri við stýrið stjórn sem væri vinveitt verkalýðnum, ef þessar febrúaraðgerðir hefðu fengið jafnvelviljaðar móttökur, þá er enginn vafi á því, að við hefðum nú verið búin að ná stórfelldum jákvæðum árangri í viðureigninni við verðbólguna og allt það illa sem af henni stafar. Við hefðum þá ekki staðið andspænis því 1. des. að leggja á nýja skatta. Við hefðum ekki þurft að leggja á einhverja lúxusskatta og hafa þannig ríkisforsjá með neysluvenjum þjóðarinnar. Við hefðum getað lofað henni að hafa sín hljómflutningstæki og annað slíkt án frekari innflutningskostnaðar. Og við hefðum ekki þurft að fara að leggja lúxusskatt á hreinsiefni, tannkrem og þess háttar. En við hefðum þrátt fyrir þetta getað bætt kjör manna þannig að við hefðum verið þess megnugir að greiða mjög stórum hópi launþega fullar vísitölubætur.

Þetta er hinn mikli munur á því, hvernig hefði farið ef viturlegar varúðarráðstafanir fyrrv. stjórnvalda hefðu fengið að njóta sín, ef óábyrgir lýðskrumarar hefðu ekki komist upp með það að brengla svo dómhæfni kjósenda þessa lands að þeir gátu ekki séð muninn á réttu og röngu.

Það er eins og það sé jafnvel ófrávíkjanlegt lögmál, ef svokölluð vinstri stjórn nær völdum hér á landi, að hún þurfi alltaf að senda þjóðinni leiðinlegar jólagjafir. En af öllum þeim litlu og lélegu jólagjöfum sem vinstri stjórnir hafa sent þessu þjóðfélagi, þá held ég að þær jólagjafir, sem á að gefa þjóðinni núna, séu hvað lélegastar. Stórkostlega eru auknar skattbyrðar á öllum almenningi, ég endurtek: á öllum almenningi. Komið hefur fram í umr. um önnur mál hér, að þar er enginn undanskilinn. Ég sá það best þegar var verið að tala áðan um breyt. á lögum um almannatryggingar. Og um leið fylgir slíkum álögum og framkvæmdum mjög skert atvinnuöryggi að ekki sé meira sagt. Allar eru þessar framkvæmdir og þessi lagasetning mótuð af sundurlyndi, fálmi, úrræðaleysi og stundum algerri upplausn í starfi stjórnarflokkanna, sem best hefur komið fram á hinu háa Alþingi fyrr í dag. Það er því miður og verður að segjast, að nú þegar hv. Alþ. tekur sér jólafrí hefur kannske aldrei verið meira réttyrði sem sagt er, að hér kúri hnípin þjóð í miklum vanda.

Svo leggjum við til, herra forseti, minni hl. fjh.- og viðskn. Ed., að þetta frv. verði fellt.