24.10.1978
Sameinað þing: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

324. mál, varnir gegn mengun af völdum bandaríska hersins

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu enginn tími til þess að ræða eins viðamikið mál og hér er til umr. og eins og umr. hefur þróast í fsp.-tíma og ég mun að mestu leiða það hjá mér. En ég get ekki fallist á það, að ég hafi í orðum mínum hér áðan, þeim fáu orðum sem ég sagði, verið að skorast undan því, að þessi mál yrðu könnuð og þau yrðu upplýst. Ég held að ég hafi þvert á móti hvatt hv. þm. til að kynna sér það sem gerst hefur í þessum málum. Það eru, eins og ég áðan sagði, engin tök á því fyrir mig eða nokkurn mann, sem hefur tvær mínútur til umráða, að gera grein fyrir því, sem gerst hefur á 7 ára tímabili í jafnviðamiklu máli og Keflavíkurflugvöllur er, með öllum þeim hliðarsviðum sem hefur borið á góma í þessum umræðum. Þess vegna mun ég ekki gera það á þessu stigi, en hins vegar er ég mjög fús til þess að ræða öll þessi mál við önnur og hentugri tækifæri, — tækifæri sem vafalaust munu gefast, því að hv. 3. landsk. þm. er vanur að standa við það sem hann segir. Hann hefur boðað tillöguflutning um rannsóknarnefnd og þá verður vafalaust tækifæri til að ræða þessi mál alveg niður í kjölinn áður en n. verður ákveðin hér á Alþ. og eins eftir að búið er að setja hana.

Ég vil aðeins segja við hv. þm. Karl Steinar Guðnason, sem hélt hér hógværa ræðu eins og hans er von og vísa, að hann ætlaði að gera eitthvað einkennilegan þann málflutning minn, að ég talaði um flugöryggi í sömu andránni og mengun af völdum olíu og annars óþrifnaðar. Það var að gefnu tilefni. Það var vegna þess að í þeirri skýrslu, þeim þrem atriðum sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson las úr skýrslu Njarðvíkinganna, var einmitt talað um flugöryggi. Það var þess vegna og aðeins þess vegna sem ég minntist á það. Annars hefði ég vel getað látið mér nægja að halda mig við það efni sem fsp. hv. 3. landsk. þm. gáfu tilefni til.

Ég vil svo aðeins að síðustu — og það var eiginlega þess vegna sem ég stóð upp — algerlega mótmæla því, að ég hafi með því að nota orðið „vitringar“ um Njarðvíkingana, sem sömdu skýrsluna, ætlað að hæða þá á einhvern hátt. Ef orðið vitringur er í orðabók hv. 3. landsk. þm. háðsyrði, hvað á þá að kalla þau orð, sem hann notar sjálfur?