19.12.1978
Neðri deild: 36. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

95. mál, leiklistarlög

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Frv. það til leiklistarlaga, sem lagt hefur verið fyrir Alþ., er lítið frv. og lætur ekki mikið yfir sér, en meginefni þess er að tryggja tilverurétt þeirra leikhópa sem hafa leiklistarstarfsemi að aðalatvinnu og eru ekki viðloðandi Leikfélag Reykjavíkur eða Leikfélag Akureyrar, en það eru einu leikhóparnir sem teljast atvinnuleikhús og hafa hlotið fasta fjárstyrki á fjárlögum.

Um það hefur verið deilt, eftir að lög um leiklistarstarfsemi voru samþ. fyrir nokkrum árum, hvort heimild væri til þess að veita öðrum atvinnuleikhúsum fjárveitingar á fjárl. en Leikfélagi Akureyrar og Leikfélagi Reykjavíkur. Þetta frv. er flutt fyrst og fremst til þess að taka af allan vafa um þetta atriði.

Leiklistarstarfsemi hefur verið í örum vexti hér á landi á liðnum árum. Kemur þar til starfsemi leikskóla, sem hefur fjölgað verulega leikurum, og ánægjuleg afleiðing þessa hefur orðið mikil gróska í leiklistarstarfsemi og tilkoma ýmissa sjálfstæðra leikhópa sem gera kröfu til þess að nokkurt tillit sé til þeirra tekið, og er ekki nema eðlilegt, að það sé gert með breytingum á leiklistarlögum.

Við meðferð þessa máls í Ed. var gerð sú breyting, að bætt var inn í frv. orðum sem leiða til þess, að einnig er heimilt að veita óperustarfsemi sérstakan stuðning. Ég held að þeir, sem mest hafa um þessi mál fjallað, geri sér fyllilega grein fyrir því, að þessi starfsemi hefur verið nokkuð vanrækt á liðnum árum og full ástæða til að sýna henni meiri sóma en gert hefur verið, og ég held að það hafi verið vel ráðið af hv. Ed. að betrumbæta frv. með þessum hætti.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til að að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til hv. menntmn. deildarinnar.