19.12.1978
Neðri deild: 37. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1789 í B-deild Alþingistíðinda. (1370)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft þetta mál til athugunar. N. varð ekki sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl. skilar áliti á þskj. 234, en minni hl., fulltrúar Sjálfstfl., skilar séráliti.

Eins og fram kemur á nál. á þskj. 234, eru í meiri hl. fulltrúar Alþfl., þeir hv. þm. Vilmundur Gylfason og Finnur Torfi Stefánsson, sem skrifa undir nál. með fyrirvara, og þeir munu gera grein fyrir fyrirvara sínum við umr. málsins.

Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþ., en vill þó gera eina minni háttar breytingu á 6. gr. frv. og kem ég að þeirri brtt. síðar.

Þetta frv., sem hér er um að ræða, er eitt af mörgum frv. sem eru á dagskrá þessa fundar og öll eru tekjuöflunarfrv. ríkisstj. og að flestu leyti í samræmi við þá viðbótartekjuöflun fyrir ríkissjóð sem gefnar hafa verið yfirlýsingar um af hálfu stjórnarinnar áður að mundi verða leitað fyrir næsta ár. Til viðbótar eru svo ný skattgjaldsatriði, eins og frv. til l. um nýbyggingagjald og frv. til l. um skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, en þessi frv. eiga það öll sammerkt, að þau eru flutt til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð í sambandi við afgreiðslu fjárlaga.

Langsamlega þýðingarmest af þessum frv. er að sjálfsögðu það frv. sem hér er nú til umr., frv. til l. um breytingar á gildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Þar er þó ekki um verulegar breytingar að ræða á skattheimtu frá því sem verið hefur nú síðari hluta þessa árs eða ákveðið var með brbl. núv. hæstv. ríkisstj. sem gefin voru út í septembermánuði. Þó er gerð með þessu frv. nokkur breyting á þessari skattheimtu.

Í 1. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir að svonefnd verðstuðulsfyrning falli niður, og þær upplýsingar eru gefnar í sambandi við frv., að frádráttur félaga vegna þessarar verðstuðulsfyrningar hafi verið á yfirstandandi ári 3883 millj. kr. hjá félögum og hjá einstaklingum hafi þessi verðstuðulsfyrning numið 885 millj. kr. Talið er að það ákvæði að fella niður reglurnar um verðstuðulsfyrningu muni gefa ríkissjóði um 1300 millj, kr. auknar tekjur.

Í 2. gr. frv. er síðan gert ráð fyrir því, að heimild til svonefndrar flýtifyrningar verði einnig felld niður hvað mannvirki áhrærir, en á öðrum eignum skuli færa flýtifyrninguna niður úr 30% í 10% og að ekki sé heimilt að nota þessi 10% meira en sem nemur 2% á ári.

Það kemur einnig fram í upplýsingum með þessu máli, að á þessu ári hafi félög notfært sér flýtifyrningarreglur sem nemur 2078 millj. kr., en einstaklingar hafi notfært sér flýtifyrningu sem nemur 810 millj. kr.

Áætlað er að tekjur ríkisins sem fengjust vegna þessara breytinga, mundu nema um 1060 millj. kr. Þarna er um nokkra hækkun að ræða á tekjum ríkisins frá því sem gert hafði verið ráð fyrir í fjárlagafrv. því sem lagt var fyrir þingið. Sú breyting er einna veigamest frá þeirri skatttöku sem verið hefur, að í stað þeirra reglna, sem giltu með hinni sérstöku skattlagningu samkv. lögum um kjaramál, þar sem lagður var á hinn svonefndi fyrningarskattur, þá er þeim reglum breytt samkv. þessu frv. í þá átt sem ég hef nú verið að lýsa, en gert er ráð fyrir svipaðri skatttöku samkv. þessari leið, þó nokkru hærri, en samkv. hinni leiðinni, sem farin var samkv. brbl. frá því í sept.

Þá er í 3. gr. frv. gert ráð fyrir að breyta nokkuð tekjuskattinum af hærri tekjum, þannig að þar er bætt við nýju skattþrepi, 50%. Þessi hækkun á tekjuskattinum kemur í rauninni á einstaklinga í staðinn fyrir lög um skyldusparnað sem voru í gildi á þessu ári. Er talið að hækkun á tekjuskatti einstaklinga samkv. þessu mundi nema um 1850 millj. kr. á næsta ári. Rétt er að taka það fram, að hér er haldið sömu reglu og gilti varðandi skyldusparnaðinn, að þessi hækkaði skattur kemur aðeins á tiltölulega háar tekjur eða — eins og fram kemur í upplýsingum með þessu frv. — á einstaklinga sem hafa 3 millj. 848 þús. kr. í skattgjaldstekjur, sem talið er að mundi jafngilda vergum tekjum á framtali að upphæð 4 millj. 527 þús. kr. Hjá hjónum mundi þessi skattur lenda á tekjum sem eru fyrir ofan 5 millj. 63 þús. kr. skattgjaldstekjur eða sem jafngildir í vergum tekjum 6 millj. 751 þús. M.ö.o.: þessi aukni skattþungi lendir aðeins á tekjum sem eru fyrir ofan 6.7 millj. kr. hjá hjónum.

Í 4. gr. frv. eru ný ákvæði um það, að ónotaður persónuafsláttur geti gengið til greiðslu á sjúkratryggingagjaldi.

Þá er í 5. gr. frv. gert ráð fyrir því, að skattstiganum við skattlagningu á félög verði breytt þannig, að skattprósentan verði færð úr 53% í 65%. Hér er einnig um þá breytingu eina að ræða frá því sem verið hefur í gildi, að hér er skyldusparnaðurinn, sem lagður var á, sameinaður tekjuskattinum hjá félögum og gerður að föstum skatti í staðinn fyrir skyldusparnaðinn. Hins vegar ekki um aðra breytingu að ræða sem felst í þessu, en með því er gert ráð fyrir að ríkissjóður fái auknar tekjur um 1200 millj. kr. á næsta ári.

Í 6. gr. frv. er um eignarskattinn að ræða, en eins og kunnugt er fólst í brbl. frá því í sept. hækkun á eignarskatti bæði einstaklinga og félaga. Nú eru þau ákvæði tekin upp í öðru formi, þ.e.a.s. skattgjaldsprósentan, sem var á einstaklingum 0.8% er færð upp í 1.2% eða sem nemur 50%, og skattgjaldsprósentan, sem var á félögum 0.8%, er tvöfölduð og verður þá 1.6%. Skattfrelsismörkin eru síðan hækkuð í samræmi við breytt eignarmat. Til viðbótar við þetta koma svo ákvæði um að létta þennan skatt nokkuð á þeim sem eru orðnir 67 ára og eldri eða eru öryrkjar, og er það til samræmis við þá afgreiðslu sem þegar hefur orðið í sambandi við hliðstæða skatttöku eftir ákvæðum brbl.

Það er við þessa grein sem við í meiri hl. fjh.- og viðskn: flytjum sérstaka brtt. þar sem við leggjum til að hafður verði á sami háttur í meginatriðum varðandi þetta ákvæði og hér hefur áður verið samþ. varðandi brbl. um kjaramál, en brtt. okkar um þetta efni er á þskj. 235 og er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Við síðustu mgr. 1. tölul. 6. gr. bætist nýr málsl., er orðist svo:

Hjá öðrum mönnum, sem höfðu lægri vergar tekjur til skatts en 2.1 millj. kr., ef um einstaklinga er að ræða, en lægri vergar tekjur til skatts en 2.7 millj. kr., ef h jón eiga í hlut, skal eignarskattur, sem ekki nær 68 400 kr. hjá einstaklingi, en 102 600 kr. hjá hjónum, lækkaður um 20%.“

Hér er sem sagt ekki farin nákvæmlega sama leið og hafði áður verið samþ. um sama efni varðandi brbl. um kjaramál, en reynt að ná því sama sem þar var verið að reyna að ná, þ.e. að veita þeim nokkra ívilnun frá þessum skatti sem eru tekjulágir. Með þessu ákvæði er gert ráð fyrir að þeir aðilar, sem þannig stendur á um, beri ekki jafnháan eignarskatt og hinir, sem hafa hærri tekjur.

Um önnur efnisatriði þessa frv. þarf ég ekki að hafa mörg orð. Það hefur þegar verið rætt við 1. umr. málsins, og í rauninni er þetta mál öllum hv. þm. svo vel kunnugt að ekki er þörf á því, eins og nú er ástatt um tíma þingsins, að hafa um þetta langt mál. Sú skattheimta, sem felst í þessu frv., er í rauninni sú sama sem fram kom í brbl. ríkisstj. frá því í septembermánuði, með þeim minni háttar breytingum sem ég hef gert grein fyrir. Og vegna þess að þau frv., sem ég minntist á í leiðinni, þ.e.a.s. frv. til l. um nýbyggingagjald og frv. til l. um skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, þessi frv. eru öll samhangandi í sambandi við tekjuöflun þá sem unnið er að nú að koma fram í sambandi við afgreiðslu fjárl., mun ég hafa fá orð um þau frv. þegar að þeim kemur, en bendi aðeins á að þessi frv. eru liður í því sama verki, þ.e.a.s. að afla ríkissjóði nægilegra tekna til þess að hægt sé að afgreiða fjárlög á þann hátt, sem ríkisstj. hefur gert grein fyrir og fram hefur komið í umr. um fjárlagafrv.

Það er till. meiri hl. fjh.- og viðskn., að frv. verði afgreitt á þann hátt sem ég hef lýst, með þeirri einu brtt. sem fram kemur af hálfu meiri hl. n. á þskj. 235.