19.12.1978
Neðri deild: 37. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1791 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram varð fjh.- og viðskn. ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Ég geri hér grein fyrir áliti minni hl. sem leggur til að frv. verði fellt.

Þetta frv. er eitt af mörgum skattpíningarfrv. sem ríkisstj. hyggst hespa af nú fyrir jólin. Jólaglaðningurinn til atvinnurekstrarins er í stórum dráttum þessi samkv. frv.: Verðstuðulsfyrningin, sem fyrri vinstri stjórn leiddi í lög árið 1972, er felld brott og þar koma 1300 millj. til ríkissjóðs. Flýtifyrningin er lækkuð úr 30% í 10% og felld niður á mannvirkjum og þar koma 1060 millj. til ríkissjóðs. Tekjuskattur félaga er hækkaður úr 53% í 65%, þar koma 1200 millj. í ríkissjóð. Eignarskattur á félög er tvöfaldaður. Svona mætti lengur telja, en samtals eru auknar álögur á atvinnureksturinn um 6000 millj. kr.

Á fund n. í morgun komu fulltrúar frá Vinnuveitendasambandi Íslands. Þeir vöruðu eindregið við þeirri skattheimtu sem felst í þessu frv. og reyndar öðrum þeim tekjuöflunarfrv. sem hér eru til meðferðar á hv. Alþ. Þessi skattlagning hefur þær afleiðingar, að atvinnuöryggi í framleiðslugreinum er mjög skert, þar sem svo óhófleg skattlagning sem með þessu frv. sem öðrum er boðuð leiðir til rekstrarstöðvunar hjá fjölmörgum fyrirtækjum sem áttu í nægum erfiðleikum fyrir.

Einstaklingar fara ekki varhluta af þessu skattlagningaræði ríkisstj. Eignarskattar eru stórhækkaðir og 50% skattþrep er tekið upp, kallað hátekjuskattur, en spurning er hvað verða nefndar hátekjur í framtölum næsta árs.

Allar þessar aðgerðir, sem ég hef hér nefnt og ákvæði eru um í þessum frv., lama frumkvæði einstaklinganna, þær draga úr vinnuvilja og skerða þar með lífskjörin. En þetta er stefna Alþb. í framkvæmd, — stefna sem ríkisstj. hefur gert að sinni stefnu.

Að vísu er þessi stefna í dálitlu ósamræmi við stefnu eins af stjórnarflokkunum fyrir kosningar, en fram hjá óþægindum má sigla með því að samþykkja þetta frv. með fyrirvara, sem í sjálfu sér kostar ekkert, og það má flytja talsvert langar ræður um slíka fyrirvara og verður sjálfsagt gert hér á eftir. En með þessum hætti leggur meiri hl. sem sagt til, fulltrúar stjórnarflokkanna, að frv. verði samþ., en við fulltrúar Sjálfstfl. leggjum til að frv. verði fellt.

Ég þarf í sjálfu sér ekki að fara mörgum fleiri orðum um þetta mál, það hefur þegar verið rætt við 1. umr., en aðeins nokkur orð þó til viðbótar.

Ég hef í sjálfu sér lítið að segja um þá brtt. sem hér var gerð grein fyrir, ekki annað en það, að hér er enn verið að blanda saman eignarskatti og tekjum manna, reynt að draga úr óréttlæti, sem slík gífurleg skattlagning hefur í för með sér, með því að draga úr skattlagningunni hjá þeim sem hafa lægstar tekjur.

Hér er sem sagt fyrst og fremst verið að skattleggja atvinnureksturinn, og er satt að segja furðulegt að a.m.k. sumir stjórnarflokkanna skuli sýna þennan áhuga. Það er fróðlegt að vita hvort þetta er í raun og veru t.d. sérstakt áhugamál Framsfl., að ganga svona að atvinnurekstrinum. Afleiðingarnar hljóta að verða, eins og ég sagði áðan, atvinnuleysi. Atvinnureksturinn borgar of háa skatta í verðbólgunni, það eru staðreyndir. Hann fær ekki að draga frá útgjöld á réttu verði. Afskriftir eru ekkert annað en útgjöld, — útgjöld sem dreift er á mörg ár, og sá frádráttur verður á röngu verði í slíkri verðbólgu, sem hér er.

Um einstakar greinar skal ég ekki fara mörgum orðum.

5. gr., sem hækkar tekjuskatt félaga úr 53% í 65%, er afsökuð með því núna, að hún jafngildi skyldusparnaðinum sem lagður var á í fyrra, en þar er að sjálfsögðu ólíku saman jafnað. Við fengum álit fulltrúa Vinnuveitendasambandsins í morgun á þessari gr., og einn gesta okkar á fundinum komst svo að orði, að hér væri um að ræða „ökonomískt brjálæði“, og ég geri þau orð að mínum.

Með 6. gr. er svo aðeins verið að festa eignarskattsaukann í skattkerfinu eins og hann var í brbl. ríkisstj. frá í sept.

Þetta frv. er eitt af fleirum og raunar löngum slóða sem hæstv. ríkisstj. dregur nú á eftir sér. Ég vænti þess, að hæstv. forseti hafi ekkert á móti því, að ég ræði um hin tekjuöflunarfrv., sem eru á dagskrá, nú í leiðinni, það styttir þá framsögu mína fyrir hinum nál.

Við höfum hér einnig frv. um sérstakan skatt á verslunarhúsnæði. Þar er um að ræða mismunun í skattlagningu eftir tegundum eigna. Slík mismunun hefur að vísu viðgengist í tekjustofnalögunum að því er fasteignir varðar, en það réttlætir ekki að ríkissjóður fari nú út í slíka mismunun eins og þar hefur tíðkast. Þessi sérstaki skattur er talinn gefa ríkissjóði 550 millj. kr. á næsta ári. Mismunun í skattlagningu eins og hér er ráðgert á ekki að eiga sér stað. Ef slík mismunun á að koma fram verður það að vera í fasteignamatinu, en sami skattstigi ætti að vera á fasteignir, hverju nafni sem þær nefnast. Eins og ég sagði áðan hefur þessi mismunun tíðkast í tekjustofnalögunum, og með því að taka þetta ákvæði upp í lög um tekju- og eignarskatt eykst þessi mismunun enn og gerir atvinnurekstrinum enn erfiðara fyrir. Hér er í raun um enn nýjan fasteignaskatt að ræða.

Þá höfum við einnig til meðferðar frv. til l. um nýbyggingagjald, 139. mál. Það sýnist mér vera eitt allra versta málið af mörgum slæmum sem hæstv. ríkisstj. er nú með á dagskrá. Þetta er angi af fjárfestingarhöftum sem virðast vera óskadraumur stjórnarflokkanna að koma á. Og þótt hér sé í sjálfu sér ekki um stórt mál að ræða eða það gefi ekki ríkissjóði mjög miklar tekjur, 300 millj. kr. á næsta ári, áætlað, þá er hér þó um að ræða eitt afmarkað svið sem ríkisstj. velur sér sem byrjun á fjárfestingarhöftunum. Það virðist sem sagt vera svo, að skattpíning sé eina úrræðið sem hæstv. ríkisstj. hefur til þess að stjórna efnahagsmálunum.

Þetta frv. um nýbyggingagjaldið sýnir alveg sérstaka ósvífni gagnvart sveitarstjórnum í landinu. Þar er ákvæði um það, að sveitarstjórn er óheimilt að gefa út byggingarleyfi fyrir mannvirkjum sem gjaldskyld eru sé gjaldið ekki greitt, og sé þessa ekki gætt er sveitarstjórnin sjálf ábyrg. Það er ekki gengið að sveitarsjóði, heldur er gengið að sveitarstjórninni sjálfri. Það verður fróðlegt að sjá þá á bak við rimlana, nýja meiri hl. í borgarstjórn Reykjavíkur, ef þeim skyldi nú verða það á hjá byggingarfulltrúanum að gefa út byggingarleyfi án þess að sýnd verði kvittun fyrir þessum ósköpum sem hér er um að ræða.

Gert er ráð fyrir samkv. 3. gr. frv. að leggja á 2% gjald af gjaldstofni sem raunverulega er ekki til. Það eru engar framkvæmdir hafnar þegar þetta gjald á að leggja á samkv. áætluðu kostnaðarverði.

2. gr. er sérlega óljós. Þar er að vísu sagt að íbúðarhúsnæði sé undanþegið gjaldskyldu, en síðan kemur heimildarákvæði til ráðh. eins og segir í greininni. „Heimilt er ráðh. að undanþiggja ákveðnar tegundir mannvirkja gjaldskyldu.“ Nauðsynlegt er að fá upplýst hvernig hæstv. ráðh. hyggst notfæra sér þessar heimildir, hvaða eignir það verða sem verða undanþegnar ákvæðum þessara laga. (Gripið fram í: Kirkjur.) Já, kirkjur verða það kannske, en það eru ýmis fleiri mannvirki sem forvitnilegt er að vita hvort lagt verði á, eins og t.d. íþróttamannvirki. Það verður sjálfsagt áhugamál þessarar ríkisstj. að koma í veg fyrir að íþróttamannvirki verði byggð, og þá er náttúrlega upplagt að leggja þetta gjald á þau. En það væri æskilegt að fá einhverja vitneskju um þetta hjá hæstv. ráðh.

Um mál þessi í heild má segja að þau geri margt illt af sér, en þó fyrst og fremst að þau flækja skattakerfið enn meir á sama tíma og menn eru í óðaönn að tala um einföldun skattakerfisins. Það er komið með nýja skatta sem engin fordæmi eru fyrir í íslenskri löggjöf. Þessir nýju skattar valda óvissu í álagningu. Það stýritæki, sem þessi löggjöf á að vera, er tilgangslaust. Þetta er aðeins til þess að gera erfiðara fyrir þar sem nægir erfiðleikar eru. E.t.v. er tilgangurinn sá að gera þetta allt svo flókið að enginn botni neitt í neinu og jafnvel svo að allt skattkerfið hrynji til grunna. Það er e.t.v. ætlunin, og þá verða væntanlega engir skattar lagðir á og Alþfl.-menn geta losnað við að vera með sífellda fyrirvara um samþykki við öllum þessum tekjuöflunarfrv. En það sýnist nú samt svo, að stjórnin ætli fram með alla þessa súpu sína, sem er fremur þunn og bragðvond þótt margt sé sett út í hana.

Það er e.t.v. táknrænt fyrir allan afgreiðslumátann, að meðan fulltrúar Vinnuveitendasambandsins voru á fundi fjh.- og viðskn. í morgun, og voru þar að mótmæla þessum álögum og bera fram sín aðvörunarorð, þá sat ritari n. við að ganga frá bókun þess efnis, að meiri hl. n. mælti með samþykkt frv., auðvitað með hinum sígilda fyrirvara fulltrúa Alþfl., — fyrirvara sem er orðinn að aðhlátursefni félaga þeirra í svokölluðum samstarfsflokkum, — fyrirvara sem þeir gera náttúrlega ekkert með, en eru búnir að læra og færa óafvitandi til bókar.

Þessum frv. má annars líkja við það,— mér dettur það í hug þegar ég sé einn hv. þm. hér í hliðarherbergi, — að ríkisstj. sé í eins konar pólitískum berjamó, eins og sá hv. þm. sagði hér fyrir nokkrum árum, að vísu af allt öðru tilefni, en það átti þó að nokkru við hæstv. núv. fjmrh. En málið er bara það, að farið hefur verið yfir landið áður og allt lesið af lynginu. Samt skal ekki látið staðar numið, heldur lyngið slitið upp líka. Þannig verður ekkert eftir og þessir herrar skilja eftir sig sviðna jörð.