19.12.1978
Neðri deild: 37. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Finnur Torfi Stefánsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. lýsti áðan skrifuðum við fulltrúar Alþfl. undir nál. þetta með þeim skilmála sem ég vil nú lýsa.

Frv. þetta er eitt af tekjuöflunarfrv. ríkisstj. sem flutt eru í tengslum við gerð fjárl. Við Alþfl.-menn höfum áður á Alþ. lýst þeim fyrirvara við endanlega afstöðu okkar til fjárlagagerðar, að hún muni ráðast af viðbrögðum ríkisstj. við frv. okkar um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum og samræmdar aðgerðir gegn verðbólgu og þar með einnig því, hverjar heildarniðurstöður fjárl. verða. Þessi fyrirvari okkar gildir einnig um afstöðu okkar til þessa frv. sem hér er til umr. Þar sem við viljum ekki hindra eðlilega þinglega meðferð málsins munum við greiða atkv. með því við 2. umr., en hins vegar áskiljum við okkur rétt til að greiða atkv. með því eða á móti við 3. umr. með tilvísun til þess sem ég hef áður sagt. Enn fremur væntum við þess, að 3. umr. fari ekki fram fyrr en afstaða ríkisstj. til frv. okkar um jafnvægisstefnu o.fl. liggur fyrir.

Þessi fyrirvari gildir um öll þau tekjuöflunarfrv., sem hér eru til umr., þ.e.a.s. frv. sem er 138. mál, á þskj. 188, um skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, frv. um nýbyggingagjald á þskj. 189, 139. mál, og það frv. sem hér er til umr. um tekjuskatt og eignarskatt, sem er á þskj. 190, og enn fremur frv. um flugvallagjald á þskj. 206. Ég held að ég geti leyft mér að gera grein fyrir þessum fyrirvara við öll málin í einu, svo að ég þurfi ekki að koma miklu oftar í ræðustól að þessu sinni.