19.12.1978
Neðri deild: 37. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1795 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það verður ekki hjá því komist að vekja athygli á því enn á ný í umr. um þetta frv., að samfara stórauknum skattaálagningum af hálfu ríkisvaldsins eru samhliða á ferðinni mjög stórauknar álögur af hálfu sveitarfélaga, eins og fram hefur komið í fyrirætlunum borgarstjórnar Reykjavíkur undir forustu meiri hl. sem er myndaður af sömu stjórnmálaflokkum og standa að núv. hæstv. ríkisstj.

Hv. þm. Ólafur G. Einarsson, frsm. minni hl. fjh.- og viðskn., gerði grein fyrir því, í hverju auknar álögur fælust vegna þessara skattafrv. af hálfu ríkisins. Ég tel að það sé rétt að það komi hér fram, að eingöngu hér í Reykjavík mun hækkun fasteignaskatta og lóðarleigu og aðstöðugjalda hafa í för með sér um það bil 1400 millj. kr. aukningu skatta á atvinnurekstur í borginni, þannig að hér er um milljarða kr. aukna skatta að ræða á atvinnuvegi landsmanna í heild.

Nú er það öllum ljóst, að vandi atvinnuveganna er mikill, og mér er minnisstætt, að bæði á síðasta vetri og á liðnu sumri í stjórnarmyndunarviðræðum var það stefna Alþb. að unnt væri að gera hvort tveggja í senn, að jafna halla atvinnuveganna og greiða niður vöruverð í landinu án þess að breyta gengi íslensku krónunnar, en beita tilfærslu fjármuna í þjóðfélaginu. Alþb. hefur að vísu ráðið ferðinni í þessu stjórnarsamstarfi, eins og öllum hv. þm. og reyndar öllum landsmönnum er kunnugt. En að einu leyti hefur stefnan þó sýnst vera óframkvæmanleg, að því leyti er snýr að afkomu útflutningsatvinnuveganna, vegna þess að þegar á fyrsta starfstímabili ríkisstj. var gengislækkun beitt og síðan hefur æ ofan í æ verið beitt gengissigi í framhaldi af því og fyrirsjáanlegt er annað tveggja: áframhaldandi gengissig eða hrein og bein gengislækkun, allt undir leiðsögu Alþb. og forustu þess, þar sem hæstv. viðskrh. skrifar upp á gengissigið og hæstv. ríkisstj. skrifar upp á gengislækkun.

Það er rétt að leggja áherslu á að stefna Alþb: hefur að þessu leyti ekki reynst framkvæmanleg, vegna þess, eins og þessi skattafrv. sýna, að leitað er allra fanga, mögulegra og ómögulegra, til aukningar á skattálögum á landsmenn og atvinnuvegi þeirra til þess eingöngu að hafa upp í niðurgreiðslur vöruverðs sem þannig eru fölsun á vísitölu og þar með kaupmætti fólksins í landinu. Þessar skattaálögur nægja þó ekki til þessarar útgjaldaaukningar af ríkisvaldsins hálfu né heldur nægja þessar auknu skattaálögur til að standa undir stórauknum útgjöldum ríkissjóðs að öðru leyti undir forustu núv. ríkisstjórnarflokka umfram það sem verðbólguþróun réttlætir.

Það er því full ástæða til að spyrjast fyrir um það, hvernig á því standi, að saman geti farið að skoðun hæstv. ríkisstj. að atvinnufyrirtækin og atvinnuvegirnir í landinu geti ekki borgað kaupgjald það sem fólst í gildandi samningum og kjörorði stjórnarflokkanna tveggja a.m.k. um samningana í gildi, hvers vegna þurft hafi að rifta kaupgjaldsvísitölu t.d. um síðustu mánaðamót með þeirri röksemd, að atvinnuvegirnir stæðu ekki undir hærra kaupgjaldi, sem ég út af fyrir sig er sammála, en aftur á móti gætu atvinnuvegirnir staðið undir svo auknum skattaálögum sem þarna er um að ræða. Það er ekki að ófyrirsynju, að stjórn Vinnuveitendasambands Íslands, en innan þeirra samtaka eru fulltrúar allra atvinnugreina, hefur mótmælt harðlega þessum nýju álögum stjórnvalda á atvinnulífið í landinu og varað við að með þeim sé atvinnuöryggi landsmanna stefnt í bráða hættu.

Ég vil í tengslum við þessi mál, sem hér eru til umr., spyrjast fyrir um það hjá hæstv. félmrh. eða hæstv. fjmrh., — ég sé að hæstv. félmrh. er í salnum, en ekki hæstv. fjmrh. svo að ég beini fsp. minni til hans, — hvernig ætlunin sé af hálfu hæstv. ríkisstj. að standa að lagaheimildum til handa sveitarfélögum í landinu hvað snertir útvarsálagningu. Eins og kunnugt er er heimild sveitarfélaga nú bundin við 10% útsvars með 10% álagi eða 11% í heild og þarf sérstaka heimild félmrn. og ríkisstj. til þess að ellefta prósentið sé nýtt. En heyrst hefur, að ríkisstj. eða hæstv. félmrh. hafi gefið grænt ljós í viðræðum við fulltrúa sveitarfélaga að hækka þessa hlutfallstölu í 12% á komandi sumri, en lagaheimildar til þess ekki aflað fyrr en þessi skattahrina er gengin hjá. Það er full ástæða til að upplýsa þetta atriði nú þegar.

Þá er rétt að spyrjast fyrir um það, með hvaða hætti sveitarfélögum verði bættur sá missir tekjustofns sem minnkandi tekjur í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga hafa í för með sér, þar sem afnám söluskatts af matvörum rýrir tekjur Jöfnunarsjóðs. Skiptir þetta allmiklu máli. Ef séð væri fyrir tekjuöflun til sveitarfélaga að þessu leyti gæti það komið í veg fyrir þá óheillaþróun í öðrum sveitarfélögum sem hafin er hér í Reykjavík með stórauknum álögum á borgarbúa og atvinnurekstur þeirra.

Síðan held ég að að lokum sé rétt að undirstrika það, að þessar stórauknu álögur á atvinnufyrirtækin og atvinnuvegina eru auðvitað til þess fallnar að grafa undan atvinnuöryggi og grafa undan framþróun í atvinnuvegunum, — framleiðniaukningu sem ein getur staðið undir bættum lífskjörum í framtíðinni og hækkandi kaupgjaldi í landinu. En þessar skattaálögur á landsmenn sem heild og einstaklinga eru samhliða til þess fallnar að draga úr framtaki, vinnuvilja og verðmætasköpun manna, en um leið einnig til þess fallnar að örva menn til undandráttar á skattgreiðslum og skapa þannig því miður skilyrði fyrir versnandi siðferði á þessu sviði, þar sem frekar var þörf á endurbótum en að skattakerfið sjálft yrði gróðrarstía spillingar eins og nú horfir við.