19.12.1978
Neðri deild: 37. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

138. mál, skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði

Frsm. minni hl. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Það er kannske ástæða til að þakka hv. þm. Lúðvík Jósepssyni hvað hann fer mildum höndum um okkur stjórnarandstæðinga, að við njótum þess að það sé ekki tími til að ræða hér málin. Mér sýnist við hafa nógan tíma. Við hljótum að hafa tíma a.m.k. þangað til hæstv. ríkisstj. hefur svarað þessum fyrirvörum Alþfl. Það verður ekkert afgreitt hér fyrr en þeim fyrirvörum hefur verið svarað, og meðan þeim er ekki svarað sé ég ekki annað en við getum rabbað saman um þessi mál. Ég er alveg til. En kannske er ekkert að marka þetta allt saman og þessa fyrirvara.

Hv. þm. taldi upp ýmsa skatta sem fyrrv. ríkisstj. hafði fundið upp. Ég spyr nú bara: Af hverju notar núv. ríkisstj. ekki tækifærið til þess að afnema þessi ósköp? Hún gerir það ekki, heldur þvert á móti finnur hún upp nýja. Af hverju ætli hún geri það? Það er vegna þess að hún er nefnilega í brýnni þörf fyrir tekjur í ríkissjóð og þessi þörf er miklu, miklu brýnni en hún hefur nokkru sinni fyrr verið og ástæðan er einfaldlega allar þær millifærslukúnstir sem núv, hæstv. ríkisstj. stendur í. Til þess þarf hún peninga.

Ég skal ekki hafa um þetta miklu fleiri orð. Í sjálfu sér gaf ræða hv. frsm. meiri hl. ekki neitt sérstakt tilefni til þess að ræða þetta sérstaka mál frekar en ég gerði í ræðu minni áðan. Ég ítreka það aðeins, að hér er raunverulega um að ræða nýjan fasteignaskatt og hann á eingöngu að leggjast á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Þetta er til viðbótar öllu öðru sem fyrir er í löggjöfinni. Það er fasteignaskattur til sveitarfélaga sem er eðlilegur tekjustofn þeirra og ríkið á ekki að ásælast fasteignir á nokkurn hátt sem skattandlag. En fyrir utan fasteignaskattinn til sveitarfélaga er eignarskatturinn. Það er eignarskattsaukinn sem verið er að lögfesta núna áfram, það er þessi sérstaki skattur á verslunarhúsnæði og það er nýbyggingagjaldið sem við erum hér einnig með til meðferðar. Annars er álit minni hl. það, að þetta frv. beri að fella.