19.12.1978
Neðri deild: 38. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1813 í B-deild Alþingistíðinda. (1426)

136. mál, Iðntæknistofnun Íslands

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil í sambandi við þær fsp., sem hér hafa komið fram frá hv. þm. Friðrik Sophussyni, geta þess, að það, sem hann spyr um, er til meðferðar í ríkisstj. þessa dagana og hefur raunar verið til undirbúnings þar á undanförnum mánuðum og vikum, en ákvarðanir hafa ekki verið teknar um aðgerðir í sambandi við stuðning við iðnaðinn sem fyrirheit hafa verið gefin um.

Mér þykir ekki vera mikil ástæða til þess fyrir hv. stjórnarandstæðinga að býsnast mikið yfir því, þó að ekki hafi verið gripið til sérstakra aðgerða vegna fyrirhugaðra tollalækkana gagnvart EFTA og EBE, þar sem mér er ekki kunnugt um að þeir hafi, á meðan þeir réðu nokkru um stjórn landsins, haft neinar fyrirætlanir uppi í sambandi við samningsbundin tollaákvæði og þeir hafa ekki sýnt stuðning við þau áform, sem ríkisstj. sýndi lít á í málefnasamningi sínum, að veita iðnaðinum stuðning með því að fresta tollalækkunum sem koma eiga til framkvæmda um áramótin.

Nú er það sem sagt til athugunar, til hvaða ráða skuli gripið, og ég vænti þess, að þau mál skýrist að nokkru á næstu dögum. Þarna er ýmislegt sem kemur til álita, t.d. tekjuöflun til stuðnings við iðnþróunaraðgerðir umfram það fjármagn sem til ráðstöfunar er í því skyni af jöfnunargjaldi sem lögleitt var á síðasta vori.

Ég gerði nokkra grein fyrir þessu máli, að mig minnir, í gær í Ed., og hefur verið getið í fjölmiðlum nokkurra atriða sem þar komu fram.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta á þessum fundi nú, en geri ráð fyrir að þessi mál skýrist alveg á næstu dögum að því er varðar tilteknar aðgerðir, m.a. til fjáröflunar til stuðnings iðnþróunaraðgerðum. Fleiri mál eru á dagskrá sem snertir þetta og taka lengri tíma og eru til meðferðar m.a. í mínu rn., og ég vænti að þar þoki einnig nokkuð áfram á næstunni.