20.12.1978
Sameinað þing: 39. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1818 í B-deild Alþingistíðinda. (1435)

18. mál, gjald á veiðileyfi útlendinga sem veiða í íslenskum ám

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins í örstuttu máli gera nánari grein fyrir afstöðu minni til þessa máls.

Það mátti e.t.v. misskilja aðeins ummæli hv. frsm. Það er rétt sem kom fram hjá hv. frsm., að ég er mjög hlynntur því markmiði þessara tillögu að auka rannsóknir á fiskeldi og fiskrækt. Ég tel að við höfum vanrækt það, ekki sinnt því eins og skyldi. Mér sýnist í því sambandi einnig mjög æskilegt að efla Fiskræktarsjóð með öðrum tekjum en framlagi t.d. á fjárl. Að vísu hefur Fiskræktarsjóður nokkrar tekjur, m.a. frá rafveitum, en ég tel að við þær þurfi tvímælalaust að bæta. Mér hefur því sýnst vel koma til greina að veiðimenn greiði fyrir veiðileyfi, eins og víða tíðkast, eitthvert gjald, bæði innlendir og erlendir, og þá tel ég eðlilegt, eins og t.d. er í Bandaríkjunum og Noregi, að erlendir veiðimenn greiði eitthvað hærra gjald. Hins vegar spurðist ég einnig fyrir um það, hvað flm. væru með háar upphæðir í huga, og ég vil láta það koma fram, að stuðningur minn við þetta mál fer mjög eftir því.

Ég get getið þess, að við hv. þm. Stefán Jónsson fluttum, eins og reyndar hefur komið fram áður, till. í Ed. fyrir nokkrum árum svipaðs eðlis, um aukna rannsóknarstarfsemi á þessu sviði fyrst og fremst, og gerðum ráð fyrir tekjum af slíkum leyfum. Við vorum þá með í huga, ef ég man rétt, eitthvað í kringum 1000 kr. af innlendum veiðimanni og 5000 kr. af erlendum, og hygg ég að það sé hlutfall sem sé nokkuð algengt víða um heim þar sem þessi tekjustofn er notaður í þessu skyni.

Þetta vildi ég aðeins að kæmi fram.