20.12.1978
Sameinað þing: 39. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1820 í B-deild Alþingistíðinda. (1437)

18. mál, gjald á veiðileyfi útlendinga sem veiða í íslenskum ám

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég gerði ítarlega grein fyrir skoðun minni á þessu máli þegar það kom hér fyrst á dagskrá og þarf ekki að hafa mjög mörg orð um það nú. En vegna þeirra ummæla, sem hv. flm. hafði um að málið hefði verið tafið, þá held ég að við vitum það báðir að þessar tafir eru allar saman eðlilegar og þær skipta ekki miklu máli um framgang málsins. Það skiptir ekki öllu hvort málið kemst til n. hálfum mánuði fyrr eða síðar, en vönduð meðferð málsins skiptir máli og ég mundi í hans sporum vera mjög ánægður að fá svo miklar umr. um mál sem ég flytti. Okkur hefur þótt það yfirleitt eftirsóknarvert, að einhverjir taki eftir því sem við höfum verið að brasa við, jafnvel þó að allir væru ekki hjartanlega sammála. En ég vil biðja menn í öllum bænum að varðveita jafnvægi sitt og vera sem allra glaðastir.

Hv. þm. fór um það nokkuð snörpum orðum, — ekki veit ég hvort einhverjar duldar meiningar voru þar að baki, — að málflutningur okkar, sem höfum ekki verið alveg sammála honum í þessu máli, stafaði af því, að þarna væru peningalegir hagsmunir í veði og kannske peningalegir hagsmunir okkar sjálfra. Ég get upplýst hv. þm. um það, að peningalegir hagsmunir mínir af veiðirétti eru þeir, að ég fékk nú um daginn ávísun upp á 22 þús. kr. fyrir veiðirétt minn sem er leigður. Ég er ekki stór aðill að veiðirétti og þetta skiptir ekki mjög miklu máli fyrir mig. En þegar nokkuð margir eru með um upphæðirnar skipta þær máli. Ég á hér í fórum mínum nokkuð sem heitir veiðivatnaskrá árið 1977. Hún er gefin út af veiðimálastjóra eða tekin saman á vegum hans, og þetta er skrá yfir fjölda veiðifélaga og jarðafjölda í þeim. Ég man ekki hvort það hefur komið fram í þessum umr., en ég bið afsökunar ef ég er að endurtaka það, en jarðirnar, sem aðild eiga að veiðifélögum, eru samtals 3 993, svo að menn sjá að þetta skiptir töluverðu máli. Það eru að vísu ekki stórir hlutir allra fremur en minn, en þetta eru þó hagsmunir sem sjálfsagt er að gefa gaum að, og m.a. í þeirri trú hef ég staðið á fætur til að tala í þessu máli.

Hv. þm., bæði Stefán Jónsson og Árni Gunnarsson, hafa verið með fullyrðingar um það, að þessi nær þriðjungur af veiðileyfum, sem ekki selst á Íslandi á hverju sumri, sé í vatnslitlu, vatnslausum eða laxlausum ám. Þetta vil ég bera til baka. Þetta er kannske ekki í allra bestu ánum eða á allra besta tímanum, í góðum ám og á góðum tíma, en þau eru þá verðlögð eftir því. Sumir tala mikið um yndi sitt af að ganga með stöng úti í blessaðri náttúrunni og að veiðin sé kannske ekkert atriði, en það er nú eins og það skipti samt einhverju máli. Raunar harma ég það, ef þeir hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum, hv. þm., þar sem þeir hafa farið til laxveiða, ef þeir hafa hitt fyrir árnar þurrar eða gjörsamlega laxlausar eða þá að þeir hafa verið fiskifælur. En þeir verða að taka það sem hverja aðra óheppni og mega ekki mikla það fyrir sér. Það má helst ekki segja frá því, höfundur Hávamála hefði ekki gert það, því hann sagði: „Sjaldan hittir leiður í lið.“ Ég vona að veiðilukkan snúist með þeim, enda veit ég að þeir hafa iðulega verið heppnir.

Hv. flm. vildi meina að þetta gjald kæmi ekki á bændur. Ég fullyrði hins vegar að þetta gjald hlýtur að koma á bændur, því að ef rýmkast um Íslendingana á markaðnum, útlendingarnir hyrfu, þá gerist annað af tvennu, að menn kaupa ekki öll þau veiðileyfi sem þeir hafa keypt eða þá að verð fellur á veiðileyfum, sem ég tel miklu sennilegra. Mér finnst að þetta sé ákaflega einfalt atriði, að framboð helst í hendur við eftirspurn og gjaldtöku, þannig að ég get ómögulega fengið mig til þess að skilja annað en að veiðileyfin lækki í verði.

Hv, þm. taldi ósmekklega hótun mína um að bændur færu að veiða meira í net. Það má vel vera að hún sé ósmekkleg. En ef bændur geta ekki selt laxinn á því verði sem hann leggur sig, sem reyndar munar ekki miklu stundum og í sumum ám, þá er sjálfsagt að taka þessi landsgæði og hagnýta þau til manneldis með netaveiði.

Hv. þm. Árni Gunnarsson vildi meina að hann væri ekki að taka eignarrétt af bændum með því að flytja þetta mál. En það eru ekki allir flm. á sama máli um það. Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson sagði í ræðu sinni: „Ég hef verið þeirrar skoðunar, að réttur bænda til þess að taka tek jur af þessum hlunnindum sé óraunhæfur, þó að hann sé til í lögum og verndaður þar. Mér þætti eðlilegra að það skipulag og sú skipan, sem ríkir í þessum málum í Bandaríkjunum, tæki einnig gildi hér, þannig að laxveiðiárnar verði sameign okkar Íslendinga sem lúti einni yfirstjórn bæði hvað varðar nýtingu og einnig hvað varðar uppbyggingu.“

Þeir eru ekki sammála, flm. málsins. Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson er einn af flm., og þeir líta ekki nákvæmlega sömu augum á þetta atriði. Ég held að það sé alls ekki til fyrirmyndar um laxveiði að leita til Bandaríkjamanna því þeir hafa farið illa með sínar ár, a.m.k. margar hverjar, og þetta hefur gefist illa. Mér skilst að þar sé laxveiði í mikilli niðurlægingu og ekki nema svipur hjá sjón hjá því sem hún var. En hér er aftur allt á uppleið og þess vegna held ég að skipulag okkar sé betra.

Miðfjarðará tók ég sem fyrirmynd og nefndi ekki sem neina undantekningu. Mér er þessi á vel kunn og ég tel að það fyrirkomulag, sem þar er haft á veiðileyfum útlendinga, sé mjög til fyrirmyndar, þar sem Miðfirðingar selja veiðileyfin beint í útlöndum og milliliðir eru engir og gjaldeyrisskil einföld og engin hætta á að þetta verði leppað eða þarna komist óæskilegir milliliðir inn.

Hv. þm. Stefán Jónsson, er ekki hér í salnum og sakna ég hans mjög, því ég átti ýmislegt vantalað við hann. Hann flutti góða ræðu — og þó reyndar slæma — hér í umr. Ég held ég verði alveg að sleppa því að deila á hann í bili, úr því að hann er ekki í salnum.

Hv. flm. nefndi áðan að bændastéttin hefði verið lánlaus að sinna ekki fiskrækt. Mér finnst að þetta séu ekki réttileg ummæli, vegna þess að íslensk bændastétt hefur ræktað upp fjölda laxveiðiáa. Þetta er gert á félagslegum grundvelli — ekki sem einstaklingsframtak, heldur á félagslegum grundvelli, og þar hefur verið unnið mikið og gott starf, eins hefur verið undirstrikað áður. Venjulega hafa það verið bændur, sem hafa ræktað upp, en ekki veiðimennirnir. Veiðimennirnir hafa stundum borgað hluta af leigunni með seiðum eða lagt fé beint til fiskræktar, en þeir hafa þá borgað bændum þeim mun minna fyrir veiðileyfin.

Ég held að það séu þrjú atriði sem endilega þarf að hafa í huga við skipulagningu þessa máls og úrbætur á þessu máli. Ég er hjartanlega sammála flm. um það eða flutningsmönnum, að það þarf að koma bættri skipan á þessi mál og þess vegna sé ég ekkert athugavert við það að hreyfa þessu máli, og ég fagna þeim hugmyndum landbrh. að hafa málið í athugun. Það þarf að gæta betur en nú er umhverfisverndar. Það þarf að sjá til þess, að fisksjúkdómar berist ekki með erlendum veiðimönnum eða búnaði þeirra. Það þarf alltaf að ganga þannig frá, að landsréttindi Íslendinga yfir íslenskum ám og veiðivötnum séu í höndum Íslendinga sjálfra. Ég held að bein veiðileyfasala, sala einstakra veiðileyfa á erlendum markaði, eigi fullkominn rétt á sér, ef hún er rekinn á félagslegum grundvelli. En ég er heldur á móti því, að menn séu að taka ár á leigu, einstaklingar eða samtök stangveiðimanna, til þess að framleigja útlendingum eða leppa með einhverjum hætti fyrir þá. Jafnframt þarf auðvitað að fylgjast stranglega með gjaldeyrisskilum, að þau séu í besta lagi.

Hv. þm. Pálmi Jónsson hneykslaðist mjög á því, að þetta mál skuli vera hér til umr. þegar ekkí er annað að gera hér á hv. Alþ. Það kann að vera að honum komi þetta nokkuð nýstárlega fyrir sjónir, og það er sjálfsagt rétt hjá honum, að undanfarin þing hefur tíminn í kringum 20. des. verið notaður til annars en þessa. En því var skotið að mér í morgun, að hv. þm. Alþfl. hefðu lofað talsvert mörgu fyrir kosningarnar og þeir hefðu meira að segja ekki haft á því fyrirvara. Eitt af því, sem þeir lofuðu þjóðinni hvað ákafast að gera, var að koma nýrri skipan og nýjum starfsháttum á Alþingi. Kannske hafa þeir efnt það kosningaloforð með þeim starfsháttum sem hér eru viðhafðir og ekki við aðra að sakast en þá?