24.10.1978
Sameinað þing: 8. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

2. mál, samningar við Norðmenn um réttindi landanna á Íslandshafi

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þrjár till., sem nú eru á dagskrá, eru fluttar af 5. þm. Norðurl. v. ásamt nokkrum öðrum sjálfstæðismönnum, í fyrsta lagi um samninga við Norðmenn um réttindi landanna á Íslandshafi, í öðru lagi um landgrunnsmörk Íslands til suðurs og í þriðja lagi um rannsókn landgrunns Íslands.

Hæstv. utanrrh. gerði þessar till. og hafréttarmál nokkuð að umræðuefni áðan og vitnaði þá m.a. í reglugerðina um útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur, sem gefin var út 15. júlí 1975. Varðandi útfærsluna á milli Íslands og Jan Mayen er það auðvitað rétt sem utanrrh. tók fram, að í reglugerðinni var gert ráð fyrir að miðlína á milli Íslands og Jan Mayen gilti fyrst um sinn, þó að Ísland afsalaði sér á engan hátt þeim óskoraða rétti sínum að eiga rétt til útfærslu í 200 mílur. Þetta var á sínum tíma gert vegna þess fyrst og fremst, að hafréttarsáttmáli var þá mjög í deiglunni og mikil óvissa um afdrif hans. Ætla ég ekki að fjölyrða um það hér, því að það yrði of langt mál. Enn fremur vorum við að berjast við stórar og öflugar þjóðir, sem þá voru ekki búnar að taka sömu ákvarðanir og við tókum þá og börðumst þá mjög gegn þessum aðgerðum. Á ég þá vitaskuld fyrst og fremst við Breta og Vestur-Þjóðverja og í raun og veru við fleiri þjóðir, sem ég ætla ekki að gera hér að umræðuefni.

Þá var ekki talið hyggilegt að láta 200 mílurnar koma til framkvæmda hvað snertir svæðið á milli Íslands og Jan Mayen, vegna þess að það hefði getað skapað erfiðleika á nauðsynlegri sambúð og vináttu milli Íslands og Noregs. En síðan er langur tími liðinn og almenn stefna er tekin upp um 200 sjómílna fiskveiðilögsögu. Því er eðlilegt að við Íslendingar höldum því fram og það í fullri alvöru, að við eigum þann rétt sem hæstv. utanrrh. minnti. Í drögunum að nýjum hafréttarsáttmála er talað um kletta eða óbyggðar eyjar, og túlkun okkar Íslendinga á þessu atriði er sú, að þegar átt er við rétt strandríkis til útfærslu og nýtingar fiskveiðilögsögu, þá er auðvitað fyrst og fremst átt við rétt þjóða sem hafa fiskveiðar, fiskvinnslu og fisksölu að atvinnu að einhverju marki, en ekki miðað við rétt þeirra sem á engan hátt þurfa á því að halda að nýta fiskimið umhverfis þessar eyjar. Í þessu tilfelli er Jan Mayen óbyggð eyja hvað snertir nýtingu fiskveiðilögsögunnar, því að þar er ekki um að ræða samfélag sem byggir á nokkurn hátt afkomu sína eða tilveru á fiskveiðum. Þess vegna er hvað þetta snertir mjög svipað farið og með klettinn Rockall, sem við nefnum Rokkinn í till. okkar, — við viljum ekki minna allt of mikið á hið enska nafn, eins og eðlilegt er.

Ég met mikils, eins og hæstv. utanrrh. tók fram, að Bretar viðurkenndu með Oslóarsamningnum fiskveiðilögsögu okkar samkv. reglugerðinni sem gefin var út 15. júlí 1975. Því verður ekki á nokkurn hátt breytt. Við höldum því auðvitað til streitu og um það eiga ekki að verða neitt skiptar skoðanir meðal íslensku þjóðarinnar. Hitt er svo annað mál, sem við með þessari till. viljum halda til streitu og leggja áherslu á, að við teljum að Bretar hafi ekki með löglegum hætti innlimað þennan óbyggða klett í breska heimsveldið. Það má segja að þeir hafi kannske líka með ólöglegum hætti á sínum tíma innlimað margt sem var verðmeira en þessi klettur. En hér er um að ræða mál sem snertir bæði okkur og nágranna okkar, sem við berum líka fyrir brjósti og viljum góða samvinnu við. Ég tel að það sé mikið atriði að mótmæla slíkri eignaraðild Breta á þessum kletti, og það er ekkert afturhvarf frá því sem við höfum áður markað stefnu um. Útfærsla okkar frá 1975 er ótvíræð, þar sem við tökum á engan hátt tillit til þessa margumrædda kletts.

Það, sem gerir það að verkum að við þurfum sannarlega að hraða samningum okkar við Norðmenn, taka þegar upp samninga við Norðmenn um fiskveiðiréttindi og hagnýtingu auðæfa landgrunnsins utan 200 mílna efnahagslögsögu Íslands í Norðurhöfum umhverfis Jan Mayen, eru loðnuveiðarnar sem voru allmiklar þar á s.l. sumri og talið að sé sami stofninn og við erum að veiða. Er jafnvel kominn upp sá ótti, að þessar veiðar Íslendinga einna gangi of nærri loðnustofninum, hvað þá ef veiðar á sama stofni verða stundaðar af Norðmönnum á þessu svæði. Ég fyrir mitt leyti tel að burt séð frá þeim skilningi, sem við leggjum í reglugerðina varðandi útfærslu í áttina til Jan Mayen í 200 mílur, þá eigum við að taka þessa samninga upp.

Þetta er eitt af því sem ég hef á undanförnum árum leyft mér að halda fram, að ég tel mikla nauðsyn bera til þess, að jafnhliða því að við höfum fært fiskveiðilögsögu okkar út í 200 sjómílur og ákveðið að nýta hana sjálfir, losna við útlendinga af fiskimiðum okkar, þá beri okkur að vinna að því í vaxandi mæli að gera fiskverndarsamninga við aðrar þjóðir. Ég hélt því fram, þegar efnahagsbandalagsríkin óskuðu eftir fiskveiðiheimildum innan íslenskrar fiskveiðilögsögu fyrir u.þ.b. tveimur árum, að það kæmi ekki til greina að þeir fengju fiskveiðiréttindi innan okkar 200 mílna. En ég taldi brýna nauðsyn vera á því að gera drög að fiskveiðasamningi við Efnahagsbandalagið til þess að koma þar á samvinnu og samkomulagi um skynsamlega hagnýtingu þeirra fiskstofna sem við Íslendingar nýtum annars vegar og hins vegar Grænlendingar og þeir sem Efnahagsbandalagið veitir réttindi til veiða innan fiskveiðilögsögu Grænlands, sem það fer með umboð fyrir. Ég taldi nauðsynlegt að gera sérsamninga. Fulltrúar Efnahagsbandalagsins tóku þessi drög með sér til frekari umræðu og athugunar, en sýndu engan áhuga á að gera slíka fiskverndarsamninga. En þeir hurfu frá beiðnum sínum um fiskveiðisamninga innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og við vorum lausir við þann ágang. Þrátt fyrir að bandalagið teldi ekki þá ástæðu til að ganga til slíkrar samningsgerðar, þá er því ekki að neita, að bandalagið tók upp að mörgu leyti mjög skynsamlega fiskveiðistefnu, en það var orðið hræðilegt hvernig gengið var að fiskimiðum við Grænland. Þar hefur nú verið tekin upp allt önnur stefna í seinni tíð, þannig að fiskstofnar margir hverjir eiga ekki lengur að vera þar í hættu.

Við eigum margt sameiginlegt með öðrum þjóðum en Norðmönnum hvað snertir loðnuveiðamar. Við höfum líka sameiginlegra hagsmuna að gæta með Efnahagsbandalaginu varðandi loðnustofninn, sem auðvitað getur einnig verið handan miðlínu Grænlands. Alveg eins og hann er okkar megin miðlínu nú og hefur verið, þá kom það fyrir í fyrrasumar um nokkurn tíma að loðna var handan miðlínu Íslands og Grænlands. Við eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta hvað snertir auðug karfamið, hvað snertir einnig rækjumið á Dornbanka, að ég tali ekki um mjög auðug mið þar sem eru kolmunnamiðin á Dornbanka og einnig austur aflandinu. Við höfum tekið upp samninga við Færeyinga hvað það snertir, og við eigum auðvitað að vinna að því að taka upp fiskverndarsamninga í ríkari mæli til þess að eiga ekki á hættu að nýting verði óeðlilega mikil hjá þessum þjóðum. Við skulum segja að farið verði að veiða úthafsrækjuna, sem við erum komnir nokkuð langt á veg með að gera að atvinnugrein. Ef það verður farið að veiða hana á Dornbanka af öðrum þjóðum, þá getur svo farið að þessi mið verði eyðilögð fyrir okkur Íslendingum. Sama má segja um kolmunnann, ef það koma stór og afkastamikil verksmiðjuskip sem vinna kolmunnann á þessu svæði, moka honum upp út af landinu í stórum stíl. Það tryggir auðvitað markað fyrir þessar afurðir allar, bæði mjöl og lýsi, að gera slíka fiskverndarsamninga, og þess vegna eru þeir ekki síður nauðsynlegir fyrir okkur en fyrir aðrar þjóðir.

Þessar þrjár till. eru að mínum dómi nauðsynlegar til að árétta stefnu Íslands í þessum málum. Í fyrsta lagi er aðeins um samningaumleitanir við Norðmenn að ræða um fiskveiðiréttindi og hagnýtingu auðæfa landgrunnsins og svo aftur eins og ég gat um áðan, enn á ný að árétta það, sem við höfum áður haldið fram, mótmæla öllum tilraunum Breta til að reyna að slá eignarhaldi sínu á klettinn Rokk. Þriðja till. fjallar um að fela ríkisstj. að ráða nú þegar íslenska og erlenda sérfræðinga til að afla sem ítarlegastra upplýsinga um landgrunn Íslands og afstöðu til landgrunns nálægra ríkja. Þetta er auðvitað sá þáttur að drögum hafréttarsáttmála þar sem við stöndum einna lakast að vígi, vegna þess að við höfum ekki staðið okkur eins vel á þessu sviði og nauðsynlegt er. Þarna hafa orðið ýmsar sveiflur. Þó að þær hafi nú ekki orðið miklar á sjálfri hafréttarráðstefnunni, eru þessar sveiflur með þeim hætti, að nauðsynlegt er fyrir okkur að afla okkur vitneskju allra hæfustu sérfræðinga íslenskra og erlendra þegar sérfræði íslenskra sérfræðinga er ekki nógu ítarleg. Þess vegna tel ég einnig nauðsynlegt að árétta það með sérstakri samþykkt Alþingis.

Ég tek undir orð 1. flm. þessara mála, Eyjólfs Konráðs Jónssonar, að í þessu máli er æskilegt og nauðsynlegt að Alþ. og þingflokkarnir geti allir komið sér saman um það. Þó að við deilum um margt eigum við ekki að þurfa að deila um aðgerðir okkar í hafréttarmálum, sem eru undirstaða þess að við getum lifað hér sjálfstæðu lífi um alla framtíð.