20.12.1978
Efri deild: 42. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1827 í B-deild Alþingistíðinda. (1452)

107. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Á fundi sínum í dag hafði félmn. d, til meðferðar frv. til l. um breyt. á l. nr. 8 22. mars 1972, um tekjustofna sveitarfélaga. Í aths. við frv. er tekið fram, að lagabreyting þessi sé gerð vegna þess ákvæðis í 13. gr. laga nr. 60 31. mars 1976, um skipulag ferðamála, að Ferðaskrifstofa ríkisins skuli greiða landsútsvar. Eins og allir hv. alþm. vita er landsútsvar vaxandi þáttur í tekjustofnum sveitarfélaga. Ég hef hér fyrir framan mig upplýsingar um álagningu landsútsvars 1978 sem er 980.4 millj. kr. Þetta landsútsvar skiptist þannig að Áburðarverksmiðja ríkisins greiðir 38.7 millj., ÁTVR 412.9 millj., Landssmiðjan 1.6 millj., Sementsverksmiðja ríkisins 44.5 millj., Síldarverksmiðjur ríkisins 63.9 millj., Sölunefnd varnarliðseigna 5.1 millj., Olíufélagið hf. 155.3 millj., Olíuverslun Íslands hf. 92.8 millj., og Skeljungur hf. 107 millj. kr., samtals 922.1 millj., og ríkisbankarnir greiða til samans 58.3 millj. Þetta er talsvert mikil hækkun frá árinu 1977, en þá voru heildarlandsútsvör 672.9, og mesta breytingin milli ára er frá Síldarverksmiðjum ríkisins sem greiddu á árinu 1977 1.7 millj., en greiða nú 63.9 millj.

Nefndin ræddi þetta frv. og taldi ekki ástæðu til þess að senda það til umsagnar þar sem að málið væri einfalt og ljóst og eðlilegt að Ferðaskrifstofa ríkisins greiddi landsútsvar. Var n. sammála um það að mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt.