20.12.1978
Neðri deild: 39. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. um verðjöfnunargjald af raforku, sem felur í sér að framlengja verðjöfnunargjaldið um eitt ár og hækka það um leið úr 13 upp í 19%, var í gær til umr. í iðnn. Nd. Nm. urðu ekki sammála um afgreiðslu málsins, en meiri hl. n., þeir Jósef H. Þorgeirsson, Eðvarð Sigurðsson og Gunnlaugur Stefánsson auk mín, hefur þá afstöðu, eins og kemur fram í nál. á þskj. 251, að fallast á að framlengja gjaldið óbreytt næsta ár, þ.e.a.s. það sé 13% eins og verið hefur nokkur ár að undanförnu, en eru andvígir því að hækka gjaldið og flytja því till. á sama þskj. um að í staðinn fyrir 19% komi 13%.

Hér hefur verið rætt svo ítarlega við 1. umr. um vandamál Rafmagnsveitna ríkisins að ég þarf ekki að fara út í þau vandamál hér. Ég vil aðeins undirstrika það sem fram hefur komið bæði í umr. og gögnum málsins, að þessi leið, sem hér er farið fram á að samþ. verði, hækkun verðjöfnunargjalds, er ekki gerð að tillögu stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins.

Það er auðvitað öllum ljóst, að fjárhagsvandamál Rafmagnsveitnanna stafa fyrst og fremst af því, að um fjölda ára eða jafnvel áratugi, er hægt að segja, hefur ríkissjóður vanrækt að gera það sem nauðsynlegt var í sambandi við starfsemi þessa fyrirtækis, að leggja fram árlega sem óafturkræft framlag nokkurt fé til þessarar stofnunar, vegna þess að annars vegar hefur hún orðið að taka að sér margvísleg verkefni, virkjanir og rekstur þeirra, sem vonlítið var um að gætu borið sig, og um leið hafa henni verið falin margvísleg félagsleg verkefni sem að sjálfsögðu verða ekki framkvæmd nema með beinum fjárframlögum úr ríkissjóði. Um þetta er ekki hægt að saka einn eða annan. Þetta hefur gengið þannig til um áratugi og nú verður að staldra við og breyta um stefnu.

Það hefur verið kannað rækilega á þessu ári, hversu hátt ætti að meta hinn félagslega þátt í starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins. Liggja fyrir ákveðnar tillögur um það eftir könnun kunnáttumanna, og stjórn Rafmagnsveitna ríkisins hefur gert sínar tillögur í því efni. Vitanlega verður ríkissjóður að standa straum af því sem telst vera kostnaður við hinn félagslega þátt málsins. Varðandi þá fjármagnsbyrði, sem á fyrirtækinu hvílir, hefur stjórn Rafmagnsveitnanna lagt til að ríkissjóður axli þá byrði. Það þarf auðvitað ekki að vera með mjög stórum fjárframlögum nú þegar, en það getur orðið sumpart með þeim hætti að breyta lánum, fá lán til lengri tíma og afborgunarlægri hin fyrstu ár en þau að mörgu leyti óhagstæðu lán ýmis sem á rafmagnsveitunum hvíla. Hinn mikli fjármagnskostnaður, sem Rafmagnsveiturnar verða nú að standa undir, verður að einhverju leyti að færast yfir á herðar ríkissjóðs.

Það liggur því fyrir, að stjórn Rafmagnsveitnanna telur annars vegar gjaldskrá Rafmagnsveitnanna orðna svo háa að hún geti ekki mælt með hækkun hennar og hún hefur ekki gert heldur tillögur um hækkun verðjöfnunargjaldsins. Ég vil taka það fram, að snemma á þessu ári, þegar einu sinni sem oftar var glímt við fjárhagsvandamál RARIK, lagði þriggja manna nefnd, sem í voru þáv. formaður stjórnar RARIK, Helgi Bergs bankastjóri, og tveir embættismenn, fram tillögur í þessu efni eða hugmyndir, og ein þeirra hugmynda var sú að hækka verðjöfnunargjaldið um svipaða upphæð og hér er gert ráð fyrir. En því var alfarið hafnað af fyrrv. ríkisstj. að leggja það til.

Það er enn óbreytt skoðun mín, að ekki sé rétt né fært að hækka verðjöfnunargjaldið frá því sem það hefur verið. Hins vegar verður um sinn að styðjast við það eins og verið hefur og þess vegna styð ég þá till. að framlengja það óbreytt, en tel ekki mögulegt að hækka það.

Í sambandi við þær röksemdir, sem heyrst hafa og stafa að sumu leyti af misskilningi á þessu gjaldi vegna heitis þess, verðjöfnunargjald, er ljóst að þessi hækkun verðjöfnunargjaldsins bitnar harðast á þeim sem búa við hæst raforkuverð fyrir, því að þeir, sem borga tvöfalt hærra raforkuverð nú en aðrir, verða að borga tvöfalt hærri krónutölu líka við þessa hækkun raforkuverðsins vegna þess að þetta er hlutfalls- eða prósentugjald, en ekki ákveðin krónutala.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en aðeins undirstrika það, að meiri hl. iðnn. leggur til að gjaldið verði framlengt fyrir næsta ár eins og það er nú, 13%, en leggur til að hafnað sé að hækka það upp í 19%.