20.12.1978
Neðri deild: 39. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Frsm. minni hl. (Kjartan Ólafsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá minni hl. iðnn. um það mál sem hér er á dagskrá, en að þessu minnihlutaáliti standa auk mín tveir aðrir nm., hv. 1. þm. Norðurl. e., Ingvar Gíslason, og hv. 11. landsk. þm., Árni Gunnarsson, sem hefur þó fyrirvara varðandi stuðning sinn, eins og fram kemur í hinu prentaða nál. Við í minni hl. iðnn. leggjum til að frv. um verðjöfnunargjald af raforku verði samþykkt.

Hér er um að ræða till. um að verðjöfnunargjaldið verði hækkað úr 13% í 19%. Tilgangurinn með þessu frv. er að sjálfsögðu 1) að fyrirbyggja að sá gífurlegi mismunur á raforkuverði, sem nú er, fari enn vaxandi og 2) að stuðla að því, að úr þessum mikla mismun verði dregið. Það er auðvitað öllum hv. þdm. ljóst að eins og þessi mál standa nú er munurinn á raforkuverðinu, miðað við þá notkun sem öllum almenningi er skýr, heimilistaxtann svokallaða, hvorki meira né minna en yfir 100%, ef miðað er við annars vegar þær rafveitur, sem lægsta taxta hafa, og hins vegar þær, sem hæsta taxta hafa. Í fskj. með frv. sjálfu kemur fram að sú rafveita, sem selur rafmagn til heimilisnota á lægstu verði, Rafveita Akraness, hefur selt kwst. á 17.05 kr. í októbermánuði s.l., Rafmagnsveita Reykjavíkur á aðeins hærra verði, eða 19.82 kr., en þeir aðilar, sem ætlað er að njóta verðjöfnunargjaldsins, þ.e.a.s. Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða, hafa selt kwst. til heimilisnota á sama tíma: Orkubú Vestfjarða á 34.20 kr. og Rafmagnsveitur ríkisins á 37.25 kr. Það er sem sagt um meira en helmingi hærra verð að ræða á kwst. til heimilisnota hjá Rafmagnsveitum ríkisins en hjá þeirri rafveitu sem lægst hefur verðið. Þessi mismunur er auðvitað með þeim hætti að gjörsamlega verður að teljast óviðunandi. Það hlýtur að vera alvarlegt réttlætismál að úr honum verði verulega dregið. Frv. um verðjöfnunargjald er aðeins lítið skref í þá átt.

Í fskj. með frv. ekki aðeins birt skrá yfir verð á rafmagnssölu til heimilisnota, heldur einnig hinn svokallaði vélataxti og sýnir sá taxti eða sú tafla, sem um hann er birt, mjög svipaða niðurstöðu, að þar er einnig um meira en helmingsmismun að ræða á verði raforkunnar eftir byggðarlögum í landinu.

Talað hefur verið um það í þessum umr., þ.e.a.s. við 1. umr. málsins, að þær upplýsingar, sem fram koma í fskj. með frv. hvað verð orkunnar snertir, gefi ekki fyllilega rétta mynd, og því verið haldið fram, að hér bæri einnig að líta á aðra taxta, þ.e.a.s. verð á raforku til húsahitunar og hinn svokallaða marktaxta, sem fyrst og fremst nær yfir raforkunotkun á sveitabýlum. Um þessi atriði vil ég taka það fram og biðja menn að muna það vel, að raforka til húsahitunar er seld nú hjá Rafmagnsveitum ríkisins á sambærilegu verði við olíu til húsahitunar, þ.e.a.s. miðað er við verð á olíu til húsahitunar. Ég hygg að það sé vart finnanlegur sá þm. hér á hinu háa Alþingi sem gæti látið sér detta í hug að skynsamlegt væri að styrkja fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins með því að ætla að selja raforku til húsahitunar á enn þá hærra verði en það kostar að kynda híbýli manna með olíu, því þá færi skörin að færast upp í bekkinn. Ærinn er munurinn fyrir á annars vegar þeim kostnaði, sem er við að kynda hús með heitu vatni t.d. hér í höfuðborginni, og því, sem fólk þarf að borga fyrir olíukyndingu eða rafhitun híbýla sinna víða úti um landið.

Um marktaxtann, sem hér hefur verið allmikið rætt um, vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að kynna hvað rafmagnsveitustjóri ríkisins hefur að segja í bréfi frá 17. þ. m., sem hann hefur sent öllum hv. alþm, vegna umr. um þetta frv. Hann segir á þessa leið:

„Um hinn stórgallaða „marktaxta“ skal eftirfarandi tekið fram:

Taxtinn er byggður upp á þann hátt að hægt sé að sameina alla almenna notkun á sveitabýli um einn orkumæli, þ.e. raforku til heimilisnota, súgþurrkunar og hitunar. Sambærilegur taxti er eðli málsins samkv. ekki til hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Við ítrekaða athugun á samsetningu notkunar hans kemur í ljós, að sé reiknað með heimilisnotkun á heimilistaxta, súgþurrkun á súgþurrkunartaxta og afgangurinn af notkuninni fari til húsahitunar, þá er verðið til hitunar ca. 7–8% lægra en á almennum hitunartaxta. Hagkvæmni Rafmagnsveitnanna við að selja samkv. marktaxtanum er hins vegar margföld.“ Ég bið menn að taka eftir þessum orðum Kristjáns Jónssonar rafmagnsveitustjóra. Hann segir: „Hagkvæmni Rafmagnsveitnanna við að selja samkv. marktaxtanum er hins vegar margföld miðað við þennan mismun vegna hagkvæmari nýtingartíma og þar af leiðandi hagstæðari innkaupa á raforkunni í heildsölu, betri nýtingar dreifikerfa í sveitum, fækkunar orkumæla hjá notanda, einfaldara kerfis hjá notanda o.fl.“

Ég hef ekki heyrt neinar röksemdir, hvorki hér í þessari hv. d. við 1. umr. né annars staðar, sem nálgast að sýna fram á að í bréfi rafmagnsveitustjóra sé hallað svo réttu máli að einhverjar líkur séu á því, að hægt væri að draga úr þeim mikla mun, sem nú er á raforkusölu til heimilisnotkunar eftir byggðarlögum, með því að breyta þessum marktaxta til hækkunar. Það virðist ekki vera opin leið, og fyrir því hafa engin rök komið fram. Það er vert að vekja athygli á því, að í þeirri umsögn, sem Samband ísl. rafveitna sendi frá sér 15. þ. m. og öllum hv. alþm. hefur borist, er lögð áhersla á að það sé einmitt uppbygging þessa marktaxta og verðlagningin á raforku til húsahitunar sem skekki verulega þá mynd af hinu mismunandi orkuverði sem fram kemur í fskj. með frv. En þarna virðist vera um ákaflega hæpinn rökstuðning að ræða. Það er satt að segja mjög furðulegt til þess að vita, að þetta bréf skuli vera sent út í nafni Sambands ísl. rafveitna án þess að stjórn þess sambands hafi nokkru sinni um efni þess fjallað, en það hefur hún aldrei gert, eins og fram kemur í bréfi því sem ég vitnaði til áðan frá rafmagnsveitustjóra ríkisins. Hann tekur það fram í bréfi sínu, og ég vil vitna í það aftur, með leyfi forseta:

„Vegna dreifibréfs,“ segir þar, „sem formaður og framkvæmdastjóri Sambands ísl. rafveitna hafa sent ofangreindum aðilum,“ þ.e.a.s. alþm., fjölmiðlum og félagsmönnum SÍR, „þá vilja Rafmagnsveitur ríkisins taka fram eftirfarandi: 1) Fyrrgreint dreifibréf var ekki borið undir stjórnarfund Sambands ísl. rafveitna, en Rafmagnsveitur ríkisins eiga fulltrúa í stjórninni.“

Ég get látið þessari tilvitnun lokið. Þetta nægir til staðfestingar þeim orðum mínum, að um þetta mál hefur alls ekki verið fjallað í stjórn Sambands ísl, rafveitna og bréfið þess vegna á ábyrgð þeirra manna einna sem undir það hafa skrifað.

Hv. þm. Gunnar Thoroddsen, 11. þm. Reykv. og frsm. meiri hl. n., sagði í ræðu sinni áðan að fjárhagsvandamál Rafmagnsveitna ríkisins stöfuðu fyrst og fremst af því, að ríkisvaldið hefði á undanförnum árum vanrækt að leggja fé til þessarar ríkisstofnunar. Ég vil sannarlega taka undir þau ummæli. Það er alveg hárrétt, að þarna hefur verið um mjög alvarlega vanrækslu að ræða, ekki síst á síðasta kjörtímabili þegar hv. þm. Gunnar Thoroddsen var sjálfur iðnrh. Það fer ekkert á milli mála, að sá mikli fjármálalegi vandi sem Rafmagnsveitur ríkisins standa frammi fyrir nú, á að verulegu leyti rætur að rekja til þessarar vanrækslu. En það er full ástæða til að undirstrika það, að í þessum efnum er þó von á nokkurri breytingu til batnaðar nú. Núv. hæstv, iðnrh., Hjörleifur Guttormsson, lýsti yfir við 1. umr. þessa máls að það væri eindregin tillaga iðnrn. við undirbúning að gerð lánsfjáráætlunar næsta árs, að tryggt yrði á lánsfjáráætlun framlag til Rafmagnsveitna ríkisins sem næmi a.m.k. 600 millj. kr. Ég vil segja það, að ég tel að hér sé um mjög brýna fjárveitingu að ræða sem ekki megi bregðast. Ég bendi á að ef sambærileg upphæð hefði verið lögð til Rafmagnsveitna ríkisins á undanförnum árum árlega, þá væri málum þar kannske ekki jafnilla komið og nú er og þá væntanlega ekki jafnbrýn þörf á að hækka nokkuð verðjöfnunargjaldið, eins og nú blasir við. En það er auðvitað svo, að þegar um er að ræða aðila eins og Rafmagnsveitur ríkisins og nú frá síðustu áramótum einnig Orkubú Vestfjarða, hvort tveggja fyrirtæki sem ætlað er að tryggja raforkuöflun í þeim hlutum landsins þar sem slíkri orkuöflun hlýtur af landfræðilegum ástæðum að fylgja mun meiri kostnaður á íbúa en á þéttbýlissvæðinu, þá er ekki hægt að reikna með því að slík fyrirtæki geti staðið undir þessum rekstri með því að verðleggja orkuna til notenda sinna svo hátt að það eitt dugi til, heldur hlýtur sú krafa að vera gerð, að á þessa orkuöflun sé lítið sem sameiginlegt verkefni allra landsmanna og til þess verkefnis sé lagt beint fé af hálfu ríkisvaldsins.

Hv. frsm. meiri hl. iðnn., Gunnar Thoroddsen, tók fram að hækkun verðjöfnunargjaldsins væri ekki lögð til nú samkv, óskum stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins. Þetta er út af fyrir sig rétt, að Rafmagnsveitur ríkisins — eða stjórn þeirra — hafa farið fram á að ríkið legði til vegna rekstrar fyrirtækisins á næsta ári um 1500 millj. kr. í beinu framlagi. En hugmyndin, sem er hins vegar að baki þessu frv. og þeirri lausn sem fyrirhuguð er á málinu af hálfu iðnrn., er sú, að skipta þessari upphæð þannig að hún komi að hluta með hækkun verðjöfnunargjalds, en að hluta með beinu framlagi sem nemur 600 millj. kr. Ljóst er að Rafmagnsveitur ríkisins telja þá lausn eftir atvikum eðlilega, því í bréfi rafmagnsveitustjóra kemur það fram. Hann segir þar, með leyfi forseta:

„Ljóst er að ekki verður við það unað, að fjárhagsvandi Rafmagnsveitnanna verði leystur með sífelldum gjaldskrárhækkunum. Stofnunin hefur því gert tillögur um óendurkræf framlög úr ríkissjóði til að mæta þessum vanda og treystir því, að það verði gert að nokkru á þann hátt, sbr. yfirlýsingu iðnrh. á Alþingi 15. des. s.l.

Meðan verið er að afla þessari stefnu nægilegs skilnings verður að líta á hækkun verðjöfnunargjaldsins sem tímabundna ráðstöfun til að brúa þetta bil að hluta.“

Á þessa leið segir í bréfi Kristjáns Jónssonar rafmagnsveitustjóra sem hann sendi okkur 17. þ. m. Það er vert að minna á það einnig, að stjórnskipuð nefnd, sem m.a. þáv. formaður stjórnar Rafmagnsveitnanna átti sæti í og skilaði tillögum í mars á þessu ári vegna vanda Rafmagnsveitnanna, lagði til hækkun verðjöfnunargjaldsins upp í 20%, — ekki 19%, heldur 20%, — en nú er till. um 19%. Hér segir enn í bréfi rafmagnsveitustjóra, í framhaldi af því, að hann minnir okkur á að þessari till. var þá hafnað, með leyfi forseta: „Í stað þess var gripið til aukinnar erlendrar lántöku sem enn jók fjárhagsvanda stofnunarinnar.“ — Það er sem sagt enginn fögnuður hjá Rafmagnsveitunum yfir því, að hækkun verðjöfnunargjaldsins skuli hafa verið hafnað fyrr á þessu ári, því í staðinn kom aukin erlend lántaka sem enn jók fjárhagsvanda stofnunarinnar.

Ég vil, áður en ég lýk máli mínu, benda á að ég tel að til þeirra hv. þm., sem mæla gegn því að þessi leið verði farin til þess að hindra enn frekari mismunun í raforkuverði milli landshluta, verði að gera þá kröfu, að þeir komi þá með tillögur um hvernig því markmiði að jafna í þessum efnum milli byggðarlaga verði náð eftir öðrum leiðum. Ég hygg að fáir muni leggja til að vandinn verði leystur með enn aukinni erlendri lántöku. Það getur aðeins orðið til að flækja málið enn frekar, ef það ætti að vera eina lausn á þessum vanda, og ef það væru lán af svipuðu tagi og Rafmagnsveiturnar hafa átt kost á hingað til, þá hlyti það að auka þennan vanda enn frekar.

Það er vissulega hægt að segja sem svo, að það eigi að verða við ósk stjórnar Rafmagnsveitnanna um að ríkisframlagið verði ekki bara 600 millj., heldur 1500 millj. kr. Gott og vel, þá kemur að því, að menn þurfa að gera grein fyrir því, hvernig þeir ætla að afla þeirra viðbótartekna. Ég get ímyndað mér að till., sem þá kæmu upp, hlytu að verða um eina eða aðra skattlagningu sem ýmsum þykir nú víst nóg um, og einhverjir yrðu að borga þá skatta. Það kynni sannarlega svo að fara, að þeir hv. þm., sem búa nú við hvað hagstæðast raforkuverð til almennra nota, en eru sumir hverjir engu að síður tregir til að stiga þetta litla skref til jöfnunar, fengju þá að reyna að umbjóðendur þeirra, sem þeir telja sig vera að vernda þegar þeir standa gegn hækkun verðjöfnunargjaldsins, yrðu engu að síður að legg ja í þennan sjóð með greiðstu á einum eða öðrum sköttum sem til þessara þarfa gengju.

Við tökum það fram í nál. okkar, minni hl., að við getum hugsað okkur að standa að einhverjum brtt. sem fram kynnu að koma. Það er sjálfsagt að athuga þær. Það er rétt að minna á það næst, sem fram kemur í minnihlutaáliti okkar, að út af fyrir sig teljum við að þessi leið sé ekkert sérstaklega æskileg, heldur þvert á móti mjög gölluð. Og hverjir ætli þessir gallar séu? Fyrst og fremst þeir, að gjaldið er lagt á sem prósentugjald. Það þýðir auðvitað að þeir notendur, sem borga hæst rafmagnsverð nú, verða að borga þeim mun meira hver og einn af verðjöfnunargjaldinu sem þessu svarar vegna þess að gjaldið er prósentugjald. Ég tek það fram, að það er skoðun mín að miklu eðlilegra hefði verið að gjaldið væri annaðhvort lagt á sem föst krónutala, sem væri þá hin sama í öllum byggðarlögum, ellegar hitt, að þeir aðilar, sem nú greiða hæst raforkuverð, þyrftu ekki að borga þetta gjald, þeir væru undanþegnir því, eða þriðji möguleikinn, að þeir borguðu lægra gjald ef þeir væru ekki alveg undanþegnir því.

En hver er ástæðan fyrir því, að við í minni hl. n. gerum þó ekki brtt. í þessa átt? Ástæðan fyrir því er sú, að væru þessar leiðir valdar, sem ég talaði um nú og lýsti sem heppilegri leiðum að mínum dómi en þeirri prósentuleið sem fram kemur í frv., býst ég við að þeir hv. þm., sem ekki hafa viljað fallast á þetta litla skref í átt til jöfnunar vegna þess að þeir telja sig vera að verja hagsmuni umbjóðenda sinna í þeim byggðarlögum þar sem raforkuverðið er þó lægst, teldu enn freklegar á hlut umbjóðenda sinna gengið, því óneitanlega yrði þá byrðin þyngri á þeim sem við hagstæðast orkuverð búa nú. Þar með væru minni líkur á því, að hægt væri að afla tillögunum meiri hluta hér á hinu háa Alþingi. Þess vegna er þessi leið farin, sem í frv. kemur fram, í von um að sæmilegt samkomulag geti tekist um málið, sem þó virðist borin von eftir að iðnn. klofnaði í málinu með þeim hætti sem orðið er.

Ég vil taka það fram, áður en ég hverf úr ræðustól, að ég legg á það mjög þunga áherslu, að sú upphæð, sem innheimt verður í þessu formi ef frv. verður samþ., verði notuð til þess að öllu leyti að draga úr þeim mun á raforkuverðinu sem nú er. Ég vil vænta þess, að þannig verði haldið á málum, og það er í trausti þess sem ég legg þessu frv. lið að sú upphæð, sem inn kemur fyrir verðjöfnunargjaldið, verði — ekki bara í orði, heldur á borði — notuð til þess að draga úr þeim gífurlega mismun á raforkuverði eftir byggðarlögum sem nú er fyrir hendi, en fari ekki í það kannske eingöngu að greiða einhvern hluta af skuldahala Rafmagnsveitnanna eða rekstri Orkubús Vestfjarða án þess að um raunverulega verðjöfnun sé að ræða. Ég vil beina því alveg sérstaklega til hæstv. iðnrh., að hann leitist við að tryggja að þannig verði þetta.

Það er ekki öllu meira sem ég sé ástæðu til að segja um þetta mál að sinni. Ég vil þó minna á það, sem fram kom í framsöguræðu hæstv. iðnrh., að þessi hækkun verðjöfnunargjaldsins er svo smávægileg, svo lítið skref í átt til jöfnunar, að verði frv. samþ. felur það aðeins í sér — ekki 0.6% hækkun á framfærsluvísitölu, heldur 0.06% hækkun á framfærsluvísitölu samkv. útreikningum Hagstofunnar.

Ég gerði það til gamans, að ég aflaði mér orkureiknings frá heimili hér í höfuðborginni tvo síðustu mánuði, okt. og nóv. sem trúlega mega teljast miðlungsmánuðir, og sé skoðað hvað þetta heimili þyrfti að borga umfram það sem það gerði október- og nóvembermánuð s.l., hvað það þyrfti að borga til viðbótar yrði frv. samþ., þá reyndist sú tala ekki vera ýkjahá. Það reyndist vera um að ræða 400 kr. á mánuði eða 50 kr. á hvert nef heimilismanna. Það voru nú öll ósköpin. Og ef menn geta ekki horfst í augu við það, að ósæmilegt sé að rafmagn — við skulum segja rafmagn til heimilisnota til venjulegra alþýðuheimila — sé selt helmingi hærra í einu byggðarlagi en öðru, og ef menn telja eftir sér að leggja fram 50 kr. á nef til að stiga örlítið skref í jafnaðarátt þegar svona er ástatt, þá eiga þeir, sem neita að stiga þetta litla skref, afstaða þeirra í þessu máli bendir ekki til þess, ekki skilið að heita jafnaðarmenn. Ég segi: Afstaða þeirra í þessu máli bendir ekki til þess. Afstaða þeirra í ýmsum öðrum málum getur að sjálfsögðu verið með þeim hætti að hún bæti þetta upp, vegna þess að málið er ekki það stórt. En ég tel að hér sé um svo sjálfsagða kröfu í átt til jöfnunar að ræða að það sé sjálfsagt mál, að þetta frv. beri að samþ., annaðhvort eins og það er nú — í óbreyttri mynd — eða, ef menn sjá leiðir til þess, með þeim breytingum sem ganga lengra en frv. gerir í átt til jöfnunar.