20.12.1978
Neðri deild: 39. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (1467)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. þm. Kjartan Ólafsson, 3. þm. Vestf., taldi að hér væri um lítið mál að ræða, aðeins 6% hækkun, lítið skref. Þetta er þó 700 millj. kr. skref. Það er út af fyrir sig alveg rétt hjá hv. þm., að ekki er þetta stórt skref þegar tekið er inn í heildarmynd þeirrar skattheimtu sem nú á sér stað umfram það sem reiknað var með að eðlilegt væri, og á ég þá bæði við stjórnunaraðgerðir þeirra háu herra, sem stjórna höfuðborginni, og eins þeirra sömu flokka, sem stjórna ríkinu.

Þessi smáu skref þýða um 1400 millj. kr, viðbótarskatta á höfuðborgarbúa frá borgarstjórn Reykjavikur við ýmis önnur gjöld, sem ég nefni ekki, eins og álag á kvöldsöluleyfi, sem hækkar um 380%, o.s.frv. Það eru margir slíkir minni liðir. Af þessum hækkunarliðum má geta þess, að álagður eignarskattur hækkar um 650 millj., tekjuskatturinn er áætlað að hækki um 1200 millj. og flýtifyrningin, sem á að breyta úr 30% niður í 10%, þýðir um 1100 millj. Eignarskattshækkun á félög er um 1200 millj. og sérstakur fasteignaskattur er áætlað að gefi a.m.k. 550 millj. Flugvallagjaldið er um 400 millj., nýbyggingagjaldið um 300 millj., vörugjaldið, sem var hér á dagskrá áðan, 1150 millj. og svo mætti lengi telja. Það er af mörgu fleira að taka, en ég ætla ekki að telja það upp. Litlu skrefin eru orðin ansi mörg.

Tilefni þess, að ég kem hér upp, eru ummæli hæstv. iðnrh. við 1. umr. þessa máls, en þá harmaði ég þá fullyrðingu hæstv. ráðh. að ekkert mark væri takandi á grg. Sambands ísl. rafveitna og þar með þá um leið á einróma samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur. Ég taldi það ábyrgðarleysi af ráðh. að taka svona til orða og sagði þá, að ég mundi leita frekari upplýsinga hjá Sambandi ísl. rafveitna um þetta mál, biðja það um að yfirfara fullyrðingar sínar og fá staðfest ef í þeim fyndust einhverjar villur. En svo var ekki.

Áður en ég les upp þær aths., sem Samband ísl. rafveitna hafði við ræðu hæstv. ráðh. að gera, vil ég taka það fram, að bréf það og grg., sem barst frá Sambandi ísl. rafveitna, er skrifað af formanni Sambands ísl. rafveitna í samráði við stjórnarmenn, en bréf það, sem hæstv. ráðh. og fleiri hv. þm. hafa vitnað til frá Rafmagnsveitum ríkisins, er bréf framkvæmdastjórans og hefur ekki verið borið undir stjórn Rafmagnsveitna ríkisins. (Gripið fram í: Hann átti sæti í stjórn SÍR.) Ég endurtek, eins og hv. þm. geta lesið sjálfir: Það bréf Rafmagnsveitna ríkisins er undirritað af Kristjáni Jónssyni, og formaður stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins vissi af þessu bréfi þegar það var skrifað, en neitaði að skrifa undir það vegna þess að það hafði ekki verið lagt fyrir stjórnina. Þetta eru hans eigin orð í samtölum hér frammi á ganginum áðan. Ég leitaði mér sérstakra upplýsinga um þetta mál til þess að geta farið rétt með það sem ég er nú að segja hér í ræðustól. En í aths., sem komu frá Sambandi ísl. rafveitna, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna ummæla iðnrh. við 1. umr. um frv. til laga um verðjöfnunargjald af raforku, sem fram fór 15. 12. 1978, viljum vér taka þetta fram:

1) Ráðh. kvaðst draga í efa, að í bréfi og grg. Sambands ísl. rafveitna (SÍR) til hans hafi verið talað fyrir munn allra rafveitna í landinu, og nefndi hann Rafmagnsveitur ríkisins, RARIK, í því sambandi. Við leyfum oss að benda á að í SIR eru allar rafveitur og virkjanir á landinu. Í lögum Sambandsins segir m. a, að markmið þess sé „að gæta hagsmuna aðildarfélaga og koma fram fyrir þeirra hönd í þeim málum sem æskilegt er að þeir standi að sem einn aðili“. Enn fremur segir um markmið Sambandsins, að það sé „að veita yfirvöldum upplýsingar og umsagnir“.

2) Á það er lögð áhersla, að gagnrýni SÍR á lagasetningu um verðjöfnunargjald af raforku beinist fyrst og fremst að þeirri aðferð, sem með gjaldtöku þessari er notuð, fremur en að RARIK sem fyrirtæki og allra síst að stjórnendum þess og starfsmönnum. Ljóst er að fyrirtækið, sem er í eigu ríkisins, og stjórnendur þess hafa að sjálfsögðu þurft að hlíta ýmsum pólitískum ákvörðunum um framkvæmdir og gjaldskrársetningar, sem hafa haft áhrif á fjárhagsstöðu þess. Það eru sameiginlegir hagsmunir allrar þjóðarinnar, að raforkufyrirtækin í landinu standi traustum fótum og geti sinnt hlutverki sínu á þann hátt sem ætlast er til af hinum almenna notanda. Óviðunandi er að fyrirtæki þessi búi við sífellda fjárhagsörðugleika sem oft leiða til meiri tilkostnaðar en þörf er á vegna bráðabirgðaúrlausna á ýmsum sviðum. Eins og SÍR hefur áður bent á verður fjárhagsvandi RARIK ekki leystur með sífelldri framlengingu á lögum um verðjöfnunargjald og hækkun þess gjalds með nokkurra ára millibili.

3) Í fyrrgreindri ræðu sinni á Alþingi segir iðnrh., að í grg. Sambands ísl. rafveitna komi margt fram sem hann telji „afar villandi og nánast ekki sæmandi “ og rugli hv. alþm. í ríminu í sambandi við ýmsa þætti málsins, enda gæti þar „bæði vissra rangfærslna og misskilnings“ að sínu mati. Vegna þessara ummæla skal það tekið fram, að ekkert hefur komið í ljós sem bendir til að þau hafi við nokkur rök að styðjast. Þá sagði hann að eitt af því, sem sótt hafi verið í grg. þessa, væri að þetta hefði mikil áhrif á framfærsluvísitöluna. Af þessu tilefni er rétt að tilgreina síðustu málsgr. grg., en hún er þannig orðrétt: „Á það er og bent, að gjald af þessu tagi, sem gengur beint inn í raforkuverð í landinu, leiðir til hækkunar framfærsluvísitölu og rekstrarkostnaðar atvinnufyrirtækja.“ Í grg. SÍR er enginn dómur lagður á það, hvort áhrifin séu mikil eða lítil. Hins vegar er lagður dómur á aðferðina sem slíka.

4) Iðnrh. segir að í grg. SÍR sé hampað villandi upplýsingum um taxta hjá Rafmagnsveitum ríkisins og rangri verðlagningu í tengslum við þá, fælist verulegur þáttur í gagnrýni manna á verðjöfnunargjaldið og hækkun þess í því að benda á þetta sjónarmið. Í gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins hafa lengi verið ákvæði um að raforkuverð til hitunar sé miðað við söluverð olíu til olíukyndingar. Fyrir allmörgum árum tóku hitataxtarnir að dragast aftur úr þessu marki vegna tregðu stjórnvalda til að heimila hækkanir á þeim til samræmis við olíuverð. Leiddi þetta til stórkostlegrar aukningar á raforkusölu til hitunar, svo sem bent er á í grg. SÍR. Er það fyrst nú á þessu ári sem fyrra marki er náð, þannig að verðlagning fyrirtækisins á raforku til hitunar nálgast kostnað við upphitun með olíu. Dugar þetta þó ekki til og ætti því alls ekki að leyfa frekari aukningu á sölu raforku til hitunar meðan þannig er ástatt.

5) Athyglisverð eru þau ummæli iðnrh., að hann vilji ekki fullyrða að marktöxtunum mætti í engu breyta eða gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins og samsetningu hennar. Í undirbúningi munu nú vera viðræður við Verkfræðistofnun Háskóla Íslands varðandi einföldun og endurskipulagningu á gjaldskrá RARIK.

6) Þeim ummælum ráðh. ber að fagna, er hann dregur í efa að það sé í öllum atvikum skynsamleg stefna að fara út í beina rafhitun á svæðum, þar sem ekki er talin von til þess að fá jarðvarma. Sagði hann þau mál í gaumgæfilegri athugun nú og yrði henni hraðað eftir föngum, þannig að ekki.yrði haldið lengra á braut beinnar rafhitunar án þess að dæmið yrði fyrst gert upp.“

Því leyfi ég mér að lesa þetta, að ég taldi rétt að Samband ísl. rafveitna fengi, þó það eigi ekki fulltrúa hér á Alþ., beint tækifæri til þess að svara því sem ég taldi furðuleg ummæli hæstv. ráðh. um grg. þeirra.

Ég vil þakka hv. 7, þm. Reykv. fyrir mjög góða ræðu sem hann hélt hér, ágæta ræðu sem hann hefur eflaust lagt talsverða vinnu í. Hann hefur líklega leitað sér upplýsinga hjá borgaryfirvöldum og eins Rafmagnsveitu Reykjavíkur, því hann fór nákvæmlega með þær tölur sem hafa verið til umr. í borgarstjórn Reykjavíkur og þá af mönnum sem njóta e.t.v. meira trausts hjá hæstv. ríkisstj. en þeir sem mæla gegn þessari 6% verðhækkun, því þeir eru þó félagar í sömu flokkum og þar ráða. Ég tek undir með hv. 7. þm. Reykv. og vona að það verði frestun á frekari skattpíningu þegna þessa lands og því las ég upp þær upphæðir sem nú hafa verið heimtar inn í smáskömmtum til viðbótar við það sem annars hefði verið eðlilegt að leggja á þjóðina. Ég vona að frekari skattpíningu verði ekki haldið áfram og þetta verðjöfnunargjald verði fellt, því að þjóðin er búin að fá meira en nóg og þarf nú að fara að huga að því, að eitthvað verði eftir til jólanna. Jólaglaðningur ríkisstj. er ekki í því falinn að leggja 6% skattinn á. Það er mesti misskilningur hjá hæstv. iðnrh. Hann hlýtur að hafa hlustað á ræðu hv. 7. þm. Reykv. með daufa eyranu.

Það er nú búið að vitna svo oft í þetta bréf Rafmagnsveitna ríkisins, að ég sé ekki ástæðu til þess að gera það að neinu sérstöku umræðuefni. En það er alveg augljóst að í þessu bréfi, sem ég vil kalla bréf framkvæmdastjóra Rafmagnsveitna ríkisins, kemur mjög ljóst fram, að Rafmagnsveitur ríkisins eru líka á móti þessu verðjöfnunargjaldi. Það fer ekkert á milli mála. Það segir á fleiri en einum stað, hvað þeir vilja fá í staðinn. Eftir að embættismannanefnd hafði gert tillögur um að þetta verðjöfnunargjald skyldi hækkað í 20% og sú till. hafði verið felld, þá kemur fram í bréfinu að síðustu tillögur, sem Rafmagnsveitur ríkisins gerðu, hljóða svo, með leyfi forseta, og les ég þá upp af annarri síðu þessa bréfs:

„Síðustu tillögur Rafmagnsveitnanna gerðu hins vegar ráð fyrir óendurkræfum framlögum úr ríkissjóði á fjárlögum 1979 til frambúðarlausnar fjárhagsvandans, 800 millj. kr. til þess að vega upp á móti fyrirsjáanlegum rekstrarhalla 1979 og 680 millj. kr. vegna hins félagslega þáttar framkvæmda árið 1979.“

Þessar tillögur stofnunarinnar hafa verið mótaðar á grundvelli útreikninga á hinum félagslega þætti í framkvæmdum rafveitnanna. Er þessi félagslegi þáttur í framkvæmdum rafveitnanna einn hluti af þessum 8% sem felld voru niður 1. des? Á að velta því að mestu yfir á fólkið sem býr hér á suðvesturhorni landsins? Ef það er hluti af hinum félagslegu umbótum væri gott að fá það upplýst.

Á þriðju síðu þessa sama bréfs, sem virðist vera eins og hálfgerð biblía hæstv. iðnrh., stendur efst á bls. með leyfi forseta: „Ljóst er, að ekki verður við það unað að fjárhagsvandi Rafmagnsveitnanna verði leystur með sífelldum gjaldskrárhækkunum. Stofnunin hefur því gert tillögur um óendurkræf framlög úr ríkissjóði til að mæta þessum vanda og treystir því, að það verði gert að nokkru á þann hátt, sbr. yfirlýsingu iðnrh. á Alþ. 15. des. s.l.

Meðan verið er að afla þessari stefnu nægilegs skilnings, verður að líta á hækkun verðjöfnunargjaldsins sem tímabundna ráðstöfun til að brúa þetta bil að hluta.“

Ég verð að segja alveg eins og er, að ef það er ekki nóg, sem meiri hl. hv. iðnn. hefur samþ., að viðhalda þessu 13% verðjöfnunargjaldi, sem er búið að vera tímabundið í mörg ár, — ef það er ekki nóg að halda þessu 13% álagningargjaldi óbreyttu miðað við stórhækkaðan álagningarstofn, þá er það í mínum augum ekkert annað en að hluta af þessum 8% félagslegu umbótum, sem ríkisstj. hefur lofað, er nú velt yfir á rafmagnsnotendur. Eins og komið hefur fram í umr. um þetta mál, lendir það þyngst á þeim sem greiða hæsta raforkuverðið. Svo skulum við ekkert vera að deila um hverjir það eru sem greiða hæsta verðið fyrir raforkuna. Þessi 6% viðbót hlýtur að gera meira í krónutölu hjá þeim sem greiða hæst fyrir rafmagnið. Það held ég að sé öllum ljóst.

Ég vil undirstrika það, að mér er ekki nokkur leið að skilja hæstv, iðnrh. þegar hann talar um að bjartsýni hans hafi aukist við ræðu hv. 7. þm. Reykv. Hann hefur þá hlustað á hana með allt öðru hugarfari en mér er næst að segja allir aðrir þm. En ég held að það sé kominn tími til, það er alveg rétt hjá hæstv. iðnrh., að stjórnarherrarnir fari nú að hugsa til þess, að jólin eru að nálgast, og þeir geri það nú, svona til þess að breyta út af venju sinni, að gefa þjóðinni smájólagjöf með því að ýta ekki fast eftir þessari hækkun á verðjöfnunargjaldinu úr 13% í 19%. Það út af fyrir sig væri — ja, hvað á maður að segja? — smájólagjöf í öllu því skattpíningarflóði sem nú dynur yfir þjóðina. Og ég vil ítreka það, sem ég hef áður sagt úr þessum ræðustól, að árið 1979 verður alveg hryllilegt skattpíningarár fyrir alla aðila, ekki eingöngu fyrir atvinnureksturinn, heldur fyrir alla.