21.12.1978
Efri deild: 44. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1851 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

158. mál, iðnaðarlög

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að mótmæla þeim vinnubrögðum sem hér eru í frammi höfð. Mér skilst helst að það eigi að gefa jólahlé á morgun jafnvel. Búið var að semja um það milli stjórnar og stjórnarandstöðu að reyna að hafa samstarf um afgreiðslu mála eftir því sem hægt er vegna efnislegs meiningarmunar. Menn hafa staðið við það. Menn hafa yfirleitt greitt atkv. með afbrigðum þótt mikill hraði sé á afgreiðslu mála, eins og raunar oft er fyrir jól. Það er út af fyrir sig ekkert einsdæmi. En samt er það svo, að meðferð mála hér á Alþ. nú er með alveg einstæðum hætti og þá sérstaklega vegna þeirra tilburða sem hafa verið hjá einum stjórnarflokknum nú nýlega. Það hefur auðvitað tafið afgreiðslu mála alveg gífurlega, og í gær gerðist það, að á fundi í Sþ. voru menn að ræða fram og aftur um mál sem hefur tekið geysilegan tíma og er fjarri því að vera þess eðlis, að það þurfi að afgreiða fyrir jól. Það var um gjald fyrir laxveiðiheimildir útlendinga og það er eins konar rjúpumál. Um þetta voru menn að ræða í gær. Síðan gerist það, að hér eru settir nýir fundir síðdegis, m.a. er settur einn fundur, sem enginn vissi hvað ætti að hafa á dagskrá sinni, fyrr en skjali um það var útbýtt um leið og fundurinn var settur og leitað afbrigða fyrir málum. Þá kom í ljós, að rétt samstundis stóð hæstv. fjmrh. hér í ræðustól og mælti fyrir máli sem enginn hafði heyrt minnst á og enginn hafði haft ráðrúm til að kynna sér, a.m.k. ekki í stjórnarandstöðunni, sem þó hafði verið beðin um að greiða fyrir afgreiðslu mála. Þetta gerist tveim dögum fyrir þinghlé. Og nú gerist það, að leitað er afbrigða fyrir máli, sem ekki hefur heldur heyrst um og ekki var einu sinni komið á borð þm.

Ég vil fyrir mitt leyti sem þm. úr stjórnarandstöðuflokknum eindregið mótmæla þessum vinnubrögðum og sé ekki ástæðu til þess að taka þátt í því að flýta fyrir afgreiðslu mála.