21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Í sambandi við þá yfirlýsingu, sem hér hefur verið gefin af hálfu formanns Alþfl. um afstöðu flokksins til afgreiðslu fjárl., þykir mér rétt að gera nokkrar aths. af hálfu okkar Alþb.-manna.

Ég fagna út af fyrir sig þeirri samþykkt sem Alþfl. hefur gert um það að vilja standa áfram að afgreiðslu fjárl. á þeim grundvelli sem hér hefur verið markaður. Það er augljóst, að flokkurinn hefur komist að raun um við nánari athugun að afgreiðsla fjárl. er í öllum meginatriðum á þeim grundvelli sem stjórnarflokkarnir höfðu margsinnis áður yfir að þeir ætluðu sér að hafa í sambandi við afgreiðslu fjárlaga.

Ég vil líka taka það fram, að það hefur legið ljóst fyrir að Alþb. hefur verið reiðubúið allan tímann og er reiðubúið áfram til þess að ræða við aðra samstarfsflokka sína um ráðstafanir í efnahagsmálum gegn verðbólguvandanum til bæði skemmri og lengri tíma. En í sambandi við slíkar ráðstafanir leggjum við Alþb.-menn megináherslu á nokkur grundvallaratriði. Þar segjum við, að um leið og gerðar eru ráðstafanir í efnahagsmálum verði að tryggja fulla atvinnu í landinu. Það er í samræmi við samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna. Í öðru lagi, að í þeim efnahagsráðstöfunum, sem gripið er til, verði að tryggja þann kaupmátt launa sem lágmark sem um var samið í kaupgjaldssamningunum á árinu 1977. Í þriðja lagi, að haga þurfi efnahagsstefnunni þannig að unnið sé að því að efla íslenska atvinnuvegi. Og í fjórða lagi, að þær ráðstafanir, sem gerðar verða í efnahagsmálum, verði að byggjast á fullu samkomulagi við samtök launafólks.

Í sambandi við þá yfirlýsingu, sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. um samþykkt í ríkisstj. þess efnis, að við það væri miðað að unnið yrði að því að lækka ríkisútgjöld á næsta ári frá því, sem beinlínis er gert ráð fyrir í fjárl., um sem næmi 1 milljarði þar til viðbótar, vil ég segja það, að við Alþb.-menn höfum allan tímann lagt áherslu á að unnið væri að því að draga úr almennum rekstrarútgjöldum ríkis og ríkisstofnana. Við munum vinna að slíku áfram. En við erum andvígir því og teljum að þar sé brugðið frá gerðu samkomulagi, ef ætlunin er að hverfa frá þeim fjárveitingum sem samið er um til félagslegra og verklegra framkvæmda og búið er að ákveða af Alþ. og skipta, eða í sambandi við þær niðurgreiðslur sem eru í samræmi við markaða stefnu ríkisstj. og samstarfssamning hennar. Við teljum auðvelt að færa niður rekstrarútgjöld ríkisins sem nemur 1 milljarði kr. og þó meira væri og beri að vinna að því.

Ég vil því segja í sambandi við það, sem hér hefur komið fram, að mér sýnist að hér geti verið um fulla samstöðu að ræða hjá stjórnarflokkunum um afgreiðslu fjárl. á þeim grundvelli sem markaður hefur verið, bæði varðandi tekjur og gjöld, og að það megi ná þeim árangri, að fjárlagaafgreiðslan hafi nokkur áhrif til viðnáms gegn verðbólgu. Og ég held að við,sem stöndum að stjórninni, eigum að láta okkur það í léttu rúmi liggja þó að það fari einhver smávegis hrollur um stjórnarandstöðuna í sambandi við lok þessa máls.