21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1857 í B-deild Alþingistíðinda. (1491)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs, átti ekki von á að fá orðið svona fljótt, en er þakklátur forseta fyrir það út af fyrir sig.

Hæstv. forsrh. beindi hér tilmælum til stjórnarandstöðunnar og mín sérstaklega sem leiðtoga stjórnarandstöðunnar. Ég minni hæstv. forsrh. á það, að þessar umr., sem nú fara fram, voru ekki hafnar af stjórnarandstöðunni. Þær voru hafnar af hæstv. utanrrh., af stjórnarsinnum. Og svo lengi höfum við í stjórnarandstöðunni þurft að bíða eftir afgreiðslu mála hér á Alþ., svo lengi höfum við í stjórnarandstöðunni sýnt þolinmæði varðandi algerlega óþolandi starfsfyrirkomulag nú síðustu dagana á Alþ., að ég tel rétt að þeir, sem eru nú á mælendaskrá og fengu tilefni til að kveðja sér hljóðs, fái tækifæri til að ljúka máli sínu, en mun mæla með því við aðra stjórnarandstöðuþm., að þeir bíði með að kveðja sér hljóðs, hafi þeir ætlað það, þar til þeir, sem nú eru á mælendaskrá, hafa lokið máli sínu. Ég vil taka það fram, að ég hef kvatt mér hljóðs og vil efnislega leggja minn þátt í þessar umr., en tel, vegna þess að hæstv. forsrh. beindi til mín fsp. og hæstv. forseti gaf mér orðið á undan minni röð á mælendaskrá, að réttara sé að bíða þar til röðin kemur að mér.