21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það liggur auðvitað ljóst fyrir, að stjórnarandstaðan ber enga ábyrgð á þeim seinagangi sem verið hefur á starfi þessarar hv. d. Það eru auðvitað stjórnarflokkarnir sjálfir sem þar bera á alla ábyrgð. En ég hlýt að meta það mikils og ég skildi orð hæstv. forsrh. þann veg, að hann bæði afsökunar á þeim vinnubrögðum sem höfð hefðu verið í frammi af hálfu stjórnarflokkanna undanfarna daga. Þetta met ég mjög mikils og með vísun til þess vil ég fyrir mitt leyti verða við hans vinsamlegu og kurteislegu beiðni um að greiða fyrir þeim brýnu málum sem þurfa að afgreiðast hér í deildinni.

En úr því sem ég er kominn í ræðustólinn vil ég aðeins fara örfáum orðum um upphaf þessa máls, þar sem hæstv. utanrrh. hóf umr. utan dagskrár og las upp samþykkt sem minnti mig óþyrmilega á samþykkt víðkunna sem nefnd hefur verið Egilsstaðasamþykkt. Þar var gerð sú samþykkt og með shlj. atkv. eins og hjá Alþfl. á sínum tíma, að ríkissjóður væri skuldlaus. Nú les hann upp samþykktir um greiðsluafganga, shlj. samþykkt hjá Alþfl., sem verða muni, og eins og ég segi, allt samþ. shlj. eins og í „den tid“ á Egilsstöðum.

En það alvarlegasta í þessu sambandi er það, að hið háa Alþ. skuli sitja hér aðgerðalaust meðan beðið er eftir einhverjum innanflokks- og utanþingssamkundum Alþfl., að bera þar undir menn hvernig eiðsvarnir þm. og fulltrúar þjóðarinnar, hv. þm. Alþfl., eigi að haga sér hér á hinu háa Alþingi. Það er hart undir því að búa, og það er ekki nema von að hæstv. forsrh. biðjist afsökunar.

En svo að lokum, af því að ég vil fallast á þessi tilmæli, þá má ég til með að koma einu orði að hv. 1. þm. Austurl. Hann lýsti yfir að Alþb. væri tilbúið að ræða ráðstafanir til lausnar verðbólgunni. Maður hlýtur að fagna sérstaklega slíkri yfirlýsingu. Hvenær á að hefja það af þess hálfu? En skilyrðin voru fjögur. Í fyrsta lagi, að full atvinna yrði tryggð. Nú er uppi sú stefna, að það á að hundelta fyrirtækin með skattpíningu þannig að við borð liggur og augsýnilegt virðist vera að þau stöðvist. Ætli það verði til þess að auka atvinnuna? Hann segir í öðru lagi, að tryggður verði kaupmáttur launa. Hvernig hefur þeim gengið að standa við yfirlýsingar sínar og dýru kosningaloforðin í því efni í sambandi við „samningana í gildi“? Hann segir í þriðja lagi, að Alþb. setji það að skilyrði að efla atvinnuvegina. Það er helst að tillögur þeirra hér á hinu háa Alþ. hafi orðið til þess að efla atvinnuvegina að undanförnu. Mér skilst að aðaltillögugerð þeirra gangi í þá átt að koma þeim bak við lás og slá, þeim stærstu og veigamestu af atvinnurekendum. Og svo er loks það, að fullt samráð verði haft við Gvend jaka, það var síðasta skilyrðið.