21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1859 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég læt í ljós fyllstu óánægju mína með það, að hér er hleypt af stað umr. utan dagskrár með frétt frá flokksfundi eins stjórnmálaflokks sem hver og einn þm. getur lesið um í dagblöðum eða heyrt í útvarpi, er þessi flokkur sendir frá sér fréttatilkynningu, og þar af leiðandi algerlega ástæðulaust að hefja þessar umr. hér. En fyrst forseti hleypir formanni Alþfl. utan dagskrár með frétt frá flokksfundi þess flokks og síðan koma tveir aðrir ráðh. í ræðustól og margir þm. hafa beðið um orðið, þá er það skylda forseta að mismuna ekki þm. og ég krefst þess, að hann fari eftir þeim algildu reglum sem hafa verið viðhafðar hér á Alþ. af öðrum forsetum, að þessar umr. haldi áfram. Það er ekki sök okkar, sem erum á mælendaskrá, að þau frv., sem bíða hér, eru ekki þegar afgreidd. Það er sök stjórnarliðsins sjálfs. Við höfum ekki þvælst hér fyrir í umr. utan dagskrár. Það eru stjórnarliðar sjálfir sem halda fyrst og fremst uppi málþófi á þessu þingi. Og ég skírskota aftur til hæstv. forseta, að hann sýni þá sjálfsögðu sanngirni og kurteisi, að þeir menn, sem biðja í upphafi þessara umr. um orðið, fái að tala, en ráðh. njóti ekki forgangs. Í þingsköpum segir, að ráðh. geti talað og forseti geti breytt niðurröðun á mælendaskrá, en þá hefur það yfirleitt verið á þann veg, að ráðh. hefur þennan rétt þegar fjallað er um mál sem heyrir undir hann sem ráðh., en ekki að allir ráðh. geti haft forréttindi í umr. þannig að þegar umr. byrja geti 9 ráðh. sett sig á mælendaskrá og talað allir hver á fætur öðrum. Þetta er ekki það sem við er átt í þingsköpum, og ég vænti þess, að hæstv. forseti endurskoði þessa afstöðu sína til þess að hafa samstarf og samvinnu við þdm. eins og forsetum ber að gera.