21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég get nú að mestu látið nægja að vísa til ræðu þeirrar sem ég hélt við 1. umr., og satt að segja hélt ég að þingstörfum ætti að hraða fremur en draga þau. Í gær átti sér það þó stað, að talsmenn þessa frv. héldu hér uppi, að mér fannst, æðilöngu málþófi, þannig að ég veit ekki hvort ég fer að biðja afsökunar á því þó ég segi hér örfá orð. Ég held að ég geri það ekki.

Ég mun eins og aðrir, sem talað hafa gegn þessu frv., sætta mig við að svo stöddu, að verðjöfnunargjaldið verði óbreytt, 13%, og er tilbúinn til þess að greiða atkv. með því enda þótt ég telji að það sé hæpin ráðstöfun. En ég get ekki fellt mig við að hækka þetta verðjöfnunargjald svo gífurlega mikið sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Það er sjálfsagt að Rafmagnsveitur ríkisins vilja fá auknar tekjur, og það er ástæðulaust að marglesa bréf frá þeim þess efnis. Það hljóta allir að gera sér ljóst. Og víst er um það, að þarna er við vandamál að glíma sem þarf að leysa. En ég tel, að þetta sé eitt af þeim samfélagslegu vandamálum sem beri að leysa með þátttöku ríkissjóðs, en ekki með auknu gjaldi á rafmagnsnotendur annars staðar og þá einkum á því svæði þar sem við erum nú stödd.

Ég vil líka leyfa mér að minna á að borgarráð Reykjavíkur, sem er skipað mönnum úr öllum þingflokkum, samþykkti einróma mótmæli gegn þessu frv., þannig að hér er ekki um flokkspólitískt mál að tefla, enda hefur raunar sýnt sig hér að svo er ekki, því að menn skiptast hér eftir öðrum aðstæðum en stjórnmálaskoðunum sínum.

Ég fagna því út af fyrir sig sem segir í málefnasamningi ríkisstj. eða samstarfsyfirlýsingu, eins og það heitir víst, að til standi að koma betri skipan á raforkumál landsmanna en nú gildir og hefur gilt. En mér finnst sú leið, sem hér er valin, ekki sú rétta og ég vil því enn á ný mótmæla henni.

Hér hefur verið rætt nokkuð um rafmagnsverð Landsvirkjunar og óskir þeirrar stofnunar um hækkun á rafmagnsgjaldi. Mér finnst ekki óeðlilegt að Landsvirkjun fari fram á auknar tekjur með hliðsjón af þeirri verðbólgu sem við búum við. Eins og allir hv. þm. vita er það skilyrði fyrir þeim lántökum, sem teknar voru til Landsvirkjunar, að það fyrirtæki skili tilteknum arði, nánar tiltekið 8%. Og ég verð að segja að mér finnst það eðlileg og sjálfsögð regla, að slík fyrirtæki séu rekin með hæfilegum arði, því að að öðrum kosti verður að taka svo gífurleg lán til allra framhaldsnýbygginga að tæpast verður undir því risið.

Hæstv. iðnrh. fór þess á leit við stjórn Landsvirkjunar að hún drægi úr fjárgreiðslum sínum á næsta ári, og var orðið við þeim tilmælum og á þann veg fyrst og fremst að fresta rafmagnslínu sem ráðgerð var frá Hrauneyjafossi að Brennimel í Hvalfirði. Auðvitað er öllum, sem til þekkja, ljóst að hér er teflt á tæpasta vað að hafa ekki nema eina línu. En við verðum að vona að veðráttan verði okkur það hliðholl, að við getum komist af með þessa einu línu og í trausti þess og trú á það samþykki stjórn Landsvirkjunar þessa málaleitan. En ég vil undirstrika það hér, þó að það sé kannske ekki til umr. beinlínis, að þessi frestun á framkvæmdum hjá Landsvirkjun var til þess gerð að draga úr fjárfestingu, en ekki undir nokkrum kringumstæðum til þess að leggja í fjárfestingu annars staðar á landinu. Ef sú verður raunin mun ég enn fremur verða því mjög mótfallinn og greiða atkv, gegn því. Ég get vel skilið að í slíku árferði, sem hér er nú búið við, og við þær kringumstæður, sem við lifum við, sé óskað eftir því, að stór fyrirtæki eins og Landsvirkjun dragi úr framkvæmdum, og því er ég út af fyrir sig meðmæltur þó að mér sé ljós áhættan. En ef það er gert til þess að leggja í fjárfestingu annars staðar, þá snýr málið frá minni hálfu allt öðruvísi við og þá mun ég verða alfarið á móti því, eins og ég er á móti þeirri hækkun vörugjalds sem hér er til umr.