21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (1511)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. um hækkun á verðjöfnunargjaldi af raforku hefur verið allmikið rætt í þessari hv. þd. og hafa flokkafylkingar riðlast í sambandi við afstöðu til þessa máls.

Mér finnst athyglisvert, að í aths. við þetta lagafrv. er vitnað í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna, þar sem segir m.a., að mörkuð verði ný stefna í orkumálum með það að markmiði að tryggja öllum landsmönnum næga og örugga raforku á sambærilegu verði. Ég er alveg sammála þessari mörkuðu stefnu, að tryggja raforku á sambærilegu verði. Það er e.t.v. erfitt að hafa sama verð á raforku um allt land, en aðalatriðið er að það bil minnki verulega frá því sem nú er og hefur verið. Hitt er svo einnig ekki síður kappsmál víða úti um land, að hafa næga raforku, en búa ekki við skort, eins og gerist í ákveðnum landshlutum því að þar fæst ekki raforka til húshitunar nema að mjög takmörkuðu leyti vegna skorts á raforku.

Um þetta fyrirkomulag um verðjöfnunargjald á raforku má auðvitað deila. En ósköp finnst mér leiðinlegt að heyra í þessum umr. og þá alveg sérstaklega hjá 7. þm. Reykv. í gær, að það sé verið að leggja skatt á Reykvíkinga. Það er ekki verið að leggja skatt á Reykvíkinga umfram aðra landsmenn. Það er verið að leggja með þessu verðjöfnunargjaldi skatt á alla rafmagnsnotendur í landinu hvar sem þeir búa. En því hærra sem rafmagnsverðið er víða úti á landi, þeim mun hærri verður þessi skattur á þeim rafmagnsnotendum en á þeim sem búa við betri kjör á raforkunni. Hér er því alveg rangt frá sagt í þessum efnum og alltaf verið að reyna að koma því inn, að verið sé að skattleggja einhverja ákveðna hópa. Hitt er svo annað mál, að þegar verðjöfnunargjaldið rennur í verðjöfnunarsjóð, þá nýtur landsbyggðin auðvitað tekjuöflunarinnar á þennan hátt. Það er höfuðatriði þessa máls varðandi landsbyggðina. En landsbyggðarfólk verður jafnt að borga þessa skatta sem fólkið hér á þéttbýlissvæðinu, að öðru leyti en því, að það borgar yfirleitt mun hærri skatt vegna hærra raforkuverðs.

Í tillögum Rafmagnsveitnanna segir að þar hafi verið miðað við að leysa bæri fjárhagsvanda RARIK fremur með því, að ríkissjóður, sem er eigandi stofnunarinnar, yfirtæki hluta af fjármagnskostnaði, en að hækka í sífellu smásölugjaldskrá Rafmagnsveitnanna, sem leitt hefur til hins mikla mismunar á raforkuverði hjá notendum Rafmagnsveitnanna annars vegar og notendum sveitarfélagarafveitna hins vegar. Ég tek alveg undir þessa skoðun og hefði talið æskilegt að fyrri ríkisstjórn eða fyrri ríkisstjórnir — þetta er nú orðið gamalt og erfitt vandamál — hefðu frekar farið inn á þá braut að styrkja Rafmagnsveiturnar að því er lýtur að félagslegri hlið á starfsemi þeirra. Það er ekki hægt að líta á starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins sem viðskiptafyrirtækis eingöngu, því að á þeim hvílir sú skylda að leggja mikið fjármagn í raflínur sem fyrir fram er vitað að borgi sig engan veginn. Það köllum við félagslega hlið þessa máls. Því hefði mátt létta byrðum af Rafmagnsveitum ríkisins af þessari ástæðu einni saman. Það má gera með ýmsu móti. Það má gera með því móti að ríkissjóður taki hluta af lánum Rafmagnsveitna ríkisins á sig. Það má líka hugsa sér að breyta þeim lánum eitthvað, þannig að ekki kæmi til mikillar útborgunar hjá ríkissjóði á næsta ári vegna þeirra erfiðleika sem nú eru í efnahagsmálum. Þessa leið hefði verið að mínum dómi langæskilegast að fara, því að með verðjöfnunargjaldinu er verið að breikka bilið á milli þeirra, sem njóta bestra kjara, og hinna, sem verða að búa við lakari kjör. Og við megum ekki heldur líta eingöngu á raforkuna í þessu sambandi, heldur verðum við einnig að líta á hitunarkostnaðinn, þann gífurlega mun sem er á kostnaði við húshitun á stöðum, sem hafa hitaveitu, og öðrum, sem annaðhvort búa við rafmagn eða verða að hita upp með olíu, sem sífellt fer hækkandi — og enn er von á góðu í þeim efnum eins og öllum er ljóst af atburðum og fréttum að undanförnu frá olíuframleiðsluríkjum.

Það er ekki óeðlilegt, þegar mál eins og þetta er til umr., að okkur, sem erum umboðsmenn fyrir kjördæmi úti á landi sem eiga við mikla erfiðleika að stríða í þessum efnum, verði hugsað til þess, hvernig gangi með þær framkvæmdir sem verið er að berjast fyrir á sama tíma og talað er um að skera allt niður. Það eru takmörk fyrir því, hvað má skera niður, hvað er hægt að láta bíða. Sumar framkvæmdir er hægt að láta bíða í nokkur ár, aðrar framkvæmdir er sumar hægt að láta bíða og sumar engan veginn.

Meðal þess, sem ég tel að þurfi að hraða, er hin svokallaða Vesturlína. Um það urðu nokkuð snarpar umr. í Sþ. fyrr á þessum vetri. Lánsfjáráætlun ríkisstj. er ekki komin fram, en ég hef heyrt að í stað þess, sem hæstv. iðnrh. sagði við þær umr. sem ég vitnaði í áðan, að hann legði á það höfuðáherslu að þessari framkvæmd yrði lokið á næstu tveimur árum eða haustið 1980, þá sé enn búið að skera fjárveitinguna niður á þann veg að þetta verði þriggja ára framkvæmd. Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. að því, hvort þetta sé rétt eða hvort það standi sem hann sagðist mundu leggja áherslu á í haust, að raforka verði komin, þannig að tryggt verði að hægt verði að tengja byggðalínuna við Þverárvirkjun og rafmagn komist a.m.k. á í þéttbýlustu hreppum Vestur-Barðastrandarsýslu og með tengingu við Þverárvirkjun í Strandasýslu. Ég er hræddur um að það verði erfitt fyrir starfsemi Orkubús Vestfjarða ef þessi bráðnauðsynlega framkvæmd dregst lengur.

Ég hefði kosið að fara þá leið til þess að leysa úr fjárhagsvandræðum Rafmagnsveitna ríkisins sem ég lýsti hér áðan. Ég vil ennfremur spyrja hæstv. iðnrh. að því, hvort hann telji ekki möguleika á því að fá samstöðu um það í ríkisstj. og innan stjórnarliðsins og jafnvel víðtæka samstöðu við stjórnarandstöðuna að leysa vandamál Rafmagnsveitnanna með þessum hætti. Ennfremur er vandi Orkubús Vestfjarða að sama skapi mjög mikill. Ef allt þetta þrýtur og ef þetta er ekki hægt að gera, sem ég tel nú að verði frekar til sátta á milli þm., sérstaklega þeirra sem mælt hafa gegn þessu frv., þá auðvitað sér maður að ef ríkisstj. eða stuðningslið hennar vill ekki gera neitt í þessum efnum, þá verður ekki hjá því komist að auka tekjur Rafmagnsveitna ríkisins og þar með Orkubús Vestfjarða, þó að það sé sjálfstætt fyrirtæki. Þegar þetta liggur fyrir verður auðvitað að láta sjá hvort þetta frv. nær fram að ganga, ef hin leiðin er talin ófær, sem að mínum dómi er miklu æskilegri. Og ég hygg að flestir þm. mundu sætta sig miklu frekar við þá leið og þá þyrftu ekki flokkafylkingar að riðlast um þetta mál, því að þetta verðjöfnunargjald hefur löngum verið mjög umdeilt hér á hv. Alþingi.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en óska eftir að hæstv. iðnrh. gefi svör við þessum spurningum.