21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1876 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

146. mál, heimild til lántöku vegna lánsfjáráætlunar 1978

Frsm. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um þetta mál og gefið út nál. á þskj. 264, þar sem n. mælir einróma með því að frv. verði samþ. og þá óbreytt. Eftir að n. hafði fjallað um málið kom í ljós, að óskað var eftir því af hálfu fjmrn. að gerð yrði breyting á frv., þ.e.a.s. bætt yrði við einni nýrri grein í frv. N. hefur nú haft þessa beiðni til athugunar og fallist á að flytja sérstaka brtt. sem ekki hefur unnist tími til þess að útbýta, en verður gert innan skamms. Ég legg þessa brtt. fram sem skriflega till. sem verður að leita afbrigða fyrir, en till. er á þessa leið:

„Á eftir 3. gr. komi ný grein, sem orðist svo: Fjmrh. f.h. ríkissjóðs eða Póst- og símamálastofnunarinnar er heimilt að taka lán til byggingar jarðstöðvar og sjálfvirkrar millilandasímstöðvar er nemi allt að 1550 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.“

Af þessari brtt. leiðir að núv. 4. gr. frv. verði 5. gr. og hljóði þannig: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Það hefur sem sagt komið í ljós, að það skortir á heimildir til lántöku í sambandi við þann samning sem gerður hefur verið, þær skuldbindingar sem þegar hefur verið gengist undir í sambandi við þessa framkvæmd, sem öllum hv. alþm. er kunnugt um. N. var gerð grein fyrir hvernig mál stæðu. Það er augljóst að hér er um að ræða að veita sams konar heimild og þær aðrar sem eru fyrir í þessu frv., þar sem heimild skortir til þess að standa við þá samninga sem gerðir hafa verið, svo að hægt sé að ganga formlega frá þeim lánum sem þar er um að ræða.

Einn nm., hv. þm. Kjartan Ólafsson, hefur fyrirvara á um afstöðu til þessarar till., en að öðru leyti stendur öll n.brtt. sem ég var að lesa og væntanlega verður útbýtt innan skamms.

Það er sem sagt till. fjh.- og viðskn., að frv. verði samþ. með þessari breytingu.