21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (1524)

146. mál, heimild til lántöku vegna lánsfjáráætlunar 1978

Frsm. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég vil að gefnu tilefni láta það koma skýrt fram, sem ég hélt að hefði komið skýrt fram í máli mínu áðan, að þær heimildir, sem er verið að veita með þessu frv., eru til þess að standa við samninga sem búið er að gera. Með því erum við út af fyrir sig ekki að taka neina afstöðu til þess, hvort við vorum með því á sínum tíma að þessar ákvarðanir voru teknar. Ég tel hins vegar eðlilegt að þm. láti í ljós skoðun sína, hvort þeir séu samþykkir viðkomandi verki eða ekki. En það er annað mál.

Þegar ég styð þetta frv. sem heild með þeirri heimild, sem felst í þessari brtt., og heimildum í öðrum greinum frv., þá er það fyrst og fremst til þess að standa við það, sem búið er að sem ja um að gera, og veita nauðsynlegar heimildir í því skyni, og ég hef ekki heyrt neinn ágreining hafðan uppi um það. Það skal hins vegar tekið fram, að á þeim skamma tíma, sem fjh.- og viðskn. hafði til ráðstöfunar í sambandi við afgreiðslu þessa máls, var ekki mættur þar á fundinum hv. þm. Vilmundur Gylfason og hinn fulltrúi Alþfl. gat aðeins setið stuttan tíma á þeim fundi. Ég varð þó ekki var við að það yrði neinn ágreiningur um, að till. væri flutt í nafni n., nema aðeins að þess var óskað af einum þm., hv. þm. Kjartani Ólafssyni, að það kæmi fram, að hann vildi hafa óbundnar hendur um afstöðu til tillögunnar.

Aðalatriðið er að sjálfsögðu það, að frv., sem hér er um að ræða, og þá einnig sú brtt., sem hér liggur fyrir, eru um að veita heimildir til að ganga lögformlega frá því sem búið er að samningsbinda og ákveða. Ég treysti mér ekki til þess að neita um neitt slíkt, hvað svo sem líður afstöðu til þeirra mála sem um er að ræða.