21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1879 í B-deild Alþingistíðinda. (1525)

146. mál, heimild til lántöku vegna lánsfjáráætlunar 1978

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. að þessu sinni frekar en ég hef gert á þessu þingi sem nú stendur yfir. En ég vil segja um þetta mál það sama og hv. 1. þm. Austurl. sagði, að það er ekki nema eðlilegt að standa að því sem þegar er búið að ákveða og skuldbinda sig til að gera — því verður meiri hl. þings jafnan að standa að, hvernig sem honum sýnist málin vera. Og það væri óskynsamlegt, bæði í þessu máli og öðrum, ef ætti að hætta við hálfnað verk.

En um málið vil ég segja það sama og hv. 3. þm. Vesturl. sagði áðan, sem ég vil þakka því að þar var talað af skilningi, að land okkar getur ekki verið lengi sambandslaust við umheiminn, eins og það hefur verið nú um skeið. Það hefur tekið marga klukkutíma að ná sambandi við aðrar þjóðir, því að Skotlandsstrengurinn hefur verið bilaður, er kominn í lag fyrir nokkrum dögum, en hinn, sem hafði bilað áður, er alvarlega bilaður nú, þ.e. strengurinn til vesturs.

Ég tek líka undir það, að þetta mál er eitt af lokaþáttum í sjálfstæðisbaráttu okkar, því að við höfum ekki haft full yfirráð yfir fjarskiptum okkar fyrr en við náum þeim nú.

Ég vil í sambandi við málið segja einnig, að það var samstaða í fyrrv. ríkisstj. um þetta mál og þáv. hæstv. fjmrh., sem fór með fjármálin, studdi þetta mál vel og drengilega og ber að meta það og virða. Ég er því ekkert hræddur um að fyrir þessu máli sé ekki mikill meiri hl. á hv. Alþ., enda hefur málið tvær hliðar sér til stuðnings: þetta sem hv. 1. þm. Austurl. sagði um eðlilega afgreiðslu þingmeirihl. hverju sinni á verkum sem þegar er verið að vinna, og svo er málið gott í eðli sínu.