21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1879 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

146. mál, heimild til lántöku vegna lánsfjáráætlunar 1978

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Mig langar til þess, í fyllstu vinsemd auðvitað, að fara þess á leit við jafnágætan mann og hv. þm. Lúðvík Jósepsson, sem er formaður í fjh.- og viðskn., að næst þegar hann flytur nál. fyrir hönd n. sé það borið undir nm. Þannig var, það er eins og oft vill vera, að boðaður var fundur í n. í mikilli skyndingu og við fulltrúar Alþfl. vorum uppteknir á öðrum fundi og gátum ekki með hálftíma fyrirvara setið þennan fund. Í þessari n. hefur verið ákaflega góð samvinna og formaður n. er áreiðanlega í fremstu röð að því er tekur til starfshátta í þeirri n. sem hann veitir forstöðu, svo að ég vil mælast til þess í allra fyllstu vinsemd, að næsta till., sem fram er borin af fjh.- og viðskn., sé borin undir nm.

Ég veit að hér er um afskaplega smávægileg mistök að ræða og sem óþarfi er að hafa um fleiri orð. En ég vil af þessum ástæðum, herra forseti, óska eftir örstuttum fresti á atkvgr. um þetta mál. Ég vil fá að bera það undir samstarfsmenn mína og þá sérfræðinga, sem ég hef leitað til undir slíkum kringumstæðum. Eins og þetta er í pottinn búið hygg ég, að þetta sé sanngjörn beiðni.

Hv. þm. Matthías Bjarnason fór um þetta nokkrum orðum og gerði auðvitað Alþfl. að umræðuefni, enda er það vinsælt umræðuefni. Og hv. þm. taldi sér sæma að gera gys að Gullu litlu, barninu sem við erum að hlaða á skuldaböggum. Ég verð nú að segja það, að ég veit að hv. þm. er gamansamur maður, en Gulla litla, sem við erum að hlaða á skuldunum, þykir mér satt að segja vera hæpið gamanmál og vil enn fremur í fyllstu vinsemd mælast til þess við þennan ágæta og hv. þm., að hann velji sér annan gamanvettvang en börnin, sem við erum að hlaða á hinum erlendu skuldum. Ég nefni, að ef hann vill finna kímnigáfu sinni útrás, þá er Alþfl, miklu hentugri en Gulla litla eða önnur börn í þessu samfélagi.

Allt um það, vegna þess hvernig þetta er í pottinn búið, er mér fullljóst að í frv. er aðeins um að ræða heimild, en ég óska eftir örstuttum fresti til að fá að bera þetta undir þá menn sem ég treysti til að ráða heilt í þessum efnum.