21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

146. mál, heimild til lántöku vegna lánsfjáráætlunar 1978

Frsm. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það er í sambandi við það sem hv. 7. þm. Reykv. sagði.

Ég vil í fyrsta lagi vekja athygli á því, að nál. fjh.- og viðskn. liggur fyrir á þskj. 264 og er undirskrifað af þeim sem þar voru mættir. N. hafði því afgreitt frv. eins og það lá fyrir. Hér var aðeins um það að ræða, að það var beðið um að flutt yrði brtt. við frv. til viðbótar við skilað nál. Það var haldinn fundur í n. og n. féllst á að gera þetta af því að það þótti eðlilegt og í fullu samræmi við fyrri afgreiðslu í n. En það er rétt, og það hafði ég þegar tekið fram áður, að hv. þm. Vilmundur Gylfason var ekki mættur á fundinum og hinn fulltrúi Alþfl. átti aðeins setu stuttan tíma á fundinum. Hér er því ekki um það að ræða að farið væri með nál. án þess að nm. væri gefinn kostur á að fylgjast með. En það er rétt, að n. samþykkti á fundi sínum í dag að flytja þessa brtt.

Nú hefur komið fram ósk um að veittur verði nokkur frestur á atkvgr. í málinu til þess að nm. geti frekar skoðað þetta mál. Ég hef ekkert við það að athuga, ég tel ósköp eðlilegt að málinu sé frestað um nokkurn tíma. En ég tel að það sé þörf á því að flýta þessu eins og öðrum málum sem hér liggja fyrir og að sá frestur þyrfti þá að vera sem stystur. Mér sýnist að hvað svo sem líður ágreiningi manna um það verk sem hér er um að ræða, sé alveg augljóst af þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, að við eigum þarna um tvo kosti að velja: annaðhvort að búa að þeim bráðabirgðalánum, sem tekin hafa verið, eða að veita heimild til þess að ganga frá formlegu láni í samræmi við þá samninga sem gerðir hafa verið. Ég sé því ekki að það sé margra kosta völ í þessum efnum úr því sem komið er.

Ég get fallist á það fyrir mitt leyti, að veittur sé frestur samkv. þeirri beiðni, sem hér hefur komið fram, til þess að menn geti athugað betur þessa tillögu.