24.10.1978
Sameinað þing: 8. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þeim umr., sem hér hafa átt sér stað og hv. 3. landsk. þm. hóf. Ég verð þó að harma að í frumræðu hans var mikið um það, að hann reyndi að stefna launþegum gegn atvinnurekendum o.s.frv. Ég vil undirstrika það, vegna þess að ég telst líklega í hans herbúðum andstæðingur þeirra sem hann þykist þó óumbeðinn verja hér á Alþ., að ég lít svo á að hagsmunir fólks fari saman hvar í þjóðfélaginu sem það vinnur, hvort sem eru sjálfstæðir atvinnurekendur eða launþegar. Ég veit ekki til þess að hv. 3. landsk. þm. hafi unnið mikið erfiðisstörf um ævina, og ég veit ekki heldur til þess að hann hafi verið kjörinn sérstaklega af fólki, sem vinnur erfiðisvinnu, til að tala fyrir þess hönd eins og hann hefur gert. Ég lít á hann sem sjálfskipaðan, hálfgerða boðflennu inn í málefni þessa launafólks, en við viljum allir gera veg þess sem mestan og viljum náttúrlega starfa að bættum kjörum þess ekki síður en allra annarra þjóðfélagsþegna og hlið við hlið með hvaða stétt sem er, ekki stefna einni stétt gegn annarri.

En það, sem kemur mér til að standa hér upp, er málflutningur Morgunblaðsins í dag. Á annarri síðu Morgunblaðsins í dag er sagt frá nefndarkjöri sem fram fór á Alþ. í gær, þ.e. til fjvn. Er þar talið upp hverjir voru kosnir í þá n. fyrir hönd Sjálfstfl. Fréttin ber yfirskriftina: „Albert hafnaði boði Ellerts.“ Ég veit ekki hver fréttamaður Morgunblaðsins er á trúnaðarfundum þingflokks Sjálfstfl., en fréttin sem berst út af þingflokksfundi Sjálfstfl. — ég vil taka fram að ég var ekki á seinni hluta þess fundar — er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Albert Guðmundsson alþm. hafnaði boði Ellerts B. Schram, sem Ellert gerði honum á þingflokksfundi í síðustu viku, að hann viki sæti fyrir Albert í fjvn. Alþingis. Albert tók ekki boði Ellerts þar sem hann taldi sig ekki hafa tíma til þess að starfa í nefndinni.“

Ég undirstrika það, að ég veit ekki hvern Morgunblaðið hefur sem trúnaðarmann á fundum þingflokks Sjálfstfl., en hér er rangt með farið. Það er þó rétt, að Ellert B. Schram átti við mig trúnaðarsamtal hér í hliðarsölum Alþingis. Ég veit ekki, en hef þó heyrt að hann hafi sagt frá því á þingflokksfundi, en þá að mér fjarstöddum. Ég benti Ellert B. Schram á að fram hefði farið formgallalaus kosning manna til fjvn. innan þingflokks

Sjálfstfl., þar sem ég hefði ekki verið í framboði, og hvorki hann né nokkur annar þingflokksmeðlimur gæti breytt þeirri niðurstöðu. Því væri svokallað tilboð hans sýndarmennska eingöngu.

Ég vil leiðrétta það sem segir í grein Morgunblaðsins í dag á annarri síðu. Ég hafnaði ekki neinu boði frá Ellert B. Schram á þeim forsendum að ég hefði ekki tíma til að gegna þingstörfum í fjvn. eða annars staðar. Ég var ekki í framboði, tók ekki þátt í þeirri kosningu. Því segi ég: Upplýsingarnar, sem Morgunblaðið gefur í dag, eru rangar. Frétt þessi er ódrengileg, því að hún er ósönn. Og mér er óskiljanlegur tilgangur hennar. Ég trúi ekki að nokkur meðþm. minna úr Sjálfstfl. sé heimildarmaður Morgunblaðsins. Til þess að undirstrika svo að ekkert fari á milli mála að ég segi satt vil ég kveðja til og skora á formann þingflokks Sjálfstfl. að koma í ræðustól og staðfesta að það, sem ég hef sagt hér, er rétt frá skýrt.

Hitt er svo annað mál, að það getur verið að Ellert B. Schram og aðrir þm. Sjálfstfl. hefðu gjarnan viljað bæta eitthvað fyrir það, að 1. þm. Reykv. var ekki talinn brúklegur í neina þingnefnd.