21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1884 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

146. mál, heimild til lántöku vegna lánsfjáráætlunar 1978

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths., sem ég vil að komi hér fram. Menn verða í umr. eins og þessum að greina á milli áætlana um lánsfjártöku, sem þegar hafa verið bundnar af fyrrv. ríkisstj., og þeirra sem e.t.v. eru fyrirhugaðar. Álit mitt á þessu máli er einfaldlega það, að hafi fyrrv. ríkisstj. tekið ákvörðun í þessu máli, þá beri þinginu að standa við þá ákvörðun. Svo einfalt er málið í mínum huga. Hér er ekki um að ræða lántökur til nýrra framkvæmda. Það eru þau atriði sem Alþfl. hefur gagnrýnt og verið á móti og mun verða á móti. Ég vil nefna sem dæmi, að ég mun standa grimmilega gegn því, að tekið verði lán t.d. til nýrra framkvæmda eins og Bessastaðaárvirkjunar. En þetta mál er þess eðlis, að það er ekki nokkur leið fyrir hv. Alþ. að fara að breyta ákvörðunum sem fyrrv. ráðh. og ríkisstj. hefur tekið og búið er að gera samninga um. Við mundum gera okkur að athlægi í augum þeirra manna, sem við höfum gert samninga við, og þess vegna ber okkur að samþykkja þessa lántökuheimild alveg hiklaust.

Ég vil líka, áður en ég lýk máli mínu, á þessari stundu segja það, að mér finnst orðið býsna undarlegt hvernig hv. sjálfstæðismönnum hér í d. tekst að blanda Alþfl. inn í allar umr. Það getur vel verið að það sé gaman að þessu einu sinni eða tvisvar, en þegar það er orðið 4–5 sinnum, þá er það leiðinlegt. Og þær umr., sem hér hafa farið fram um tafir Alþfl. á þingstörfum, eru marklausar, því að þessar tafir eru ekki meiri en það, að gærdagurinn nægði ekki einu sinni til þess að ræða um verðjöfnunargjald af raforku. Það varð að fresta þeirri umr. Fram eru að koma tafir af hálfu þm. Sjálfstfl. á þingstörfum vegna þess að þeir hafa ekki getað komið sér saman um skipun manna í nefndir og ráð. Það verður þingflokksfundur í dag hjá Sjálfstfl. og verður að fresta þingfundum þess vegna. Og ég vil taka það fram, að þessi umr. er að mínu mati fyrir neðan virðingu þessarar deildar.