21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1886 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

146. mál, heimild til lántöku vegna lánsfjáráætlunar 1978

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leiðrétta þann misskilning sem kom fram í ræðu hv. þm. Árna Gunnarssonar.

Á dagskrá Sþ. í dag kl. 2 voru kosningar í nefndir, ráð og stjórnir, sem raunar hafa einnig áður verið á dagskrá Sþ. Ástæðurnar til þess, að hæstv. forseti Sþ. frestaði þessum málum, og mér skilst að kosningarnar fari fram á morgun, voru þær, að deildir Alþ. þyrftu á þessum starfstíma að halda. Það er líka ljóst, að svo er a.m.k. um þessa hv. d. og einnig um hv. Ed., sem að vísu hefur tekið sér fundarhlé nú til þess að n. á hennar vegum gætu athugað stjfrv. sem þar liggja fyrir. M.ö.o.: það er alls ekki eftir kröfu eða ósk Sjálfstfl. sem kosningarnar fara ekki fram í dag, heldur af þessum þinglegu ástæðum. Hitt er svo annað mál, að Sjálfstfl. ætlar í kaffihléi kl. 4 að halda þingflokksfund, m.a. og ekki síst til þess að ræða um fjárl. sem verða til 3. umr. í kvöld. — Ég vildi leyfa mér að leiðrétta þennan misskilning.