24.10.1978
Sameinað þing: 8. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Mér fannst þessi umr. í gær allsendis óþörf, reyndar vegna þess að gerð er að umræðuefni ákveðin frétt í Morgunblaðinu. Ætla mætti eftir því, að það, sem ekki yrði tekið fyrir á Alþ. varðandi fréttaflutning Morgunblaðsins, væri heilagur sannleikur, sem er vissulega víðs fjarri. Síðan endar þessi umr. sjálfsagt á því, að okkur er sýnt ofan í ljónagryfju Sjálfstfl. og er nokkur skemmtun að því, en ég mun halda mig við upphafið.

Varðandi samráð ríkisstj. við verkalýðshreyfinguna verð ég að segja það, að ég hygg að það sé í besta lagi eins og til var stofnað þegar ríkisstj. var mynduð. Ríkisstj. var mynduð með vitund og vilja verkalýðshreyfingarinnar, þ.e.a.s. eftir hvatningu verkalýðshreyfingarinnar, til að afstýra því að sá kjaraskerðingarher, sem áður ríkti hér, næði að stjórna í landinu.

Sá fundur, sem haldinn var í fjmrn. um daginn varðandi fyrirkomulag á þessu samráði, fjallaði um það eitt, hvernig þetta samráð ætti að vera í framtíðinni. Ég vil að gefnu tilefni upplýsa það, að fjmrh. ræddi sérstaklega um að sjómannasamtökin yrðu höfð með í ráðum og einnig Bandalag háskólamanna, þó að þau samtök hefðu ekki verið boðuð til þessa fundar.

Varðandi nefnd Alþýðusambandsins, sem var kosin áður en þessi ríkisstj. var mynduð, er það að segja, að í henni eru allra flokka menn. Þar starfar einn af verkalýðsleiðtogum þeim er fylgja Sjálfstfl., og ég vil ítreka það, sem kom fram í gær, að auðvitað starfar hann á jákvæðan hátt, enda eins og hans er von og vísa, og um það samráð, sem haft hefur verið hingað til, hefur ekki annað sést en hann væri alveg með á nótunum eins og aðrir.

Hvað verslunarmönnum viðvíkur, þá verður að segja að aðstaða þeirra er allt önnur en annarra launþegasamtaka vegna þess að þeir hafa dregist hrikalega aftur úr undanfarna mánuði. Það er yfirlýst af Alþýðusambandinu, að það hafi fullan skilning á því, að þeir reyni að rétta sinn hlut.

Mér er ekki kunnugt um að sjómannasamtökin hafi lýst yfir ákveðinni andúð á ríkisstj. Það er úr lausu lofti gripið. Hitt má vera, að einhverjir forustumenn þar séu andvígir ríkisstj., eins og við má búast. Reyndar er það svo, að Alþýðusambandið skoraði á aðildarfélög sín að framlengja samninga sína. Ég býst við að sjómannasamtökin geri það ekki, vegna þess að þeirra kjörum er allt öðruvísi háttað en kjörum landverkafólks.