21.12.1978
Neðri deild: 42. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1896 í B-deild Alþingistíðinda. (1555)

145. mál, almannatryggingar

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. frsm. heilbr.- og trn. skrifum við Jósef H. Þorgeirsson undir nál. með fyrirvara. Við erum sammála um þá lækkun sem þetta frv. felur í sér. Er talið í aths. að ætla megi að breytingar frá núgildandi lögum rýri innheimtar tekjur ríkissjóðs af sjúkratryggingagjaldi um 1450 millj. kr. frá því sem áætlað var í fjárlagafrv. Hins vegar kemur hér ekki fram það sem er í fjárlagafrv., að ætlunin er að hækka þau gjöld sem sjúklingar greiða sérfræðingum fyrir þjónustu þeirra, sömuleiðis aukin þátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði og röntgenmyndun. Er áætlað í fjárlagafrv. að þessi gjöld séu um 940 millj., svo að hér er ekki um mikla lækkun að ræða ef við lítum á málið í heild. Ég vildi að þetta kæmi fram. Að öðru leyti er ég samþykkur þessu frv. og við tveir, sem skrifum undir nál. með fyrirvara, en vildum gjarnan að þetta kæmi fram.

Jafnframt vil ég lýsa yfir ánægju minni með þau snöggu umskipti sem tveir flokkar hafa tekið í afstöðu sinni til þessa máls, en það eru bræðraflokkarnir Alþb. og Alþfl. sem hafa barist mjög hart gegn þessu gjaldi á undanförnum tveimur árum og hafa talið það í alla staði ranglátt og haft um það stór orð og stundum dálítið ljót í leiðinni. En nú hafa þeir skipt um skoðun og telja að þessi fjáröflun sé eðlileg og sjálfsögð. Ég fagna því, að þeir hafa tekið sinnaskiptum og séð að það er ekkert óeðlilegt við það í landi, þar sem samfélagið greiðir til heilbrigðis- og tryggingamála jafnmikið og raun ber vitni, að þeir, sem þurfa á sérfræðingum, lyfjum og öðru að halda, greiði lítið brot af kostnaði við það.