21.12.1978
Neðri deild: 43. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1897 í B-deild Alþingistíðinda. (1566)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Í framhaldi af ræðu hv. 2. þm. Norðurl. v., Pálma Jónssonar, vil ég leyfa mér að hefja mál mitt nú með því að biðja hv. þm. Pálma Jónsson afsökunar á því að hafa tekið of djúpt í árinni þegar ég hafði eftir honum að hann hefði neitað að skrifa undir bréf framkvæmdastjóra RARIK. Rétt er að hv. þm., sem er formaður stjórnar RARIK, taldi ekki rétt að skrifa undir umrætt bréf, eins og kom fram í hans máli fyrr í dag, vegna þess að innihald þess hefði ekki verið lagt fyrir stjórn fyrirtækisins, stjórn Rafmagnsveitna ríkisins. En eftir stendur óhaggað, að þetta bréf, sem hæstv. ráðh. taldi vera bréf frá stjórn RARIK, er bréf frá starfsmanni RARIK, framkvæmdastjóranum eingöngu. Bréf Sambands ísl. rafveitna er hins vegar frá stjórnanda þess sambands og er þar af leiðandi stjórnarbréf, enda hefur það komið fram hjá öðrum hv. ræðumanni hér, hv. 8. þm. Reykv., að hann hafi borið það bréf undir alla stjórnina nema einn stjórnarmeðlim. Bæði þessi bréf hafa verið lesin hér, og til þess að koma nú að sameiginlegu bréfi, sem báðir hafa undirritað, formaður Sambands ísl. rafveitna og rafmagnsveitustjóri ríkisins, Kristján Jónsson, þá ætla ég — með leyfi hæstv. forseta — að lesa það bréf, þótt allir þm, hafi fengið það á borðið til sín, en það hljóðar svo.

„Vegna umræðna og frétta í fjölmiðlum um verðjöfnunargjald af raforku vilja Samband ísl. rafveitna og Rafmagnsveitur ríkisins taka fram eftirfarandi:

Þegar grg. Sambands ísl. rafveitna, dags. 15. 12. 1978, var send alþm. og fjölmiðlum, var haft samband við þá stjórnarmenn Sambands ísl. rafveitna, sem til náðist, og hún efnislega borin undir þá. M.a. tókst ekki að ná til rafmagnsveitustjóra ríkisins, sem á sæti í stjórn Sambands ísl. rafveitna, þar sem hann var staddur utanbæjar. Ef rafmagnsveitustjóra hefði gefist kostur á að sjá grg. Sambands ísl. rafveitna hefði hann gert grein fyrir afstöðu Rafmagnsveitna ríkisins til málsins og óskað eftir breytingu á ýmsum köflum í grg. Sambands ísl. rafveitna í samræmi við það sem fram kemur í grg. Rafmagnsveitna ríkisins um sama efni, dags. 17. 12. 1978. Samband ísl. rafveitna er og kunnugt um að Orkubú Vestfjarða treystir sér ekki til að mótmæla hækkun verðjöfnunargjalds meðan ekki er fundin önnur leið til að leysa fjárhagsvanda þess fyrirtækis. Samband ísl. rafveitna og Rafmagnsveitur ríkisins telja að í fyrrgreindum greinargerðum hafi sjónarmiðum hvors aðila verið gerð full skil.“

Undir þetta skrifa, eins og ég tók fram, Aðalsteinn Guðjohnsen, formaður Sambands ísl. rafveitna, og Kristján Jónsson rafmagnsveitustjóri ríkisins. Hér hafa sem sagt báðir aðilar orðið sammála, og ég verð að segja alveg eins og er, að sjónarmið beggja er það sama. Ætla ég ekki að vitna frekar í bréf Sambands ísl. rafveitna, en aðeins að rifja hér upp, að í bréfi Rafmagnsveitna ríkisins segir á 3. bls., með leyfi forseta:

„Stofnunin hefur því gert tillögu um óendurkræf framlög úr ríkissjóði til að mæta þessum vanda og treystir því, að það verði gert að nokkru á þann hátt, sbr. yfirlýsingu iðnrh. á Alþ. 15. des. s.l. Meðan verið er að afla þessari stefnu nægilegs skilnings verður að líta á hækkun verðjöfnunargjalds sem tímabundna ráðstöfun til að brúa þetta bil að hluta.“

Sem sagt, það er til vara, en ósk Rafmagnsveitna ríkisins og Sambands ísl. rafveitna er að verðjöfnunargjaldið falli þá frekar niður en að vera hækkað og komi óendurkræft framlag úr ríkissjóði til þess að lækna þann mikla fjárhagsvanda sem Rafmagnsveitur ríkisins eru í. Þar með vil ég svara því innskoti, sem kom frá hv. 1. þm. Austurl. áðan þegar hv. 8. þm. Reykv. var að tala, en hann taldi að þetta verðjöfnunargjald ætti ekki að fara til þess að mæta þeim rekstrarhalla og þeim skuldum sem á Rafmagnsveitum ríkisins hvíla. Að sjálfsögðu er það svo, og kemur skýrt fram í bréfi Rafmagnsveitna ríkisins að svo á að vera. Ef hæstv. ríkisstj. hefur í huga að verðjafna raforkuna á þann hátt sem hv. 1. þm. Austurl. gat um, af hverju er þá verið að leggja þetta verðjöfnunargjald á þá sem greiða hæsta raforkuverðið? Af hverju þá ekki að gera till. um að þeir, sem greiða lægsta verðið, standi einir undir þessu verðjöfnunargjaldi? Ég er ekki að leggja þetta til, en mér fyndist þetta réttlátari aðferð, þannig að það væri þá með lögum tryggt að þetta verðjöfnunargjald færi til fólksins sem greiðir hæsta gjaldið, en ekki til að standa undir rekstrarhalla eða offjárfestingu ríkisfyrirtækis eins og Rafmagnsveitna ríkisins. Ég er ekki að leggja þetta til, ég tek það fram.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta mál miklu meira en ég hef gert. En ég legg eindregið til að þessi 6% hækkun á verðjöfnunargjaldinu, sem lögð er nú til, verði ekki samþykkt.Ég ítreka að það er alveg nóg hækkun í krónutölu sem Rafmagnsveiturnar fá með því að það virðist vera stuðningur hér á hv. Alþ. fyrir því, að 13% gjaldið haldi sér a.m.k. í bili, og það er lagt á hærri gjaldstofn en áður. Sú hækkun í krónutölu ætti að nægja Rafmagnsveitum ríkisins það starfsár sem fram undan er og eins til að hlaupa undir bagga í þeim miklu fjárhagsvandræðum sem það fyrirtæki er í.