24.10.1978
Sameinað þing: 8. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þakka formanni þingflokks Sjálfstfl., hv. 11. þm. Reykv., fyrir að staðfesta að ég fór með rétt mál í ræðustól fyrr í dag. Ég verð að segja að mér líður eins og manni sem hefur tekist að hreinsa mannorð sitt.

Að lokinni niðurröðun Alþingis í nefndir blasir við sú staðreynd, að starfsvettvangur minn hlýtur að helgast af mjög sjálfstæðum málflutningi í sölum Alþingis, úr því að ég hef ekki tækifæri til að koma skoðunum á framfæri í hinum ýmsu þn. Mun ég að sjálfsögu gegna þingmannsstörfum mínum á þann hátt, að stuðningsfólk mitt telji mig ekki hafa brugðist vonum þess þegar upp verður staðið.