21.12.1978
Neðri deild: 44. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1904 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Mér þykir fyrir því ef ég hef sært menn með þögn minni hér fyrr í dag. Ástæðan fyrir því, að ég tók ekki til máls við lok 2. umr., var sú, að ég taldi að ég hefði áður fjallað um þá leið, sem hv. þm. Gunnar Thoroddsen mælti með í ræðu sinni fyrir hönd flokks síns, og talið að það væri ekki ráðrúm til þess að fara hana þó að hugur ýmissa alþm. stæði til þess. Við erum á þessum sólarhring að ljúka afgreiðslu fjárlaga og ég tel óraunsæi að reikna með því, að hægt sé að taka,þau mál upp þannig að sættir mættu takast um beint framlag á fjárl. sem nemi þeirri upphæð sem hv. þm. lagði til.

Ég vil þakka þann stuðning sem fram hefur komið hjá hv. alþm. og þá ekki síst nokkrum þm. stjórnarandstöðunnar við frv. sem hér liggur fyrir. Ég met það mikils og ég vil að það komi hér fram, að þau viðhorf, sem hafa komið fram í umr. um þetta mál, verða tekin til athugunar. Ég fagna því, hversu almennur stuðningur hefur komið fram við það viðhorf hjá mjög mörgum hv. þm., að réttmætt sé að breyta verulega um stefnu í fjárveitingum og fjármögnun Rafmagnsveitna ríkisins í framtíðinni, að ætla bein fjárframlög frá eiganda til þessa fyrirtækis til þess að standa undir félagslegum þætti framkvæmda á þess vegum og tryggja á þann hátt viðunandi jöfnuð í raforkuverði. Ég mun, eftir því sem aðstæður leyfa og ef ég gegni á næsta ári starfi iðnrh., beita mér fyrir því, að lengra verði gengið en von er til að fram náist í þessum efnum nú, og treysti ég á góðan stuðning hv. alþm. við þá stefnu.

Ég vil að það komi hér fram, að mér hefur komið á óvart sú verulega andstaða sem hefur verið við þá blönduðu leið, sem ég vil kalla svo, sem hér er farin til þess að ná fram vissri leiðréttingu á því mikla óréttlæti sem viðskiptavinir Rafmagnsveitnanna og Orkubús Vestfjarða eru beittir, ef nota mætti það orðalag í sambandi við raforkuverð. Ég átti satt að segja von á því, að sú stefna, sem mörkuð er í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. um jöfnun á raforkuverði, ætti meiri hljómgrunn innan stjórnarflokkanna, sem höfðu tjáð sig samþykka því að frv. þetta væri flutt, hún ætti meira fylgi en raun hefur á orðið. Og ég harma að fleiri skuli ekki hafa treyst sér til að styðja þetta mál. Ég hef áður sagt að ýmsir vegir eru vissulega færir og komi til álita í sambandi við þetta mál, og það er áhorfsmál hver kunni að vera réttasta og farsælasta leiðin. En sú gata, sem hér er troðin, er gamalþekkt og innheimta verðjöfnunargjalds á sér sína sögu. Ástæðan fyrir því, að ég taldi rétt að beita mér fyrir hækkun þess, var fyrst og fremst sú að ná fram réttlátari stefnu í gjaldskrám Rafmagnsveitna ríkisins en ella væri unnt.

Og þá skal ég aðeins koma að því, sem hv. þm. Gunnar Thoroddsen spurðist hér fyrir um, þ.e. á hvern hátt rafmagnsveiturnar mundu notfæra sér þá viðbót verðjöfnunargjalds sem lögð er til í frv. og sérstaklega með orðalagi brtt. sem ég hef hér flutt. Ég vil fyrst geta þess, að hvatinn til þess, að ég hef lagt fram brtt. sem heimiluð hefur verið til umr., hefur komið úr máli hv. þm. hér í d. og þá ekki síst þeirri brtt. sem hv. þm. Ellert B.Schram lagði fram í kvöld og mælti fyrir nokkrum orðum. Ég tel að það sé réttmætt að verða við þeim mörgu ábendingum frá hv. þm. sem fram hafa komið þess efnis, að tryggja beri með vissum hætti að þær tekjur, sem inn koma við hækkun á verðjöfnunargjaldinu, renni til þess sérstaklega að ná fram nokkrum jöfnuði í hinum almennu töxtum hjá Rafmagnsveitum ríkisins, heimilistaxta og iðnaðartöxtum eða vélataxta. Sú breyting, sem ég hef lagt til að gerð verði á frv., miðar að þessu. Hvernig að því verði staðið er að nokkru mál Rafmagnsveitna ríkisins og stjórnar þess fyrirtækis, en iðnrn, mun vinna að því, að þetta gjald nýtist í því skyni sem hér er lagt til.

Eins og fram hefur komið og raunar er gerð grein fyrir í grg. með frv. er unnt að ná fram verðjöfnun með því að sporna við frekari gjaldskrárhækkunum á tilteknum töxtum hjá Rafmagnsveitunum, og þetta er leið sem ég tel sjálfsagt að fara. Við erum enn á tímabili allörrar verðbólgu og beiðnir um gjaldskrárhækkanir berast að, og verður eflaust óhjákvæmilegt að verða við hækkunarbeiðnum hjá rafveitum á næstu mánuðum að einhverju marki, þótt eflaust verði reynt að sporna einnig þar við eftir því sem fært þykir, en þá tel ég sjálfsagt að ekki verði um að ræða hækkanir á þeim töxtum sem hér eru sérstaklega tilgreindir. Hvort réttmætt þykir og vænlegt að fara að greiða þessa taxta niður með því sem innheimtist, það tel ég orka tvímælis, hvort réttmætt sé að ráðast í það og hvort þetta gjald skilar það miklu, en þó er sjálfsagt að athuga það. Sú athugun hefur ekki verið gerð af minni hálfu en ég tel réttmætt að einnig verði athugað hvort að sú leið sé fær.

Hv. þm. Gunnar Thoroddsen spurði hvort ætti að nota þetta fjármagn í tvenns konar skyni, þ.e.a.s. til þess að greiða niður eða létta á skuldabyrðum Rafmagnsveitnanna í leiðinni. Ég tel að þess þurfi að gæta, að þessum tekjum verði ekki varið í að greiða niður vaxandi rekstrarhalla, að leita verði þá annarra leiða til þess að bæta þar úr þannig að þessi viðbót á verðjöfnunargjaldinu, ef samþ. verður, nýtist fyrst og fremst að því markmiði sem brtt. mín og óskir margra hv. þm., sem hér hafa talað, standa til.

Ég vænti þess, að menn geti látið sér þessi svör nægja, þótt ýmsir hefðu e.t.v. kosið að sjá þessa reikninga nánar útfærða en ég hef séð mér fært að gera með orðum mínum hér.

Það hefur komið fram áður í máli mínu í fyrri umr. um þetta efni, að til stæði að fara yfir taxta Rafmagnsveitnanna og væri í undirbúningi endurskoðun á verðlagningu skv. marktaxta og rafhitunartaxta með tilliti til viðmiðunar við olíuverð. Rafmagnsveitustjóri hefur tjáð mér að undirbúningur sé í gangi að þessu leyti og muni berast til míns rn. innan skamms tillögur varðandi þetta atriði.

Ég vil taka fram, að það er fullur vilji af minni hálfu og í mínu rn. til þess að fara yfir málefni Rafmagnsveitna ríkisins, bæði rekstur þeirra með tilliti til hagkvæmni og fjármögnun þess fyrirtækis, hvernig að henni skuli best staðið. Og ég vil taka það fram, að kynni mín af núv. rafmagnsveitustjóra hafa verið hin bestu. Ég tel að þar sé starfsmaður sem hægt sé að bera fullt traust til og hafi hug á að bæta um rekstur sinnar stofnunar og standa í hvívetna sem best að málum. Ég tel að þær grg., sem hv. þm. hafa fengið frá stofnun hans í tengslum við þetta mál, beri þess vitni að þar er ekki flanað að neinu, þar er fram haldið skýrum rökum í máli, það geti orðið mönnum nokkuð til upplýsingar um málefni fyrirtækisins og beri vott um að forusta þess er trausts verð.

Verðjöfnun á raforku er markmið ríkisstj., og það frv., sem hér liggur fyrir, er leið að því marki. Nokkrir hv. þm. hafa dregið í efa að það væri röksamhengi í þessari leið, en ég held að menn geti við nánari skoðun á það fallist, að það er hægt að ná fram verðjöfnun eftir henni og að því leyti sé heitið á þessu frv. ekki rangnefni. Það gjald, sem inn kemur, og hækkun þess, sem hér er lögð til, lýtur að þessu markmiði þótt sannarlega sé það í of litlum mæli.