25.10.1978
Efri deild: 8. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

15. mál, happdrættislán vegna framkvæmda við orðurveg og Austurveg

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Þegar lög um happdrættislán vegna Norðurvegar og Austurvegar voru samþ. vorið 1975 markaði Alþingi mikilvæga stefnu í samgöngumálum þjóðarinnar, enda náðist víðtæk samstaða um þá stefnumörkun. Með þessari löggjöf ákvað Alþingi að hraða gerð aðalvega landsins, stefna að góðvegakerfi. Megináherslan yrði lögð á að fullgera veginn milli Akureyrar og Reykjavíkur, en samhliða yrði stórátak gert til að bæta Austurveg allt til Egilsstaða.

Lögin gerðu ráð fyrir því, að 2000 millj. kr. yrðu boðnar út í happdrættisskuldabréfum í þessum tilgangi næstu fjögur árin og kæmi það fé til viðbótar því fjármagni sem til þessara vega væri veitt í vegáætlun. Ef sæmilega stöðugt verðlag hefði verið og lögunum framfylgt út í æsar væri þessu verkefni nú u.þ.b. að ljúka.

Hins vegar fór svo, illu heilli, að lögin um Norðurveg og Austurveg hafa fram til þessa ekki náð nema takmörkuðum árangri. Ber þar margt til:

Í fyrsta lagi hefur hin geigvænlega verðbólga skert þetta fjármagn eins og annað.

Í öðru lagi voru framlög til verklegra framkvæmda skorin niður í sambandi við viðnám gegn verðbólgu og þá klipið af framlögum til þessara meginvega.

Í þriðja lagi var kapp lagt á gerð Borgarfjarðarbrúar nokkrum árum of snemma.

Og í fjórða og versta lagi lét Alþingi sig hafa það að brjóta landsins lög með því að samþ. vegáætlanir sem gengu í blóra við lög um Norðurveg og Austurveg, þótt þm. allir ættu að vita að lögum er ekki unnt að breyta með þingsályktum.

Samgrh. í fyrrv. ríkisstj, og síðan ríkisstj. í heild gáfu yfirlýsingar um það, að þrátt fyrir þessi tiltæki yrði tilgangi laganna náð, en nokkru síðar en áætlað hafði verið. Þeirri ríkisstj. entist þó ekki aldur til að uppfylla það fyrirheit og er málið því enn í höndum Alþingis.

Ekki á ég von á því, að sú skoðun þm. hafi breyst frá því er lögin voru sett, að brýna nauðsyn beri til að gera stórátak í vegamálum. Þvert á móti hlýtur að mega vænta þess, að menn hafi enn betur sannfærst um það nú en þá var, að óhjákvæmilegt er að ljúka gerð aðalvega landsins, enda hafa sönnur verið á það færðar, að fátt er betri fjárfesting en gerð góðra vega þar sem umferð er jafnmikil og nú þegar er á aðalvegum landsins. Þess vegna geri ég mér vonir um að víðtæk samstaða geti náðst nú ekki síður en 1975 hér á Alþ. um að afla verulegs fjár til Norðurvegar og Austurvegar með innlendri lántöku hjá almenningi, samhliða því sem haldið verði áfram annarri vegagerð af auknu kappi. Sjálfstfl. setti á s.l. vori fram heildarstefnu í vegamálum, og mun þáltill. í samræmi við þá stefnumörkun brátt verða lögð fram á Alþ., en einn liður þeirrar stefnu er einmitt að afla þess fjár sem hér um ræðir.

Auðvitað er mér fullljóst að menn getur greint á um leiðir til fjármögnunar, þótt þeir séu sammála um nauðsyn framkvæmda. Skattheimtubrjálæðið í þessu landi er nú orðið með þeim hætti að meira þola menn ekki, hvorki beina né óbeina skatta, og raunar er ég þess fullviss, að senn muni fólk segja: hingað og ekki lengra, — og síðan spörkum þessu kerfi öllu út í hafsauga. Auknir skattar, hvort heldur er á umferð eða annað, koma því ekki til greina að mínum dómi til að framkvæma þetta verkefni sem þó verður að ná fram að ganga.

Þá er nefnd sú auðvelda leið að taka erlend lán, stórlán, allt þar til lánstraust er þorrið og óðaverðbólgan situr hér ein við völd, eins og mér sýnist raunar að sé á næsta leiti.

Nú hef ég síður en svo neina fordóma gagnvart hóflegum erlendum lántökum til arðvænlegra framkvæmda, og það er gerð góðveganna sannarlega, kannske arðvænlegri en flest annað. Ég mundi t.d. vera því meðmæltur, að erlent lán yrði tekið til að ljúka gerð Borgarfjarðarbrúar. Úr því að ráðist var í hana of snemma er ekki um annað að ræða en að ljúka henni sem fyrst og koma í veg fyrir að sú framkvæmd taki meira og minna fjármagn frá allri annarri vegagerð í landinu.

Hins er líka að gæta, að það er öfugmæli, að verið sé að leggja byrðar á komandi kynsóðir þegar ríkisvaldið tekur lán til að ljúka vegagerð. Þvert á móti er verið að létta afkomendum okkar byrðarnar, því að þeir þurfa þá ekki að glíma við þetta verkefni í jafnríkum mæli og endurgreiðslur lána verða örugglega miklu léttbærari en kostnaður við framkvæmdina sjálfa eftir mörg ár eða áratugi.

Hins vegar er grundvallarmunur á því, hvort við tökum lánin hjá sjálfum okkur eða erlendu fólki. Þegar lán eru boðin út innanlands til opinberra framkvæmda gerist ekkert annað en það, að fjármagn fólksins er notað til framfara án þess að það sé svipt eignarréttinum, eins og raun er á við skattpíningu. Þótt mér sé fulljóst að núv. stjórnarherrar geti vel hugsað sér að ganga feti framar til að firra borgarana því sjálfstæði sem samfara er almennum eignarrétti, hygg ég að þeir óttist þegar viðbrögðin. Þess vegna vona ég að þeir taki því fegins hendi þegar stjórnarandstöðuþm. bendir á sanngjarna og heilbrigða leið til að greiða fyrir brýnustu framkvæmdum í þessu landi. Von mín er þess vegna sú, að frv. þetta verði samþ., jafnvel einróma, annaðhvort óbreytt eða með einhverjum breytingum.

Ég legg til, herra forseti, að máli þessu verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. að þessari umr. lokinni. Ég veit að n. mun skoða málið gaumgæfilega, en vonandi þó ekki allt of lengi. Ekkert kappsmál er mér það, að frv. verði samþ. óbreytt. Ég geri mér fulla grein fyrir því, að ýmislegt annað kemur til greina en nákvæmlega þessi aðferð. T.d. get ég mjög vel hugsað mér að í stað verðtryggingar í lögunum yrði tekin upp gengistrygging og þá helst í hvað harðastri mynt, eins og t.d. þýskum mörkum.

Framkvæmd laganna fram að þessu hefur líka verið skelfilega klaufaleg. Happdrætti verður að reka á nútímalega vísu, þannig að ungir menn sem aldnir hafi ánægju af því að fylgjast með framkvæmdinni, bæði vegna þess að þeir gera sér grein fyrir því, að þeir eru að vinna að mikilvægu málefni í þágu þjóðarinnar, og eins af hinu, að þeir vænta sér vinnings sem um munar eins og í alvöruhappdrætti. En menn þurfa líka að eiga þess kost að ráða meiru um hvert fjármunir þeirra renna, a.m.k. að vita hvort peningarnir fari í Norðurveginn eða Austurveginn. Þá kæmi líka til greina að ákveða hreinlega að ákveðinn hluti núverandi bensínskatts rynni í sérstakan sjóð sem notaður yrði til endurgreiðslu þeirra lána sem hugmyndin er að taka, þannig að menn vissu að þeir væru ekki að greiða í ríkishítina, heldur fyrir það hagræði og þann sparnað sem þeir nytu undir stýri hverju sinni. En rétt er að undirstrika að bensínskattur og önnur gjöld á umferðina eru nú orðin svo gífurleg að lengra verður ekki haldið á þeirri braut.

Verkefni það, sem hér er miðað við að leysa á fjórum árum, er auðvitað miklu stærra en svo að happdrættislánið eitt nægi. Norðurvegur fullgerður mun líklega kosta nálægt 20 milljörðum, að Borgarfjarðarbrú undanskilinni, enda hér gert ráð fyrir að fjármagna hana með erlendu lánsfé. Vera má þó að þessi upphæð geti eitthvað lækkað ef ný tækni nýtist eins og menn vona, en í sumar hafa tilraunir verið gerðar í þá átt eins og allir þekkja.

Hlutur Norðurvegar í happdrættisfénu yrði 5 milljarðar 333 millj. eða a.m.k. fjórðungur heildarkostnaðar. Við eðlilegar aðstæður ætti fé á vegáætlun að nægja til að markinu yrði náð, ef ekki á fjórum, þá væntanlega á fimm árum, en nánari grein verður gerð fyrir þessu í umr. um þáltill. þá sem áður er um getið og nokkrir þm. Sjálfstfl. munu flytja.

Um það má lengi deila, hvaða fjárveitingar til vegamála eigi að sitja í fyrirrúmi. Um hitt verður ekki deilt, að gerð aðalvega landsins er eitt brýnasta byggðamálið, bæði vegna lækkaðs flutningskostnaðar og margháttaðs annars hagræðis. Það er stórmál og það verður fram að ganga. Um það ætti að geta náðst samstaða allra flokka.